Fyrir rétt rúmum tveimur vikum opnaði formaður Eflingar umræðuna með afgerandi hætti hjá Sonum Egils á Samstöðinni. Hún lýsti því yfir að hún væri ekki „woke“ og að hugmyndafræði woke-ismans væri kúgandi hugsanalöggæsla. Flott.
Sólveig Anna opnaði dyrnar og inn hrúgaðist alls kyns fólk til þess að ræða hvað „woke“ er nú eiginlega. Alls kyns fólk – fólk á fimmtugsaldri og yfir – skrifaði Facebook-statusa, svör við þeim og andsvör í slíkum mæli að það þurfti að ræsa dísilrafal til þess að halda gagnaverum Meta gangandi. Í umræðuþáttum Ljósvakans komst fátt annað að, loksins var umræðan opin. Eftir hálfan áratug undir oki skoðanakúgandi woke-ista var orðið loksins frjálst. Menn sem ekki höfðu haft annan vettvang en ræðustól Alþingis til að tjá skoðanir sínar, og reyndar greinar í blöðum. Vissulega voru eigin hlaðvörp og hlaðvörp vina þeirra, sjónvarpsviðtöl … Já, já – og ef við ætlum að fara í hártoganir getum við talið upp bari, kaffistofur, fjölskylduboð, fyrirlestrasali, bókaútgáfu, kommentakerfi samfélagsmiðla, vinahittinga og pottþétt lítilræður. En að öðru leyti gat þetta fólk hvergi tjáð sig.
Hitinn var svo mikill og áhuginn svo gegndarlaus að Stöð 2 blés til pallborðsumræðu um málið, eins og þau gera í aðdraganda kosninga eða þegar nauðsynlegt er að ræða tiltekin þjóðþrifamál. Áhorfið hefur sennilega verið nóg til þess að Sýn dró afkomuviðvörun sína til baka.
Ég vil bara segja takk. Takk, talandi stéttir, fyrir að leysa þennan hnút. Núna vitum við öll hvað „woke“ er, og við getum óhrædd stimplað fullt af drasli sem okkur finnst ekki mega falla undir „woke“ – engar áhyggjur, því það lítur ekki asnalega út þegar við tölum um „þetta woke“, „woke-isminn“ eða „woke-ið“. Takk fyrir.
Athugasemdir (2)