Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra ætlar að gefa kost á sér til formanns Vinstri grænna. Þetta sagði Svandís í samtali við fréttastofu Vísis að loknum fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Svandís bætti því við að hún hlakkaði til landsfundar og að hennar áhersla yrði á að lyfta flaggi Vinstri grænna sem allra hæst.
Landsfundur VG verður haldinn í Reykjavík dagana 4.- 6. október.
Svandís segir í samtali við Vísi að fólk ætti að fara að setja sig í stellingar fyrir þingkosningar í vor. Þetta bendir til þess að ríkisstjórnarsamstarfið gæti endað fyrr en búist var við en að óbreyttu ættu þingkosningar að fara fram að hausti á næsta ári.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og starfandi formaður VG, lýsti í gær yfir stuðningi sínum við Svandísi í formannsembættið. Hann hefur sinnt formennsku fyrir flokkinn síðan Katrín Jakobsdóttir hvarf frá stjórnmálum í vor. Sjálfur sækist Guðmundur Ingi eftir því að verða varaformaður flokksins á ný. Það ætlar Jódís Skúladóttir, þingmaður flokksins, einnig að gera.
Athugasemdir