Stundum elda ég kvöldverð með því að setja allt hráefnið á eina pönnu, saman í ofn. Nýverið hef ég tamið mér að skera þá sætar kartöflur niður í klumpa, ræmur eða litla mola til samræmis við það hversu lengi annað hráefni ætti að vera í ofninum. Ef þær fara til dæmis með frosnum kjúklingabringum í ofninn – og það er í fínu lagi, bringurnar geta jafnvel orðið gómsætar ef rétt er með þær farið – þá sker ég sætu kartöflurnar í stóra klumpa til að þær þoli rúman klukkutíma í ofninum líka. Ef sætu kartöflurnar fylgja hins vegar ferskum fiski í ofninn og eru þar í hálftíma eða skemur, þá sker ég þær í fínni ræmur og kalla þær franskar.
Áður sat ég stundum uppi með hráar sætar kartöflur, stundum brenndar, en nú er það liðin tíð. Það hlýtur að vera hyggjuvit. Ég kann lag á einhverju nú sem ég kunni ekki þá. Einhvern veginn hef ég þá lært það.
Helst vildi ég miðla einhverju öðru en húsráðum, einhverju sem er ekki svona augljóslega nytsamlegt. En flest sem ég veit hefur þegar verið sagt. Kannski allt. „Lífið er ekki vegur heldur garður,“ sagði Kurt Vonnegut. „Við komum og förum gegnum sama hliðið. Á flandrinu skiptir minna máli hvert við förum en hverju við veitum athygli.“ Það á við um allan meiri háttar lærdóm sem ég man, aðrir hafa þegar orðað hann vel.
„Ég kann lag á einhverju nú sem ég kunni ekki þá.“
Einu sinni birtist grein eftir mig í blaði, á ensku, þar sem ég fór hörðum orðum um heimsfrægan bandarískan hagfræðing. Þetta var ekki blað með alþjóðlega dreifingu heldur staðbundinn miðill á Íslandi. Greinin var auk þess ekki um þennan hagfræðing, hann kom þar aðeins stuttlega við sögu. Þess vegna kom það mér á óvart þegar mér barst tölvupóstur, nokkrum dögum síðar, frá syni hagfræðingsins. Honum þótti ég hafa vegið illa að föður sínum. Ég svaraði honum, hissa, sagðist ekki hafa farið með rangt mál, færði fyrir því rök. Sonurinn svaraði að bragði: „Ég skrifaði þér ekki til að karpa um þetta, enda skiptir enginn um skoðun í miðri þrætu. Ég get bara vonast til að þetta sitji í þér, nagi þig, og að einn daginn standirðu þig að því að vera á öðru máli en þú ert núna. Vertu sæll.“
Bráðum verða liðin tuttugu ár síðan. Álit mitt á hagfræðingnum hefur ekki mikið breyst en þessi nálgun sonarins á þrætur sat í mér. Yfirleitt skiptir fólk ekki um skoðun í miðri þrætu, ekki frekar en það skiptir um fótboltalið í miðjum leik, og af skyldum ástæðum. Enn karpa trúaðir stundum við trúlausa og þó hefur það aldrei gerst að annar segi við hinn: „Heyrðu, ég sé hvað þú átt við. Þú hefur lög að mæla. Hvernig fór þetta fram hjá mér?“ Ekki í miðri þrætu.
Enn fyrr, um tuttugu árum áður en sonur hagfræðingsins skrifaði mér, var ég barn og átti þrjár litlar myndskreyttar bækur sem endursögðu hver eina af dæmisögum Jesú Krists. Tvær þeirra man ég: Þar var sagan um miskunnsama Samverjann og sagan um sáðmanninn, þann sem sáði fræi í misgóðan jarðveg. Þar sem fræið fær næði í góðum jarðvegi vex af því jurt og af jurtinni ávöxtur, sagði Jesús, og þannig fer líka um fagnaðarerindið. Mér sýnist nú að þetta eigi við um alls konar orð. Að hafi þau áhrif sé það frekar með hraða gróðurs en með hraða skotvopna.
Löngu síðar las ég sömu dæmisögur í frumheimildunum, guðspjöllunum sjálfum. Samkvæmt þeim spurðu lærisveinarnir Jesúm, að sögustundinni lokinni, hvað hann hefði átt við. „Eruð þið eitthvað tregir?“ spurði frelsarinn á móti. „Eruð þið ekki enn búnir að ná þessu?“ Fyrst jafnvel þeir voru svona misjafn jarðvegur get ég viðurkennt að það er ég líka. Á dögunum viðraði ég fordóma mína í garð kórastarfs við vin minn, að ég óttaðist þátttakendur í kórum eins og hverja aðra fasistahreyfingu, þessi löngun í samstillingu væri klárlega viðsjárverð. Ég bjóst við góðum undirtektum en hann svaraði fullum hálsi að í kórastarfi lærði fólk að láta sér lynda hvað við annað, það væru karlfauskar eins og ég sem sætum uppi án félagslífs þegar aldurinn færist yfir. Ég fann strax til þessarar óþægindatilfinningar, að kannski hefði ég farið með fleipur. Viðrað skoðun sem hæfði í besta falli unglingi. Kannski. Síðan eru liðnar nokkrar vikur. Ég mun láta svarið gróa aðeins lengur áður en ég bregst við því. Ef mér snýst hugur vil ég játast því – með tíð og tíma.
Og já, jú, það hef ég þá lært, líklega. Ekki að þrætur séu einskis virði. Alls ekki. Einhvern veginn þurfa orðin að komast um. Þegar vel tekst til geta bæði þátttakendur og vitni setið uppi með fræ í sér, eitthvað sem skýtur rótum, vex og varpar loks einhverju um koll. Með tíð og tíma. En ekki meðan á þrætunni stendur. Ég ætlast hvorki til þess af mér né öðrum. Það hef ég að minnsta kosti fyrir vinnutilgátu. Að við sem þrætum séum þá frekar saman komin til að leyfa fræjum að fjúka.
Sóun er ekki slæm. En sóun er vandaverk, vilji maður sóa vel. Sóa í eitthvað skemmtilegt. Ekki brenndan mat eða forbrostnar vonir. Þessi lærdómur, að já, orð gera hluti en flesta hluti gera þau hægt, hann hefur nú tekið mig um fjörutíu ár. Miskunnsami Samverjinn heldur áfram að benda mér á hvernig ég bregst og bregst aftur, dagana langa. Einn daginn man ég kannski hver þriðja dæmisagan var. Og vona að mér endist þá ævin til að hún megi gróa.
Athugasemdir