Alþjóðalögreglan Interpol hefur lýst eftir ungum manni, Þóri Kolka Ásgeirssyni, sem hefur ekki spurst til frá lokum júlímánaðar. Fram kom í fréttum fjölmiðla í dag að lýst hefði verið eftir Þóri 30. júlí eftir að fjölskylda hans missti samband við hann. Líklegt er talið að hann hafi heimsótt Ítalíu, Sviss og Egyptaland upp á síðkastið.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er faðir Þóris, eins og komið hefur fram í fréttum í dag og birt er á vef Interpol. Hann útskýrir leitina í stuttri færslu í Facebook í dag og biður um svigrúm. „Við – fjölskylda Þóris Kolka - leituðum til lögreglu vegna þess að við höfðum ekki haft spurnir af honum um nokkurn tíma. Var í kjölfarið lýst eftir honum af Interpol, að okkar ósk,“ segir hann.
Í færslu sinni biður Ásgeir um svigrúm til þess að vinna að málinu utan kastljóss fjölmiðla. Fram kom í viðtali við Grím Grímsson, yfirlögregluþjón og tengilið Íslands við Interpol, á Vísi í dag að maðurinn „gæti verið í hættu“.
Þetta ber Ásgeir að hluta til baka í færslu sinni. Á síðustu dögum hefur hann fengið vísbendingar sem hafa sefað áhyggjur fjölskyldunnar tímabundið. „Nú, fyrir örfáum dögum fengum við fregnir af honum sem hafa gert okkur rólegri, um sinn.“
Fjallað var um leitina að Þóri á Vísi.is, mbl.is, Rúv.is og víðar í dag. Í færslu sinni þakkar Ásgeir sýndan hlýhug. „Við viljum síðan senda öllum þeim hlýjar kveðjur, sem hafa sýnt okkur stuðning og velvilja í dag.“
Óskað er eftir því að þau sem gætu haft upplýsingar um ferðir Þóris hafi samband við lögreglu.
Athugasemdir