Á síðasta ári las ég allt sem ég komst yfir um trúarhreyfingu gnosta og goðaheim þeirra sem þróaðist í frumkristni í Palestínu og Egyptalandi og leitaði til Rómar. Áráttan er orðin þannig að ég spegla mitt eigið persónulega líf og stöðu samfélagsins í þessum gnostaheimi. Gnostismi snéri samfélagsmiðlum á hvolf með kenningum sínum.
Gnostar héldu því fram að innra með hverri manneskju væri brot af yfirskilvitlegum Guð, eins konar krafti, upphafi sem dvelur handan þessa heims en býr líka innra með hverri einustu manneskju, öllu fólki en ekki bara fáum útvöldum. Að vísu héldu þeir líka fram að vitneskja um þennan neista væri kirfilega haldið frá manneskjunni með blekkingum sem eru útfærðar af Demiurge, afbrýðisömum og valdagráðugum sköpunarguði sem lifir í efnisheiminum sem hann skapaði.
Sem sagt meðal okkar.
Þetta rataði ekki beint inn í biblíuna á sínum tíma þrátt fyrir að það sé hægt að lesa biblíuna með gnosta-gleraugum og sjá atriði úr hugmyndaheim gnosta.
En með þennan sameiginlega guðsneista sem útgangspunkt voru allir jafnir hjá gnostum.
Þrællinn, kúgarinn, konur, karlar, gyðingar og Grikkir. Þeim hefði kannski tekist að byggja upp siðmenntað heilbrigt samfélag á þessum grundvelli með þátttöku kvenna og þræla. En það gerðist ekki og í lok 4. aldar bannfærði kirkjan gnosta á grundvelli villutrúarmennsku, brenndi handrit þeirra og þeir hurfu af yfirborðinu. Hin postullega kirkja tók völdin í sínar hendur og margfaldaði feðraveldi sitt, pakkaði konum saman, tók af þeim orðið og fór í víking með nýlenduþyrstum villimönnum.
Þegar ég er að lesa um gnosta og afdrif þeirra þá fæ ég á tilfinninguna að samfélag okkar sé enn þá í höndunum á þessu sama feðraveldi sem tók völdin í lok fjórðu aldar. Eins og það hafi verið von í smá tíma sem hafi runnið sitt skeið. Mig langar að ímynda mér að við hefðum getað þróast í átt til jafnréttis og samkenndar og kærleika en því miður gerðist það ekki. Þvert á móti styrktist ofbeldisfullt feðraveldið. Allar stoðir samfélagsins byggja enn þá á þeirra stigveldi, með sama strúktúr og kirkjan forðum. Stofnanir samfélagsins og jafnvel stofnanir eins og hjónabönd eins og það var hannað forðum eru brennimerktar þessum valdastrúktúr.
Í baráttunni fyrir Palestínu er verið að framfylgja mennskunni og klofningurinn er augljós á milli baráttunnar annars vegar og stjórnvalda, fjölmiðla og alþjóðlegra stofnana sem virðast eindregið reka erindi valdhafa.
Þau sem bera baráttuna á herðum sér eru mikið til konur hér á Íslandi. Þau eru að framfylgja sannleikanum. Litla skiltið sem stendur upp úr er sannleikurinn sem stingur í stúf við lygina.
Alveg sama hvernig honum er pakkað inn og hann kýldur niður aftur og aftur. Ég held að sannleikurinn sé ódrepandi, hann rís alltaf aftur upp eins og zombie og líklega það eina sem mun standa eftir að leikslokum.
Í Palestínu-baráttunni verður valdakerfi okkar augljóst. En lygin verður líka augljós. Hvernig fólk raðar sér bak við hinn sterka. Þrátt fyrir að mannréttindi séu í húfi. Starfandi fólk innan valdakerfisins heldur að sér höndum í þessari friðarbaráttu. Þau vilja ekki styggja húsbóndann og híma undir húsvegg og ætla að bíða þetta af sér. Gnostar myndu segja að þau væru að sinna sínum djöfli.
Reyndar virðist vera bakslag í kvennabaráttunni, kannski út af misskiptingunni í kjölfarið á nýfrjálshyggjunni sem bitnar verst á konum. Ég var í sundi um daginn og þar sátu tíu stelpur á fyrsta ári í menntaskóla saman í pottinum. Þær litu allar eins út, með sams konar tan, með aflitað sítt hár sett upp í hnút eins og húsmæður á miðri síðustu öld. Alveg gorgeous. Húsmæðurnar sem gátu keypt sér þvottavél. Ég velti fyrir mér hvort þetta væri tíska eða merki um bakslag.Vissulega er meira val hjá stúlkum í dag en hins vegar eru þær líka svo bundnar kröfum samfélagsins. Gamlar staðalímyndirnar eru bara að styrkjast. Ímyndir sem þjóna seint frelsinu til þess að hugsa sjálfstætt.
Fjölmiðlar og einnig valdafólk er stöðugt að hamra á því að það sé hættulegt að vera öðruvísi.
Valdhafar hafa síðasta ár haldið því fram að fólk með öðruvísi húðlit sem er að flýja ástand þar sem það er í lífshættu sé hættulegt íslensku samfélagi. Þannig tekst valdhöfum að stía okkur í sundur. Við trúum á ímyndir en ekki hugmyndir og stórfyrirtækin keyra herferðina áfram. Til þess að viðhalda valdastrúktúrnum þarf að stía fólki í sundur og raða hópum upp og niður eftir stigveldinu. Að fella niður múra á milli fólks er hættulegt valdinu enda voru gnostarnir drepnir og Jesús krossfestur fyrir vikið.
Athugasemdir (1)