„Þetta er svívirðilegt,“ segir Valgerður Árnadóttir, talskona Hvalvina, þegar blaðamaður færði henni fréttir af því að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefði heimilað hvalveiðar á ný til fimm ára. Tvö leyfi voru útgefin til veiða á langreyðum og hrefnum. Völu var brugðið þegar fréttamaður náði tali af henni.
„Þetta kemur ekki á óvart,“ sagði hún og bætti við: „Hann Bjarni er sár tapari og verður að hefna sín einhvern veginn, það er svívirðilegt að gera þetta svona.“
Valgerður bendir á að enn sé beðið eftir skýrslu starfshóps sem Katrín Jakobsdóttir skipaði síðasta vor og átti að taka út hvalveiðar á heildstæðum grunni. Von var á skýrslunni í lok janúar eða byrjun febrúar.
„Og tímasetning skýrslunnar er engin tilviljun, enda eru þessi leyfi ávallt gefin út á vorin,“ segir hún og undirstrikar þannig að tímasetning leyfisins sé sérkennileg.
„Þetta fer algjörlega á skjön við stjórnsýsluferla sem voru ákveðnir og Þetta kemur ekki á óvart, því svona vinna Sjálfstæðismenn. Þeir reyna að koma því í gegn sem þeir geta án þess að fylgja þeim ferlum sem á að fylgja og sýnir hversu ófaglegir þeir eru,“ segir Valgerður.
„Þetta er að auki mjög ólýðræðislegt. Stjórnin er fallin og verið er að mynda meirihluta flokka, en flestir flokkar á Alþingi eru andvígir hvalveiðum,“ segir hún. „Þeir eru algjörlega umboðslausir að bjóða upp á þetta,“ bætir Valgerður við.
Hún segir vinnubrögðin óboðleg og bætir við: „Það verður alveg örugglega reynt á þetta fyrir dómstólum, því það eru bara fullt af samtökum sem eru alveg til í þennan slag.“
Uppfært: Náttúruverndar samtök á Íslandi sendu sameiginlega yfirlýsingu á fjölmiðla vegna hvalveiðanna. Þar sagði orðrétt:
Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands og Ungir umhverfissinnar lýsa yfir furðu sinni og vanþóknun á útgáfu hvalveiðileyfa af hálfu starfstjórnar. Með því er lýðræðinu ekki sýnd virðing og með útgáfu leyfisins er gengið gegn hagsmunum loftslags, náttúru og dýravelferðar.
Leiðrétt: Valgerður er ekki lengur formaður félags grænkera. Það leiðréttist hér með.
Athugasemdir (3)