Ég var á leiðinni í bíó þegar ég kom auga á útigangskonu sitja fyrir utan lestarstöð í Norður-London. Andlit hennar var svo þakið óhreinindum að engu var líkara en að hún væri nýstigin upp úr kolanámu. Í augum hennar ólgaði uggvekjandi óútreiknanleiki. Þrátt fyrir bannfæringu samtímans á dómhörku tók fólk ófeimið á sig krók hjá gæfuleysi hennar rétt eins og að það væri smitsjúkdómur.
Skyndilega rúllaði eldrautt epli eftir gangstéttinni. Konan hafði misst það úr greipum sér. Þótt hún væri bersýnilega ekki í ásigkomulagi til að hlaupa á eftir ávextinum sýndu vegfarendur ekki minnstu tilburði til að stöðva vegferð eplisins í átt að umferðarþungri breiðgötu, heldur stigu yfir það af mestu lipurð.
Hvers vegna beygði sig enginn eftir eplinu? Hafði fólk vanþóknun á konunni? Var það hrætt við hana? Vildi það ekki blanda sér í eitthvað sem því fannst ekki koma sér við? Vildi það ekki horfast í augu við misbresti samfélagsins, grimmd örlaganna eða sína eigin brothættu slembilukku?
Ekki bara hvað heldur hvernig
Ekki alls fyrir löngu lýsti Facebook-vinkona því yfir í færslu á samfélagsmiðlinum að hún hefði ætlað sér að kjósa Pírata í komandi alþingiskosningum. Í kjölfar skoðanakannana, sem sýndu flokkinn ekki ná þingsæti, hikaði hún hins vegar því henni leið eins og það jafngilti því að „henda atkvæðinu sínu“.
Nú þegar vika er til kosninga veltum við ekki aðeins fyrir okkur hvað við eigum að kjósa heldur einnig hvernig. Í forsetakosningunum síðastliðið sumar bar á því að fólk kysi taktískt. Sitt sýndist hverjum um réttmæti slíkrar aðferðafræði.
Sem kjósanda, sem sér ekkert athugavert við tilraunir til herkænsku í kjörklefanum, vakti Facebook-færslan athygli mína. Ég gekkst við forsendunum. Ég komst hins vegar að annarri niðurstöðu.
Þögn bæjarbúanna
Eftir að hafa fylgst með epli útigangskonunnar rúlla milli fótleggja samborgara minna tók ég á rás. Ég rétt náði eplinu áður en það féll fram af gangstéttarbrúninni, út í umferðina.
Ég gekk til konunnar. „Þú misstir þetta.“
Konan hrifsaði af mér eplið. Fingur okkar snertust – hennar voru svartir af sóti. Þar sem ég hélt mína leið ásetti ég mér að þvo mér um hendurnar áður en ég fengi mér popp.
Myndin sem ég sá í bíó bar heitið „Small Things Like These“ og fjallaði um glímu fjölskylduföður í smábæ á Írlandi árið 1985 við samvisku sína. Eftir að hann varð vitni að harðræði, sem ungar konur sættu á betrunarhæli kaþólsku kirkjunnar, stóð hann frammi fyrir ákvörðun: Reyndi hann að gleyma því sem hann sá eða setti hann sig upp á móti helsta yfirvaldi bæjarins?
Ekki leið á löngu uns bæjarbúar fóru að biðla til hans um að rugga ekki bátnum. Hvaða máli skipti hvað fór fram í klaustrinu? Örlög stúlknanna á hælinu yrðu aldrei örlög dætra hans. Nunnurnar ráku að auki barnaskóla þorpsins. Hvernig ætlaði hann að mennta dætur sínar fengju þær ekki inngöngu í skólann? „Viljir þú komast áfram í lífinu eru ákveðnir hlutir sem þú verður að líta fram hjá,“ sagði eiginkona hans.
Árið 1993 fannst fjöldagröf við klaustur á Írlandi. Varð uppgötvunin til þess að aldalangri leynd var svipt af skuggalegri meðferð á konum sem sendar voru á kaþólsk betrunarheimili. Þögn bæjarbúanna í bíómyndinni var byggð á sönnum atburðum.
„Ég þurfti að geta lifað með sjálfri mér“
Ég veit hreint ekki hvað ég ætla að kjósa í komandi kosningum. Ég veit þó að ég teldi atkvæði mínu vel varið nýtti ég það til að reyna að koma í veg fyrir að rödd Pírata hyrfi af þingi. Því í veröld þar sem reglan er að „líta fram hjá ákveðnum hlutum“ til að „komast áfram í lífinu“ eru Píratar undantekningin.
Hvers vegna beygði sig enginn eftir epli útigangskonunnar í London? Hvort sem um ræðir níðingsskap kaþólsku kirkjunnar, stjórnvöld sem misnota aðstöðu sína til að tryggja vinum hvalveiðileyfi, ógnunartilburði lögreglu í garð fjölmiðlafólks eða útigangskonu, er alltaf einfaldara að líta undan.
Það var ekki af sérstakri manngæsku sem ég hljóp á eftir epli útigangskonunnar. Ástæðan var praktísk: Ég þurfti að geta lifað með sjálfri mér.
Kysi ég Pírata gæti atkvæði mitt farið til spillis. En ég gæti þó allavega lifað með sjálfri mér.
Athugasemdir (4)