Vitund - Samtök gegn kynbundnu ofbeldi eru ný samtök, stofnuð af baráttukonum sem unnið hafa að breytingum í málaflokknum.
Ólöf Tara Harðardóttir, fyrrverandi stjórnarkona í Öfgum, er ein þeirra. Hún segir að markmið samtakanna sé að vinna að réttlátara réttarkerfi og auka vitund samfélagsins þegar kemur að kynbundnu ofbeldi.
Hugmyndin að samtökunum þróaðist í framhaldi af samstarfi Ólafar Töru og Guðnýjar S. Bjarnadóttur, fráfarandi stjórnarformanns Hagsmunasamtaka brotaþola, sem halda úti hlaðvarpinu Dómstóll götunnar þar sem þær fjalla um dóma í kynferðisbrotamálum á Íslandi. Þar er meðal annars horft til þess hversu lagt sakfellingarhlutfallið er í nauðgunarmálum, hversu mörgum sakfellingum í héraði er snúið í sýknu eftir áfrýjun til Landsréttar, aukning á skilorðsbundnum dómum í málaflokknum og algengi þess að sakborningar fái mildun á refsingu vegna þess hversu langur málsmeðferðartíminn er.
Kvenfyrirlitning og meintur vafi
Ekki þarf að leita lengra en í byrjun þessa mánaðar til að finna dóm þar sem „óútskýrðar tafir“ á lögreglurannsókn leiddu til mildunar refsingar yfir karlmanni sem var dæmdur fyrir ítrekuð kynferðisbrot yfir fjögurra ára tímabil gegn þroskaskertri konu sem var undirmaður hans í verslun þegar hann byrjaði að brjóta á henni.
Guðný skrifaði grein um málið sem birtist á Vísi undir yfirskriftinni „Þú mátt nauðga ef einhver karl á internetinu leyfir þér það“ þar sem hún gagnrýnir að „þrír menn sem fengnir voru heim til brotaþola til að brjóta á henni kynferðislega voru ekki ákærðir fyrir nauðgun“. Dóminn segir hún vera „hrópandi kvenfyrirlitning“ auk þess sem hann sendi þau skilaboð að þriðji aðili geti veitt samþykki.
Ólöf Tara skrifar síðan grein sem birtist í gær á Vísi undir yfirskriftinni „Er samþykki barna túlkunaratriði?“ þar sem hún gagnrýnir að áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar hafi verið veitt karlmanni sem var dæmdur fyrir nauðgun gegn barni undir 15 ára aldri en í áfrýjunarbeiðninni var vísað til þess ,,að úrslit málsins hefði fordæmisgildi og verulega almenna þýðingu um það hvort barn undir fimmtán ára aldri gæti gefið samþykki fyrir samræði eða öðrum kynferðismökum,” sem hún telur að sé undarlegt að sé túlkunaratriði yfir höfuð. „Það hefði verið fordæmi ef Hæstiréttur hefði hafnað þessari fáránlegu beiðni og sent þannig skýr skilaboð þess efnis að það er ekki í lagi að fullorðið fólk hafi samræði við eða nauðgi börnum,” skrifar hún.
Herferðir og hindranir
Greinaskrif eru ein þeirra leiða sem samtökin hyggjast nota til að vekja athygli á brotalömum í réttarkerfinu þegar kemur að kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi. Mun fleira sé í vinnslu enda samtökin nýstofnuð og segir Ólöf Tara að þær séu að skipuleggja árið, þar sem meðal annars séu á dagskránni herferðir með áherslu á vitundarvakningu.
„Við viljum koma sjónarmiðum brotaþola á framfæri. Ýmsar brotalamir eru innan kerfisins en það eru einnig hindranir í lagalegum skilningi og því verklagi sem tíðkast þegar kemur að þessum málaflokki. Við erum að þreifa fyrir okkur hvernig við getum haft sem mest áhrif,“ segir hún.
„Við viljum koma sjónarmiðum brotaþola á framfæri“
Auk Ólafar Töru og Guðnýjar eru stofnendur samtakanna þær Olga Björt Þórðardóttir, Fríða Rós Valdimarsdóttir og María Hjálmtýsdóttir sem allar hafa látið til sín taka í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi í gegn um árin á opinberum vettvangi.
Samtökin eru komin með síðu á Facebook og þar er þegar að finna einn viðburð þar sem þau standa fyrir feminískri sýningu á Prima Facie í samstarfi við Bíó Paradís á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars. Um er að ræða uppfærslu breska Þjóðleikhússins á verkinu sem sett var upp á Íslandi undir nafninu Orð gegn orði. Viðburðurinn er hluti af Kvennaárinu 2025.
„Það getur verið erfitt að standa í þessu en það er líka oft gaman“
Ólöf Tara segir þær í Vitund standa á herðum annarra feminískra aktívista og baráttufólks sem hafi tekið slaginn í gegn um árin og áratugina, og oft þurft að kljást við mikið mótlæti. Hún þekkir það sjálf að hafa starfað með aktívistahópnum Öfgum, sem komu inn í samfélagsumræðuna af miklum krafti á sínum tíma en fyrr í vikunni var tilkynnt um að hópurinn hefði látið af störfum þó reyndar hefði ekki mikið heyrst til hans að undanförnu. Ólöf Tara segir mikla orku fara í starf sem þetta og það hafi ákveðin þreyta myndast eftir mikið álag yfir langan tíma hjá þeim sem störfuðu í nafni Öfga.
Þegar lesið er yfir athugasemdir við fréttir um endalok Öfga má einmitt sjá skrif á borð við „Þær fara þá bara aftur til helvítis“, „Núna er sannarlega einum ofbeldis öfga og níðhópnum færra á Íslandi“ og „Ljótu kellingarnar“.
Ólöf Tara hvetur sem flesta til að taka þátt í feminískri baráttu, og þar skipti samstaðan miklu. „Það getur verið erfitt að standa í þessu en það er líka oft gaman,“ segir hún.
Athugasemdir