Þessi grein birtist fyrir rúmlega 7 mánuðum.

Óvinsælasta ríkisstjórn Íslands í 15 ár og minnsta fylgi Framsóknar frá upphafi

Fylgi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar minnk­ar í nýj­asta Þjóðar­púlsi Gallup en flokk­ur­inn er enn stærsti flokk­ur lands­ins. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hef­ur að­eins einu sinni mælst með jafn lít­inn stuðn­ing og sam­an­lagt fylgi rík­is­stjórn­ar­flokk­anna mæl­ist í fyrsta sinn í sögu henn­ar und­ir 30 pró­sent­um. Rík­is­stjórn­in er jafn­framt sú óvin­sæl­asta sem Ís­land hef­ur átt í rúm­lega 15 ár.

Óvinsælasta ríkisstjórn Íslands í 15 ár og minnsta fylgi Framsóknar frá upphafi
Formenn stjórnarflokkanna Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins leiða ríkisstjórnina. Allir þrír flokkarnir missa fylgi í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup. VG nær ekki inn þingmanni, Framsókn jafnar minnsta fylgi sitt og Sjálfstæðisflokkurinn stefnir í verstu niðurstöðu frá upphafi.

Samfylkingin er enn stærsti flokkur landsins samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup sem greint var frá á RÚV í gærkvöld. Flokkurinn tapar samt sem áður mestu fylgi milli mælinga. Samfylkingin mælist með 26,9 prósent fylgi, þremur prósentustigum minna en flokkurinn mældist með í maí. Þetta er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með síðan í mars 2023. 

Þjóðarpúls Gallup/Heimildin

Ýmsar breytingar eru á fylgi flokka milli mánaða. Aðrir flokkar sem mælast með minna fylgi nú eru Framsóknarflokkurinn, fylgi hans minnkar um 2,5 prósentustig, og fylgi Sósíalistaflokksins minnkar um 0,2 prósentustig og mælist nú 3,5 prósent.  

Á sama tíma hækkar fylgi Viðreisnar og Flokks fólksins um nær tvö prósentustig hjá hvorum flokki. Ríflega níu prósent kysu og næstum átta prósent Flokk fólksins. Fylgi annarra flokka breytist lítið milli mánaða. 

Framsókn jafnar minnsta fylgið og Sjálfstæðisflokkurinn stefnir í verstu niðurstöðu frá upphafi

Þegar rýnt er í niðurstöður Þjóðarpúlsins má ráða ýmislegt í stöðu stjórnmálaflokka landsins.  Framsóknarflokkurinn er að mælast með sitt minnsta fylgi í könnunum Gallup frá upphafi, 6,6 prósent. Flokkurinn hefur aðeins einu sinni áður mælst með nákvæmlega jafn lítið fylgi, það var í september 2018. Flokkurinn myndi fá fjóra þingmenn að óbreyttu. Þetta yrði langversta niðurstaða flokksins frá upphafi ef staðan í könnunum myndi raungerast í kosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú mælst með undir 20 prósent fylgi í könnunum Gallup sleitulaust síðan í september í fyrra, og með undir 19 prósent fylgi í fimm af sex mánuðum þessa árs. Hann hefur aldrei fengið undir 23,7 prósent í þingkosningum og stefnir því í sína verstu niðurstöðu frá upphafi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einungis einu sinni á lýðveldistímanum ekki verið sá flokkur sem naut mest stuðnings í kosningum, í fyrstu kosningunum eftir hrunið árið 2009. Nú mælist hann 8,4 prósentustigum minni en Samfylkingin.

Þjóðarpúlsinn er önnur könnunin í röð þar sem Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi, en flokkurinn mælist með 15 prósent fylgi í nýjustu könnun Maskínu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir fylgistapið í könnunum vísbendingu til að líta inn á við og setja aukinn kraft í hægristefnuna, eins og hún kemst að orði í samtali við mbl.is. Hún segir Sjálfstæðisflokkinn hafa fórnað og miklu í samstarfi við flokka sem eru á öndverðum meiði í stjórnmálunum. 

Aukinn kraft til hægriÁslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, vill að Sjálfstæðisflokkurinn setji aukinn kraft í hægristefnuna.

Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn hafa starfað saman í ríkisstjórn frá 2017. Vinstri græn hafa leitt sitjandi ríkisstjórn þangað til í apríl þegar Katrín Jakobsdóttir hætti og fór í forsetaframboð sem hún tapaði. Fylgi Vinstri grænna mælist áfram mjög lítið og annan mánuðinn í röð er flokkurinn með of lítið fylgi til að ná inn manni. Í maí var fylgi 3,3 prósent en nú fjögur prósent. Þetta eru tvær verstu mælingar sem flokkurinn hefur nokkru sinni fengið í könnunum Gallup.

Fylgi ríkisstjórnarinnar í fyrsta sinn undir 30 prósentum

Ríkisstjórnin sem er í dag með 38 þingmenn af 63, myndi fá 17 ef kosið yrði í dag samkvæmt Þjóðarpúlsinum. Samanlagt fylgi flokkanna sem að henni standa mælist í fyrsta sinn í sögu hennar undir 30 prósent, eða 29,1 prósent. Þeir fengu 54,3 prósent atkvæða í síðustu kosningum.

Stuðningur við ríkisstjórnina mælst nú tæplega 28 prósent samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Síðasta skiptið sem stuðningur við ríkisstjórn mældist undir 30 prósent var í maí 2012, þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sat að völdum. Frá aldamótum hefur það raunar einungis gerst tvisvar að ríkisstjórnir hafi farið undir 30 prósent stuðning. Í fyrra skiptið í janúar 2009, þegar hrunstjórn Geirs H. Haarde, samansett af Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu, fór í niður í 26 prósent og svo vorið 2012 hjá áðurnefndri stjórn Jóhönnu, sem var skipuð Samfylkingu og Vinstri grænum. Ríkisstjórn hefur ekki mælst með jafn lítinn stuðning síðan í janúar 2009, þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde var við það að falla. Þetta er því óvinsælasta ríkisstjórn sem Ísland hefur átt í rúmlega 15 ár, og sennilega sú næst óvinsælasta í sögunni að hrunstjórninni undanskilinni.

Miðflokkurinn klár í kosningar 

Miðflokkurinn hefur aldrei mælst með meira fylgi í könnunum Gallup, alls 14,5 prósent. Það er níu prósentustigum meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins segir vera kominn tíma á kosningar, en þær verða í síðasta lagi haustið 2025, eftir rúmt ár. Sigmundur Davíð spáir því að Vinstri græn muni sprengja ríkisstjórnarsamstarfið í haust. „Eins og sak­ir standa þá myndi ég veðja á það verði VG eft­ir lands­fund þeirra í októ­ber,“ seg­ir Sig­mund­ur í samtali við mbl.is

Formaður MiðflokksinsSigmundur Davíð Gunnlaugsson er klár í kosningar og spáir því að Vinstri græn sprengi ríkisstjórnarsamstarfið í haust.

Samfylkingin dalar mest allra flokka milli mánaða og hefur ekki mælst minni síðan í mars í fyrra, eða í 15 mánuði. Hún er samt sem áður enn langstærsti flokkurinn samkvæmt mælingum með 26,9 prósent og myndi bæta við sig 17 prósentustigum milli kosninga að óbreytta, sem er meira en nokkur annar flokkur.

Viðreisn hefur ekki mælst með meira fylgi en nú, alls 9,4 prósent, síðan í apríl 2022. Flokkurinn er yfir kjörfylgi sem var 8,3 prósent. Píratar eru á nákvæmlega sama stað og þeir voru í síðasta mánuði og sýna mikinn stöðugleika í fylgi, sem er þarna á milli átta og níu prósent. Það þýðir að þeir eru í kjörfylgi, en þeir fengu 8,6 prósent haustið 2021.

Flokkur fólksins er aðeins að hressast og er kominn á svipaðan stað og í byrjun árs með 7,7 prósent en eru ekki búin að ná kjörfylginu sem var 8,9 prósent. Sósíalistaflokkurinn mælist minnstur allra með 3,5 prósent, sem er svipað og hann hefur verið að mælast með á kjörtímabilinu. Hann hefur ekki mælst með yfir fimm prósent fylgi, sem myndi tryggja jöfnunarþingmann, síðan snemma á síðasta ári.

Þjóðarpúls Gallup sýnir að fjórir flokkar hafa bætt við sig frá síðustu kosningum og þeir eru allir í stjórnarandstöðu, Samfylkingin og Miðflokkurinn langmestu (samanlagt 26 prósentustigum), en Viðreisn og Píratar mun minna. Allir aðrir flokkar myndu tapa fylgi og ríkisstjórnarflokkarnir langmestu, eða 25,1 prósent. Samfylkingin, ein og sér, mælist með nánast sama fylgi og ríkisstjórnarflokkarnir samanlagt, eða 26,9 prósent á móti 29,1 prósent.


Könnunin var framkvæmd dagana 3.–30. júní 2024. Heildarúrtaksstærð var 8.786 og þátttökuhlutfall 47,3 prósent. Þátttakendur voru valdir af handahófi úr viðhorfahópi Gallup.
Kjósa
18
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu