Þung staða á húsnæðismarkaði er okkur flestum kunn og hvort sem horft er til leigu- eða fasteignamarkaðar þá erum við komin í botnlaus vandræði.
Að mínu mati er grundvallaratriði að takast á við þá þróun að fjöldi eigna safnist á fáar hendur. Það er óþolandi að fólk geti ekki komið þaki yfir höfuð á sama tíma og einstaklingar og fyrirtæki safna fjölda eigna sem heldur verði og spennustigi á markaðnum uppi. Fjölmörg dæmi eru um ungt fólk sem reynir að eignast sína fyrstu eign en er stöðugt yfirboðið af einstaklingum og fyrirtækjum sem ætla ekki að nýta eignirnar til eigin búsetu.
Ég vinn nú að þingmáli um skatt á eignir umfram eigið húsnæði sem er notað til búsetu. Ég sé fyrir mér að skatturinn sé lágur á aðra eign því vissulega eru mörg dæmi þess að fólk þurfi vegna ýmissa aðstæðna að fjárfesta í annarri eign. Sem dæmi má nefna fólk á landsbyggðinni sem kaupir litla íbúð í Reykjavík vegna atvinnu eða náms. Eins eru það foreldrar sem eru að aðstoða börn sín og fjárfesta í íbúð til að koma þeim af leigumarkaði. Þegar svo fjárfest er í þriðju eign yrði skatturinn hærri og þegar um fjórðu eign eða fleiri færi hann enn hækkandi. Þetta er ein tillaga af útfærslu til að takast á við það nauðsynlega verkefni að tryggja að húsnæði sé nýtt sem heimili fólks sem á þarf að halda.
Annað sem verður að takast á við er sú staðreynd að stór hluti húsnæðis á landsbyggðinni er notaður undir sumarhús. Við sjáum í mörgum sveitarfélögum blómlega byggð yfir sumarið en stærstan hluta ársins standa eignir tómar á sama tíma og gríðarlegur húsnæðisskortur er fyrir hendi. Hér þarf að finna sanngjarnar leiðir til að tryggja að húsnæði þjóni þörfum nærsamfélaga.
Í þriðja lagi langar mig að nefna þá skrítnu stöðu að lánastofnanir hamla fólki mjög að festa kaup á húsnæði á landsbyggðinni. Talsvert af húsnæði er til sölu í sveitum landsins og ungt barnafólk leitar nú í meira mæli eftir því að komast úr öngþveitinu og hraðanum í borginni og fara í kyrrðina og tengsl við náttúruna. Þessi þróun er ekki séríslensk heldur er ung fólk í ríkara mæli að hafna neysluhyggju og hraða samfélaga og leita í gömul gildi um sjálfbærni. Sú staðreynd að fasteignamat í sveitum er lægra, óháð ástandi eignanna, gerir það að verkum fólk þarf að eiga þeim mun meira eigið fé. Þetta hefur verið mikill Þrándur í götu.
Það má segja að þetta ástand sem ég hef lýst hér að framan sé hluti af þeim óeðlilega veruleika að 70% íbúa Íslands búa á suðvesturhorninu, ekki endilega vegna þess að það sé það sem allt þetta fólk óskar sér. Mörg óska sér einskis heitar en að geta til að mynda farið aftur heim að loknu námi en húsnæðismálin koma í veg fyrir það. Það kemur auðvita fleira til, eins og lakari heilbrigðisþjónusta og óboðlegar samgöngur.
Loks þarf að stíga mun ákveðnari skref til að stöðva gróðavæðingu á leigumarkaði. Einhvern veginn þykir sjálfsagt að leigjendur standi undir kaupum annarra á fasteign eða greiði óhóflega leigu til leigufyrirtækja sem starfa í gróðaskyni. Óöryggið getur líka verið mikið og dæmi eru um að leigjendur geti aldrei haldið jól í sömu íbúð. Í núverandi efnahagsástandi hækkar leiga svo mjög að fjöldi leigjanda á í erfiðleikum með að ná endum saman. Þak yfir höfuð á að teljast til mannréttinda og við eigum að vernda þau réttindi umfram rétt þeirra sem eiga eignir til útleigu.
Tíminn til að taka á húsnæðiskreppunni er núna. Ekki eingöngu á fólk að geta notið þess sjálfsagða réttar að eiga heimili, heldur líka að raunverulegt val um hvar það vill búa.
Þrándur bjó í Götu í Færeyjum. Máltæki geta verið vandmeðfarin.
Píratar lögðu fram slíkt frumvarp á síðasta þingi og hafa nú lagt það fram í annað sinn á yfirstandandi þingi. Flokkur fólksins hefur líka lagt fram frumvarp sem er ætla að takmarka aðgengi einkafjárfesta að lánsfé til að safna að sér mörgum íbúðum í samkeppni við fólk sem er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið.
Ef eitthvað er marka þá afstöðu sem kemur fram í greininni hlýtur greinarhöfundur að styðja þessi frumvörp, jafnvel þó þau komi frá öðrum flokkum. Eða er ekki sama hvaðan gott kemur?