Rétt tæpur mánuður er til forsetakosninga og frestur til að skila inn gildum framboðum rann út fyrir viku síðan. Fyrir liggur að tólf einstaklingar munu keppast um að verða næstu ábúendur á Bessastöðum. Þeir hafa aldrei verið fleiri.
Að meðaltali hafa verið gerðar þrjár skoðanakannanir á viku undanfarið, ein frá Gallup, ein frá Maskínu og ein frá Prósent. Nú fer þeim fjölgandi og í gær bættist Félagsvísindastofnun í hóp þeirra sem kanna stöðu mála. Búist er við tveimur könnunum í dag, annarri frá Maskínu síðdegis og svo frá Gallup í kvöld.
Heimildin hefur nú þegar keyrt átta kosningaspár í samstarfi við dr. Baldur Héðinsson, en hann hannaði kosningaspálíkan fyrir áratug sem vigtar fyrirliggjandi kannanir og spáir um líklegustu niðurstöðu.
Í nýjustu spánni er staðan þannig að Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, og Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri eru hnífjafnar í efsta sæti. Katrín mælist með 26,1 prósent fylgi á meðan að 26,0 prósent segjast ætla að kjósa Höllu Hrund.
Skammt á hæla þeirra kemur Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, með 24 prósent. Ekki er marktækur munur á fylgi þessara þriggja og því ljóst að það stefnir í mjög spennandi kosningabaráttu. Jón Gnarr, leikari og fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, er eini frambjóðandinn utan þeirra þriggja sem mælist með tveggja stafa fylgi, en alls segjast 12,3 prósent ætla að kjósa hann. Stuðningur við hann hefur farið mjög þverrandi í síðustu könnunum.

Fleiri færa sig yfir á efstu frambjóðendur
Frá því að fyrsta kosningaspáin var keyrð 13. apríl hefur Halla Hrund rúmlega fimmfaldað fylgi sitt. Hún er eini frambjóðandinn sem hefur bætt við sig fylgi frá þeim tíma. Katrín hefur tapað 4,9 prósentustigum, Jón 6,7 prósentustigum og Baldur tveimur prósentustigum.
Sá hópur sem ætlar sér að kjósa einhvern af þeim fjórum frambjóðendum sem mælast nú með mesta fylgið hefur líka verið að þéttast. Alls mælast þeir nú með 88,4 prósent sameiginlegt fylgi en alls sögðust 81 prósent ætla að kjósa þau fjögur rétt fyrir miðjan apríl.
Þeir frambjóðendur sem komast næst efstu fjórum eru Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team, sem bauð sig líka fram til forseta árið 2016, og Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómari. Alls segjast 4,2 prósent ætla að kjósa Höllu en 3,4 prósent Arnar Þór. Þá segjast 1,5 prósent ætla að kjósa Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur leikkonu en öll þrjú hafa tapað fylgi frá því að fyrsta kosningaspáin var keyrð. Hinir fimm frambjóðendurnir mælast svo samtals með 2,5 prósent.
Allt öðruvísi fylgisdreifing en fyrir átta árum
Athyglisvert er að bera stöðu mála nú saman við kosningaspá sem framkvæmd var þegar sami tími var til kosninga síðast þegar nýr forseti var kosinn á Íslandi, sumarið 2016. Þá var strax mun skýrari mynd komin á líklega niðurstöðu. Guðni Th. Jóhannesson, sem vann og hefur setið sem forseti síðastliðin tæp átta ár, mældist þá með yfirburðaforskot á hina átta frambjóðendurna sem sóttust eftir embættinu með 60,5 prósent stuðning. Sá sem mældist með næstmestan stuðning tæpum mánuði fyrir kosningarnar þá var Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og nú ritstjóri Morgunblaðsins. Fylgi hans var þó einungis þriðjungur af fylgi Guðna, eða 20,3 prósent.

Guðni mældist með yfir 50 prósent fylgi í öllum kosningaspám þangað til í vikunni fyrir kosningarnar. Í síðustu kosningaspánni sem framkvæmd var þá var fylgi hans 45,8 prósent, eða heilum 27,6 prósentustigum yfir næsta frambjóðanda. Þegar talið var upp úr kjörkössunum reyndist fylgi Guðna enn minna, hann fékk 39,1 prósent sem var 11,2 prósentustigum yfir þeim sem lenti í öðru sæti. Sú mikla sveifla bendir til þess að fjöldi kjósenda sé tilbúinn til að endurskoða hvert hann setur atkvæði sitt undir lok kosningabaráttunnar og færa það á þann frambjóðanda sem þeir geta helst sætt sig við á meðal þeirra sem eiga raunhæfan möguleika á sigri, frekar en að „sóa“ atkvæðinu á sinn uppáhalds frambjóðanda sem kannanir sýna að litlar sem engar líkur séu á að geti sigrað.
Halla Tómasdóttir á svipuðum stað og 2016
Sá frambjóðandi sem tók mest til sín á lokasprettinum 2016 var Halla Tómasdóttir. Tæpum mánuði fyrir kosningar mældist hún með 3,8 prósent fylgi, eða aðeins minna en hún mælist með í dag. Fyrri reynsla ætti því að gefa Höllu byr í seglin, enda endaði hún með 27,9 prósent atkvæða. Hinir tveir frambjóðendurnir sem fengu tveggja stafa fylgi þá – Davíð sem endaði með 13,7 prósent og Andri Snær Magnason rithöfundur sem endaði með 14,3 prósent – enduðu báðir með minna fylgi en síðasta kosningaspáin benti til þess að þeir væru að mælast með. Þeir tólf frambjóðendur sem sækjast eftir því að verða næsti forseti mætast í fyrsta sinn allir í kappræðum á RÚV í kvöld en fjórir efstu samkvæmt kosningaspánni mættust í Pressu á Heimildinni fyrir viku. Halla Tómasdóttir, Arnar Þór, Steinunn Ólína og Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, mætast í Pressu í hádeginu í dag.
Þær kannanir sem teknar eru gildar í kosningaspánni verða að uppfylla lágmarksskilyrði tölfræðilegrar aðferðafræði. Þar er litið til stærðar úrtaksins, fjölda svarenda, könnunartímabils og þess hvort úrtakið standist kröfur til að reynast marktækt, svo fátt eitt sé nefnt.
Eftir kosningarnar 2017 lagðist Katrín og hirð hennar í sæng með flokki hins siðblinda Bjarna Ben.
Áður hafði flokkur hennar lýst því yfir að Sjálfstæðisflokkurinn væri helsti pólitískur andstæðingur VG.
Eftir þingkosningarnar 2017 var það eitt fyrsta verk nýju ríkisstjórnar Katrínar að LÆKKA veiðigjöldin.
Katrínu er hreinlega ekki treystandi. Hún á EKKERT erindi á Bessastaði !!!