Þessi grein birtist fyrir rúmlega 9 mánuðum.

Viljandi gert?

Mar­in­ella Arn­órs­dótt­ir velt­ir fyr­ir sér ásetn­ingi höf­und­ar eft­ir að hafa rýnt í skáld­sög­una Ég færi þér fjöll – eft­ir Krist­ínu Mörju Bald­urs­dótt­ur.

Viljandi gert?
Bók

Ég færi þér fjöll

Höfundur Kristín Marja Baldursdóttir
Bjartur - Veröld
219 blaðsíður
Gefðu umsögn

Kristín Marja birtist lesendum í nýjum búningi í bók sinni Ég færi þér fjöll. Hér kemur manni í hug að hún sé að skemmta sér, raunar leika sér að ákveðinni hugmynd sem lesendur þekkja vel undir yfirskriftinni rómans. Atburðarásin minnir jafnvel á tíðum á franska rómantíska gamanmynd þó að það sé vissulega að finna nokkra undirtóna sem gætu þótt of myrkir fyrir þá frönsku en passa íslensku hefðinni ef til vill betur. Kristín kafar ekki djúpt í persónurnar, flestar rista þær grunnt og aukapersónurnar eru eins konar skopmyndir, sem er þó ekki endilega slæmt því það getur einnig verið áhugavert að virða fyrir sér íslenskar skopmyndapersónur. Hvernig lítur klisjan okkar út? Kristín býður upp á nokkra möguleika. Hún nær flugi í ljóðrænum lýsingum og túlkunum á íslenskri menningu, sögu og raunveruleika. Þar glittir í þá Kristínu undan skopmyndagrímunni sem lesendur þekkja vel. 

Fyrst og fremst ástarsaga

Aðalpersónurnar tvær eru hins vegar einnig óslípaðar. Fram eftir sögunni eru karakterlýsingar svo grunnar að aðalpersónurnar missa tökin á lesendum, ef ekki alveg þá næstum. Þeim fylgir drungi og erfiðleikar, eru bæði þurr og passíf og slá frá sér öll boð aukakaraktera um hreyfingu í sögunni. Ástæður fyrir þessari forðun koma vissulega í ljós seinna í bókinni en persónurnar hefði að ósekju mátt skreyta meira og gefa upp fleiri vísbendingar til þess að minna lesanda á af hverju þær skipta hann máli. Hvorug aðalpersónanna finnst mér ná fullri þrívídd og bæði eru þau enn sviplítil í lok bókar. Þær karaktervísbendingar sem upp voru gefnar voru oft eins og eftir uppskrift spennusögu, of almennar og ofnotaðar og þar sem Kristín getur óneitanlega gert betur vaknar sú spurning hvort þetta hafi verið viljandi gert?

Persónur í bókinni hírast í skugganum og eru líkari illgreinanlegum útlínum en ef til vill er aðalpersóna bókarinnar þá frekar formið sem hún klæðist. Þetta er fyrst og fremst ástarsaga og löngunin til að vita meira um sögu elskendanna er raunar það sem teymir lesandann áfram.

„Þar sem Kristín getur óneitanlega gert betur vaknar sú spurning hvort þetta hafi verið viljandi gert?“
Marinella Arnórsdóttir

Endurnýjar trú á forlagaást

Það er ákveðinn sannleikur í þessari framsetningu. Mér finnst líklegt að Kristín sé einmitt að leika sér að hugmyndinni um rómansinn og þrá okkar í hann. Í rómansinum er samkvæmt hefðinni ekki mikið lagt í persónusköpun eða listræna framsetningu, þar er í forgrunni spennan sem tengist ástinni fyrst og fremst. Þessi sammannlega þrá eftir hinni einu sönnu ást og uppskeru leitarinnar. Sameining hinna forboðnu elskenda er yfirleitt hápunktur lestursins og endurnýjar trú lesandans á forlagaást, þrátt fyrir mótbárur raunveruleikans. 

Leikur Kristínar felst, að ég tel, í öðruvísi endi en lesendur ástarsagna eiga að venjast. Rómansinn hefur á okkur ákveðið tak; við elskum flest fallegar ástarsögur, klisjukenndar eða ekki, í laumi eða ekki og eftir langan aðdraganda væntir lesandi ákveðins endis sem Kristín gefur ekki fyllilega eftir. Þannig hristir hún, með einu handtaki upp í fantasíuveröld ástarsögufíkilsins og minnir hann á æðruleysisbænina. 

Ákveðið pönk

Á mælikvarða fyrri bóka Kristínar telst Ég færi þér fjöll í lakara lagi en er á sinn hátt áhugaverð lesning. Það felst í því ákveðið pönk að þora að gera tilraunir og henda í einn rómans eftir allar hinar eðalbækurnar.


Í hnotskurn: Í bók sinni Ég færi þér fjöll mátar Kristín hefðbundna ástarsöguformið. Aðalpersónur, aukapersónur og söguframvinda sverja sig í ætt við þessar hefðbundnu formúlubókmenntir en frágangur Kristínar á sögunni setur hana að lokum í annað samhengi. Áhugaverð tilraun og leikur að væntingum bókagagnrýnenda og lesenda.

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Biðu tímunum saman eftir viðeigandi aðgengi á Vori í Vaglaskógi
4
Fréttir

Biðu tím­un­um sam­an eft­ir við­eig­andi að­gengi á Vori í Vagla­skógi

Hjör­dís Heiða Ásmunds­dótt­ir seg­ir að­gengi hafa ver­ið mjög lé­legt á tón­list­ar­há­tíð­inni Vor í Vagla­skógi þrátt fyr­ir að hún væri aug­lýst að­gengi­leg. Eini kam­ar­inn fyr­ir hreyfi­haml­aða fyllt­ist af úr­gangi, tjald­svæði var í háu grasi og eng­ir pall­ar voru svo hægt væri að sjá svið­ið. Jakob Frí­mann Magnús­son seg­ir tón­leika­hald­ara hafa brugð­ist við af bestu getu.

Mest lesið í mánuðinum

Ferðamenn hafi þrengt sér „inn í það allra helgasta“
4
ViðtalFerðamannalandið Ísland

Ferða­menn hafi þrengt sér „inn í það allra helg­asta“

Börn manns sem var jarð­að­ur frá Vík­ur­kirkju í júní segja að ís­lensk­ur rútu­bíl­stjóri hafi hleypt tug­um ferða­manna út úr rútu við kirkj­una um klukku­stund fyr­ir at­höfn. Ferða­menn hafi tek­ið mynd­ir þeg­ar kist­an var bor­in inn fyr­ir at­höfn, reynt að kom­ast inn í kirkj­una og tog­að í fán­ann sem var dreg­inn í hálfa stöng.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár