Elon Musk finnst gaman að gera óskunda. Nýjasti grikkur Musk beinist að forsætisráðherra Bretlands. Í nýlegri færslu á samfélagsmiðli sínum X, sakar Musk Keir Starmer um að hafa verið „samsekur um að nauðga Bretlandi“ þegar hann starfaði sem ríkissaksóknari á árunum 2008–2013. Heldur tæknimógúllinn því fram að Starmer hafi í embættistíð sinni skirrst við að ákæra félaga glæpagengja sem stunduðu kynferðisbrot gegn börnum á Norður-Englandi.
Pólitískir andstæðingar Starmers tóku ásökunum Musk fagnandi. Stuðningur barst Starmer hins vegar úr óvæntri átt.
Árið 2002 heyrði Andrew Norfolk, blaðamaður málefna Norður-Englands hjá The Times, orðróm um skipulagða misnotkun á ungum hvítum stúlkum af hálfu karlmanna af pakistönskum uppruna. Þingkona í Yorkshire kvað sjö mæður af svæðinu hafa sagt menn sitja um dætur þeirra, misnota þær kynferðislega og láta þær ganga á milli manna sem þeim var sagt að sofa hjá.
Átta árum síðar, eftir ítarlegar rannsóknir, skrifaði Norfolk sögulegan greinabálk í The Times um bæinn Rotherham og glæpagengi sem stunduðu þar nauðganir og mansal á stúlkum allt niður í ellefu ára aldur.
Norfolk fletti hins vegar ofan af fleiru en grimmúðlegri meðferð misindismanna á ungum stúlkum. Í ljós kom að bæði lögreglu og félagsmálayfirvöldum hafði verið kunnugt um það sem fram fór í Rotherham. Þau höfðu hins vegar ekkert aðhafst.
Hvers vegna ekki?
Að hluta til var ástæðan uppruni gerendanna; einstaklingar og stofnanir óttuðust ásakanir um rasisma. Aðgerðarleysið skýrðist þó ekki síður af viðhorfi í garð fórnarlambanna sjálfra.
„Þetta snerist um snobb,“ sagði eitt fórnarlambanna í blaðaviðtali. „Við vorum stimplaðar stelpur af verkamannastétt sem væru til í tuskið. Látið var að því liggja að við hefðum stigið sjálfviljugar inn í þennan eitraða heim því við þráðum athygli karlmanna. En það sem við þurftum var hjálp.“
Reglur saksóknarans
Fréttaumfjöllun Norfolk leiddi til opinberrar úttektar og tryggði Norfolk fremstu blaðamannaverðlaun Bretlands. En hún kom fleiru til leiðar.
Í nóvember síðastliðnum settist Andrew Norfolk í helgan stein. Í kjölfar ásakana Elons Musk í garð Keirs Starmer sá blaðamaðurinn sér þó ekki annað fært en að stíga aftur fram í sviðsljósið. Norfolk starfaði lengst af fyrir The Times, dagblað sem hallt er undir breska Íhaldsflokkinn og er gagnrýnið á Starmer. Norfolk varði engu að síður sextugsafmæli sínu í útvarpsviðtali á BBC þar sem hann hélt uppi vörnum fyrir forsætisráðherrann.
Norfolk upplýsti um fund sem Starmer, sem ríkissaksóknari, hafði óskað eftir með blaðamanninum. Starmer vildi vita hverjar Norfolk teldi ástæður þess að saksóknarar vítt og breitt gæfu svo sjaldan út ákærur á nauðgunargengin sem blaðamaðurinn skrifaði um.
Norfolk vissi skýringuna. Fórnarlömbin voru stúlkur með veikan félagslegan bakgrunn sem sneru ítrekað aftur í faðm ofbeldismannanna því þær trúðu því að gerendurnir væru kærastar þeirra. Vitnisburður stúlknanna var oft óáreiðanlegur enda helltu gerendurnir í þær áfengi og dældu í þær eiturlyfjum. Samkvæmt viðmiðunarreglum saksóknaraembættisins þóttu málin af þessum sökum ekki líkleg til sakfellingar og voru þau því látin niður falla.
Þekktir gerendur
Í síðustu viku var Sigurjón Ólafsson, karlmaður á sextugsaldri, dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að hafa ítrekað nauðgað andlega fatlaðri konu og látið aðra menn brjóta gegn henni.
Málið vakti óhug. Sagði Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar, „undarlegt að það eru þarna fleiri menn sem eru þekktir gerendur og þeir eru ekki ákærðir“. Kvað Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari málið hafa verið „skoðað á sínum tíma“ en ekki þótt „líklegt til sakfellis“.
Í kjölfar fundar blaðamannsins Norfolk breytti Keir Starmer viðmiðum saksóknaraembættisins sem hamlað höfðu ákærum á hendur skipulögðum nauðgunargengjum. Leiddi aðgerðin til þess að fjöldi manna var ákærður og sakfelldur.
Í skilaboðum frá Sigurjóni Ólafssyni til eins mannanna sem hann bauð að stunda kynlíf með fórnarlambinu segir: „Við getum ákveðið þetta hún [hlýðir]. Hún er 43 ára [...] Svo sagði ég henni ef þig langar að taka hana einn einhvern tímann þá yrði hún að gera það. Hún á bara að [hlýða]. [...] Já ég [ræð] henni og hvað hún gerir.“
Framkvæmdastjóri Þroskahjálpar sagði í viðtali að vitað væri að fatlað fólk væri útsett fyrir ofbeldi en að sú vitneskja væri ekki nýtt til að sporna við því. Þyki sönnunargögn á borð við skilaboðin að ofan ekki uppfylla viðmið saksóknara til ákæru má velta fyrir sér hvort viðmiðin – rétt eins og í tilfelli stúlknanna í Rotherham – þarfnist breytinga.
Athugasemdir