Þegar Kristrún Frostadóttir hóf fyrir hönd Samfylkingar viðræður um nýja ríkisstjórn við formenn Viðreisnar og Flokks fólksins, þær Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Ingu Sæland, voru gárungarnir fljótir að kalla hina mögulegu ríkisstjórn „valkyrjustjórnina“.
Þar var orðið valkyrja augljóslega fyrst og fremst notað í yfirfærðri seinni tíma merkingu sem „sköruleg, röggsöm kona“ eða „forkur til framkvæmda“ en hver er annars hin eiginlega merking orðsins „valkyrja“?
Og er virkilega sómi að því fyrir Kristrúnu, Þorgerði og Ingu að vera kenndar við valkyrjur?
Athyglisvert er að í ýmsum goðsagnakerfum Evrópu eru litlir hópar dularfullra og oft ískyggilegra kvenna gjarnan í bakgrunni — örlaganornir, refsinornir og fleiri.
Ef ég væri goðsagnafræðingur mundi ég kanna hvort verið gæti að þessir hópar væru einskonar bergmál þeirra tíma þegar talið er að ættbálkar í Evrópu hafi líklega lotið stjórn kvenna jafnvel fremur en karla. Þegar karlarnir tóku svo völdin í kjölfar landbúnaðarbyltingarinnar og feðraveldið fræga þróaðist, þá hafi hinn forni valdastrúktúr kvennanna orðið að skuggalegri og jafnvel óþægilegri minningu.
Reyndar er ekkert líklegra en einhverjir þjóðfræðingar eða kynjafræðingar séu löngu búin að íhuga þetta mál í þaula, en hvað sem slíkum hugleiðingum líður, þá er ljóst að í norrænum hugmyndaheimi voru valkyrjur hreint ekki hugguleg kvendi.
Í Völuspá, þar sem lýst er hinu síðasta stríði er endar með sjálfum heimsendi, þar er því lýst á einum stað hvað völvan sér í aðdraganda ragnaraka:
„Sá hún valkyrjur
vítt um komnar,
görvar að ríða
til Goðþjóðar;
Skuld hélt skildi,
en Skögul önnur,
Gunnur, Hildur, Göndul
og Geirskögul.
Nú eru taldar
nönnur Herjans,
görvar að ríða
grund valkyrjur.“
Og hverjar þær eru, þessar uggvænlegu kvensur sem nálgast, því er nánar lýst í Gylfaginningu í Snorra-Eddu:
„Enn eru þær aðrar [kvenkyns goðmögn] er þjóna skulu í Valhöll, bera drykkju og gæta borðbúnaðar og ölgagna. Svo eru þær nefndar í Grímnismálum:
Hrist og Mist
vil eg að mér horn beri,
Skeggjöld og Skögul,
Hildur og Þrúður,
Hlökk og Herfjötur,
Göll og Geirahöð,
Randgríð og Ráðgríð
og Reginleif.
Þær bera einherjum öl.
Þessar heita valkyrjur. Þær sendir Óðinn til hverrar orustu. Þær kjósa feigð á menn og ráða sigri. Gunnur og Rota og norn hin yngsta er Skuld heitir ríða jafnan að kjósa val og ráða vígum.“
Orðið valkyrjur er samsett úr orðinu „val“ sem merkir þá er drepnir eru í stríði, samanber að „falla í valinn“ en kyrjur sem sama orðið og „kjósa“. Val-kyrjur eru því eins og Snorri segir, þær sem ráða því hverjir eru drepnir í bardögum og hverjir ekki.
Og heiðnir menn trúðu því (að sögn, ég efast reyndar) að vopndauðir menn færu til Valhallar, bústaðar guðanna, og lifðu þar í vellystingum sem svonefndir „einherjar“ við veisluhöld milli þess sem þeir héldu áfram að berjast.
Og þar eiga valkyrjurnar sem sé að hafa það aukahlutverk að bera öl í krúsir fyrir hina vopndauðu karlmenn og „gæta borðbúnaðar“ þeirra.
Og Hrist og Mist á þönum með drykkjarhorn handa einherjum sem vilja!
Spurning hvort það sé mjög eftirsóknarvert hlutskipti fyrir konur að kenna sig við valkyrjur, þegar öllu er á botninn hvolft?
Athugasemdir (2)