Lítið stelpuskott með mikilmennskubrjálæði og minnimáttarkennd klifraði upp í gluggakistuna í stóru stofunni með glugganum sem vísaði út á hafið og söng hástöfum, ímyndaði sér að allur heimurinn væri að hlusta. Hljóp um göturnar í smábænum sínum og lenti í heilu ævintýrunum; vindhviða varð að stormi, sólargeisli breyttist í stjörnuregn og ánamaðkur varð að risavöxnu sæskrímsli (já, þið giskuðuð rétt; hún var smá lúði). En þegar hún yrði stór ætlaði hún að sigra heiminn! Eða verða ógeðslega fræg. Eða bara meikaða … einhvern veginn. Ég er ekki alveg viss hvert planið var, en hún ætlaði að verða BEST. Og hún ætlaði að vera DUGLEGUST. Og hana langaði mjög svo að vera SÆTUST. Það gekk ekki vel með unglingabólur og snarkrullað hár sem helst vildi standa upp í loft. En það sem mestu máli skipti, hún ætlaði að PASSA Í HÓPINN.
Mætti halda að þetta væri lag með hljómsveitinni FLOTT en svo er ekki.
Bara eitthvað sem flest börn vilja; hrós frá fullorðnum og vinahóp.
Þið hafið líklegast getið ykkur til um að þetta litla stelpuskott var ég. Fædd 1994, alin upp í Borgarnesi. Mamma skólastjóri Tónlistarskólans og pabbi sjálfstætt starfandi. Ég á eina systur. Kjarnafjölskylda.
Þið hafið ef til vill líka getið ykkur til um að mér tókst ekki sérlega vel að falla í hópinn í grunnskólanum í smábænum mínum. Ég skildi ekki alveg húmorinn, gekk í skrítnum fötum, lenti í ímynduðum bardaga við ræningjaflokk á skólalóðinni, var mikið með ömmu og afa og þar af leiðandi með orðaforða ólíkan hinum krökkunum og til að bæta gráu ofan á svart, þá hlustaði ég á klassíska tónlist. Vissi hvorki um Eminem né Quarashi. Það má segja að ég hafi verið öðruvísi. Skrítin. Og það var vandamál. Fyrir týpu eins og mig.
Ég þjáist nefnilega af stolti, og þjáist enn. Ég hafði ekki áhuga á að vera utangarðs. Hvort ég lærði það af því að vera utangarðs eða hvort það er meðfætt í okkur að vilja passa í hópinn veit ég ekki. Smátt og smátt fór ég að læra á samskiptaleiðir jafnaldra minna, fylgdist með því hvað þeim þótti fyndið, hvað þeim þótti skrítið eða asnalegt og þegar komið var að útskrift úr tíunda bekk þá passaði ég alveg næstum mjög vel í hópinn. Mér fannst ég í það minnsta ekki utangarðs lengur og ég átti fullt af vinum sem voru kúl. Og fyrst ég gat komið mér upp úr lúðagryfjunni, þá ættu aðrir að geta það líka.
Ég var komin með fordóma. Fordóma fyrir því að vera öðruvísi og þeim sem eru öðruvísi.
Eða hvað?
16 ára flutti ég til Reykjavíkur, fór í MH og Söngskólann í Reykjavík. Ég var ekki lengi að sigta út þau sem þóttu öðruvísi, enda komin með 10 ára reynslu af því að lesa í hegðun og draga fólk í dilka. Tók reyndar eftir því að reglurnar voru allt aðrar í Reykjavík heldur en í Borgarnesi. En ég ætlaði nú ekki að fara að láta þetta Reykjavíkur-lið komast að því að ég væri eitthvað öðruvísi eða skrítin, nehei. Það var leyndarmál sem bara ég mátti vita.
Það er nefnilega það. Ég var skrítin, eða mér þótti ég skrítin, fannst ég ekki raunverulega passa inn. Mergur málsins er sá að fordómar mínir gagnvart þeim sem voru öðruvísi náðu líka til mín. Ég hafði fordóma fyrir sjálfri mér. En það var leyndarmál, uss, ekki segja neinum.
Og ég var reið út í þau sem voru öðruvísi því þau minntu mig á eitthvað í sjálfri mér sem ég vildi ekki kannast við. Einhvern veikleika. Svo ég reyndi að forðast þetta fólk eftir fremsta megni. En hvert sem ég fór var alltaf einhver skrítinn, einhver öðruvísi. Ég fór til Vínarborgar og lærði söng og fór svo til Danmerkur og lærði leiklist – alls staðar voru einhverjir í hópnum sem ekki dönsuðu í takt við „okkur hin“. Ég gerði mitt besta til að dansa í takt og það fór í taugarnar á mér að einhver væri „off-beat“. Ég viðurkenni, og skammast mín fyrir það, að ég hef verið ókurteis, dónaleg og dómhörð gagnvart fólki sem mér hefur þótt ekki passa. En þessi dónaskapur og hroki í sjálfri mér hefur oftar en ekki komið mér í koll. Manneskjur koma sífellt á óvart, og það sem er „off-beat“ kemur við okkur á annan hátt en hið „venjulega“ og „örugga“.
„Það er gull í okkur öllum“
Samfélög þrífast aðeins vegna þess að fólkið sem myndar þau er ólíkt, hefur ólíka hæfileika, ólík áhugamál og er tilbúið til að sinna ólíkum verkefnum. Ég skammast mín fyrir hvert einasta skipti sem ég hef verið dónaleg eða hrokafull gagnvart annarri manneskju eða ekki gefið mér tíma til að kynnast viðkomandi. Hver einasta manneskja sem hefur orðið á vegi mínum á minni stuttu ævi hefur komið mér á óvart. Hver einasta manneskja er svo miklu meira en það sem hún ber utan á sér, eða þykist bera utan á sér. Hver einasta manneskja sem ég hef gefið mér tíma til að kynnast, eða haft þau forréttindi að kynnast, hefur kennt mér svo mikið. Það mikið að ég vona að ég hætti bráðum að dæma bókina af kápunni, þó það sé erfitt fyrir lítið stelpuskott með mikilmennskubrjálæði og minnimáttarkennd.
Það er gull í okkur öllum. Stundum er það þetta skrítna sem við felum fyrir heiminum og stundum þekur það húðina svo hún glampar í sólskininu. Við þurfum að leitast við að finna gullið í öðrum sem og okkur sjálfum, hleypa því á yfirborðið.
Ég veit ekki hvort það er í eðli okkar að vera fordómafull eða hvort við lærum það einhvern tíma snemma á lífsleiðinni að óttast það sem er öðruvísi. En ef fordómar eru ekki meðfæddir má segja að lífið hafi fyrst kennt mér að öruggast sé að hafa fordóma og síðar að fordómar eru óþarfi og í raun hræðsla við eigin ófullkomleika.
Athugasemdir