Í tilefni að þingi ASÍ í vikunni var gerð könnun af Gallup fyrir verkalýðshreyfinguna á viðhorfum kjósenda til nokkurra mikilvægra stefnumála. Niðurstöður voru kynntar á þinginu (sjá hér).
Almennt kemur fram mikil óánægja með sumt af því sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt mikla áherslu á og sumt af því sem hann hefur leitast við að ná fram í fráfarandi ríkisstjórn.
Fyrst var lögð fyrir almenn spurning um „hvort kjósendur teldu að samfélagið væri á réttri eða rangri leið, þegar horft er til hagsmuna almennings“. Þar voru niðurstöður mjög afgerandi, eins og fram kemur á myndinni hér að neðan.
Nærri 70% svarenda töldu samfélagið vera á rangri leið og einungis um 17% sögðu samfélagið vera á réttri leið. Þetta er mikil óánægja.
Gallup í Bandaríkjunum spyr þessarar sömu spurningar reglulega þar í landi og í nýlegri könnun þeirra sögðu um 75% að Bandaríkin væru á rangri leið. Munurinn á Íslandi og Bandaríkjunum er ekki svo mikill og kemur það á óvart í ljósi þess hve margt virðist vera í ólagi þar vestra.
Þegar svörin í íslensku könnuninni eru greind eftir þjóðfélagshópum er áberandi að þeir tekjuhæstu og stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksns eru mun oftar á því en aðrir svarendur að samfélagið sé á réttri leið. Þannig segja um 51% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins að samfélagið sé á réttri leið á móti einungis 17% almennra kjósenda.
Þau tekjuhæstu og stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins eru þannig mun sáttari við framvindu samfélagsins á síðustu árum en aðrir kjósendur.
Önnur viðhorf: Hlutverk ríkisins, auðlindir, einkavæðing, þróun heilbrigðisþjónustunnar og samkeppniseftirlit
Þegar spurt er um hlutverk ríkisins í nýtingu auðlinda til orkuframleiðslu (vatns, jarðhita og vinds) þá er yfirgnæfandi meirihluti kjósenda á því að það eigi alfarið eða að miklu leyti að vera í höndum ríkisfyrirtækja (eða um 85%). Sjálfstæðismenn styðja mun síður hlutverk ríkisins á þessu sviði (63% þeirra á móti 80-95% hjá stuðningsfólki annarra flokka).
Þegar spurt er hvort hlutdeild almennings í þeim arði sem verður til við nýtingu auðlinda sé réttlát eða ranglát segja 57% að hún sé ranglát og einungis 26% segja hana réttláta, mest stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar.
Þegar spurt er hvort stjórnvöld hafi staðið sig vel eða illa í að tryggja viðunandi heilbrigðisþjónustu segja 73% að þau hafi staðið sig illa og meirihluti svarenda segir að einkavæðing í heilbrigðiskerfinu sé slæm fyrir almenning. Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar eru oftar á öndverðri skoðun.
Loks þegar spurt er hvort eftirlit með samkeppni á neytendamarkaði sé of lítið, hæfilegt eða of mikið þá segja um 78% að það sé of lítið.
Samantekt
Á heildina litið er meirihluti kjósenda á öndverðri skoðun við stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins og þá hæst launuðu í samfélaginu, í ofangreindum málaflokkum. Framsóknarfólk fylgir stundum í humátt á eftir Sjálfstæðisfólki.
Allt kristallast þetta í því að stór meirihluti kjósenda telur að samfélagið hafi verið á rangri leið á undanförnum árum og það eru stefnuáherslur Sjálfstæðisflokksins sem rekast oftast á viðhorf almennings í þessum málum. Allt eru þetta mikilvæg mál fyrir hagsmuni almennings.
Þess vegna virðist rökrétt að kjósendur snúi sér í meiri mæli frá Sjálfstæðisflokknum og þeim sem næst honum standa og styðji flokka sem endurspegla betur viðhorf og óskir almennings.
Athugasemdir (1)