1. Læstur inni í íbúðinni sinni í fimmtán ár
Mest lesna viðtal ársins var við Ásdísi Snjólfsdóttur. Sveinn Bjarnason, sonur hennar, er með mikla fötlun og bjó í fimmtán ár í læstri íbúð á vegum velferðarsviðs Akureyrarbæjar. Mál hans varpar ljósi á alvarlegar brotalamir í þjónustu við fatlað fólk á Íslandi og sýnir hvernig mannréttindi hafa verið virt að vettugi árum saman.
2. Voru orðin lífsreynd og tilbúin fyrir betra líf saman
Bárður Sigurgeirsson húðlæknir og eiginkona hans Linda Björg Árnadóttir kynntust á stefnumótaforritinu Tinder fyrir sjö árum. Fimmtán ára aldursmunur er á hjónunum sem þau segja að hafi aldrei truflað. „Það er bara dásamleg tilfinning að vera ástfanginn og eiga traustan vin en ég er ekki bara ástfanginn af konunni minni heldur er hún líka minn besti vinur,“ segir Báður.
3. „Vildi að við hefðum verið teknar af mömmu“
Systurnar Krista og Alma Ósk Héðinsdætur ólust upp við vafasamar aðstæður. Sagan af uppeldi þeirra veitir innsýn inn í veruleika barna sem eiga hvergi skjól. Krista sagði sögu þeirra í von um að yngri systkini þeirra fengju hjálp.
4. Kærði nuddara Lauga Spa: Eins og þarna hefði ég verið sálarlega myrtur“
Fjölskyldufaðirinn Gunnar Magnús Diego opnaði sig um eftirmál nudds sem hann fór í ásamt konu sinni í Laugum Spa á vormánuðum 2023. Gunnar kærði nuddarann fyrir nauðgun en rannsóknin var felld niður vegna skorts á sönnunargögnum. „Mér fannst eins og þarna hefði ég verið sálarlega myrtur um tíma. Gjörsamlega. Tekið af mér allt. Ég var ekki neitt.“
5. Missti son sinn í eldsvoða á Stuðlum
Faðir Geirs Arnar Jacobsen, sem lést í eldsvoða á Stuðlum í október, vissi ekki að drengurinn hans væri inni á meðferðarheimilinu þegar kviknaði í. Jón K. Jacobsen segir að reynt sé að kæfa umræðu um „týndu börnin í kerfinu.“ Hann hafi barist fyrir lífi sonar síns í kerfinu en nú berjist hann í minningu hans. „Ég barðist eins og ljón til að koma honum í skjól“
6. „Hann sagðist ekki geta meir“
Þórhildur Helga Þorleifsdóttir missti Patrek Jóhann sonarson sinn árið 2021. Hann féll fyrir eigin hendi fimmtán ára gamall. „Ég gat ekki bjargað barnabarninu mínu. En ef það verður til þess að ég geti kannski bjargað einhverjum, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okkar.“
7. Mistök, hamingja og væntingar Katrínar
Í aðdraganda forsetakosninganna í vor ræddi Katrín Jakobsdóttir um líf sitt og störf. Hún missti föður sinn ung og lærði þá að lífið væri mikilvægara en dauðinn, stundin væri núna og ekki eftir neinu að bíða. „Fyrsta áfallið var þegar kom í ljós að það væri ekkert hægt að gera fyrir pabba. Annað áfall þegar hann dó.“
8. Grunaði að það ætti að reka hana
Vigdís Häsler var rekin úr starfi framkvæmdastjóra Bændasamtakanna eftir að nýr formaður tók þar við fyrr á árinu. Hún segir kosningavél Framsóknarflokksins hafa verið gangsetta til að koma honum að. Vigdís ræddi um brottreksturinn og rasísk ummæli sem formaður Framsóknarflokksins hafði um hana. Orðin hafi átt að smætta og brjóta hana niður. Hún segist aldrei munu líta Sigurð Inga Jóhannsson sömu augum eftir það.
9. Víða byggt á hættusvæðum: Kostnaðarsamur hroki nútímamannsins
Skipulagsfræðingurinn og arkitektinn Trausti Valsson ræddi um hvernig á Íslandi hefði víða verið byggt á hættulegum stöðum, án þess að gætt hafi verið að því að kortleggja margvíslega náttúruvá. „Það þurfa alltaf að koma upp ægilegar hörmungar til að fólk kveiki á málefnum. Þá loksins er eins og þjóðfélagið vakni.“
10. Eina leiðin til að halda lífinu áfram var að koma út
Baldur Þórhallsson bældi niður eigin kynhneigð frá barnsaldri og fannst hann ekki geta verið hann sjálfur. Fyrir 28 árum tók hann ákvörðun um að koma út úr skápnum, það var ekki annað í boði ef hann ætlaði að halda áfram með lífið. „Ég var ekki skotinn í neinum strákum því ég þorði ekki að leyfa mér að vera skotinn í strákum.“
Athugasemdir