Sú var tíðin að flokkum sem mætti kalla forvera Vinstri grænna í íslenskri pólitík þótti sæma að standa með þeim sem minnst máttu sín í lífsbaráttunni og lökust kjör höfðu í íslensku samfélagi. Ekki bara öryrkjum og öldruðum heldur einnig fólkinu sem ekki hafði annað að selja en vinnu sína.
Verkalýðshreyfingin átti einatt sína fulltrúa á Alþingi sem börðust fyrir bættum kjörum launafólks á hverjum tíma. Meira að segja Arnfirðingurinn Guðmundur J. Guðmundsson, Gvendur jaki, beitti sér alltaf upp í vindinn og hafði samúð með lítilmagnanum alla tíð. Var samt steypt af stalli á gamals aldri fyrir að taka við ferðapeningum sem reyndust vera frá Hafskipi þegar upp var staðið en ekki Alberti Guðmundssyni. Var ekki sanngjarnt. Við minnumst líka mannvinarins Einars Olgeirssonar og baráttumannsins Eðvarð Sigurðssonar. Menn sem engar kröfur gerðu sér til handa í neinu tilliti aðrar en að berjast áfram fyrir réttlátara þjóðfélagi.
Bjarni Benediktsson, núverandi forsætisráðherra, talaði á 17. júní um skautun í íslensku samfélagi á víggirtum Austurvelli. Hver er þessi skautun Bjarna Ben? Hann skilgreindi það ekki nákvæmlega, hins vegar mátti skilja það sem svo að farið er að heyrast hærra í fólki sem líður ekki tiltektir núverandi ríkisstjórnar, einkum í útlendingamálum og utanríkismálum, viðkomandi tiltektum morðóðra Ísraelsmanna. Þar dratthalast þessi ríkisstjórn á eftir Ameríkönum sem fyrri daginn. Það er nefnilega fjöldi fólks sem kann þessa sögu allt frá Balfour-yfirlýsingunni frá og til þess að Thor Thors sendiherra og fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum lagði fram tillöguna um að gyðingar fengju athvarf í Palestínu upp úr seinna stríði. Gata í Jerúsalem hlaut nafngiftina Íslandsstræti í þakklætisskyni. Ég geri ekki ráð fyrir að hinn menningarsnauði og lítt lesni Bjarni Benediktsson kunni þá sögu. En þetta er svona.
Stjórnmálaflokurinn Vinstri græn hafa nú setið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum hátt á annað kjörtímabil og Framsóknarmenn legið til fóta. Öll illvirki Sjálfstæðisflokksins þar á meðal nýsamþykkt útlendingafrumvarp voru í boði Vinstri grænna. Þetta horfum við nú á gamlir kommar og getum ekkert að gert. En það eru ekki aðeins við gömlu sósarnir sem fylgdum VG að málum heldur allur þorri kjósenda þeirra.
„Mestu hrossakaup lýðveldissögunnar höfðu átt sér stað.“
Um það bil sem fylgi flokksins í skoðanakönnunum var komið niður fyrir þingsæti sá formaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, sér þann kost vænstan að yfirgefa fleyið og fara í forsetaframboð. Íhaldið studdi þessa ráðstöfun heils hugar og skrímsladeild íhaldsins fór á kreik ásamt Morgunblaðinu og öðrum áróðursmaskínum íhaldsins. Bjarni Benediktsson var um leið dubbaður upp í forsætisráðherrann enda þótt hann væri óvinsælasti ráðherrann um langt skeið. Mestu hrossakaup lýðveldissögunnar höfðu átt sér stað. En hér sannaðist enn einu sinni að þjóðin er ekki fífl. Hún sá í gegnum þetta og Katrín Jakobsdóttir lenti á köldum klaka þrátt fyrir að allar kosningamaskínur íhaldsins hefðu verið þandar á yfirsnúning.
Umræðan eftir forsetakosningarnar var með ólíkindum. Talað með tæpitungu um taktíska aðferð þeirra sem kusu ekki Katrínu en fylgdu Höllunum til að koma í veg fyrir sigur Katrínar. Þegar Halla Hrund virtist lífvænleg sem forseti var ráðist gegn henni af Morgunblaðinu og skrímsladeildunum af fullri hörku og bar árangur. Þá var eftir hin Hallan sem lengi hafði verið í útlöndum og erfitt að finna höggstað á henni. Þegar svo var komið rétt fyrir kosningar flykktu kjósendur sér um Ameríku-Höllu sem sigraði með yfirburðum. Þjóðin keypti alls ekki hrosskaup íhaldsins og Katrínar Jakobsdóttur og allra allra síst Bjarna Benediktsson sem forsætisráðherra. Það var bara þannig þótt ýmis skrauthvörf hafi verið notuð um mannasætti og stórgáfur Katrínar og ég veit ekki hvað. Kjósendur hennar höfðu bara kosið með fótunum, flokkurinn að veslast upp.
Nú hjarir þessi blessaða ríkisstjórn og hangir saman af því að það hefur enginn kjark til slíta henni enda vill enginn stjórnarflokkanna kosningar. Þar bíður þessara flokka afhroð, ekki síst Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokkurinn er í sögulegri lægð. Framsóknarflokkurinn er ekki eins illa haldinn því hann er ætíð tilbúinn að hlaupa í skarðið hvað sem líður fylgi. Allir eru tilbúnir að taka flokkinn upp í hjónasængina því hann gerir ekki aðrar kröfur en til nauðþurfta og einstaka bitlinga sem kunnugt er.
Ef Bjarni Benediktsson er að velta fyrir sér skautun í íslensku samfélagi þá er hann höfuðsmiður þeirrar skautunar með klaufaskap sínum og dómgreindarleysi í ríkisstjórn sem löngu er búin að lifa sjálfa sig.
Höfundur er fréttamaður, rithöfundur og forðum félagi í flokknum Vinstri græn.
En ég velti því fyrir mér afhverju Vilmundur Gylfason er svo sjaldan nemendur er kemur að því að verja lítilmagnann.