Alls segjast 69 prósent aðspurðra í nýrri könnun sem Maskínu gerði fyrir Heimildina vera neikvæðir gagnvart þeim breytingum sem voru nýlega gerðar á ríkisstjórn Íslands, en þær fólu meðal annars í sér að Katrín Jakobsdóttir steig út úr stjórninni og Bjarni Benediktsson varð forsætisráðherra. Einungis tæp 16 prósent þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni sögðust vera jákvæðir gagnvart breytingunum.
Þá sögðust 84 prósent vera þeirrar skoðunar að nýja ríkisstjórnin, nú kennd við Bjarna en áfram skipuð Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, myndi gera minna gagn eða engu breyta. Þar af töldu 42 prósent að stjórnin myndi gera minna gagn en sú sem sat fyrir.
Breytingarnar á ráðherraskipan fólu í sér, auk stólaskipta Bjarna, að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, fór í fjármála- og efnahagsráðuneytið, Svandís Svavarsdóttir í innviðaráðuneytið og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom ný inn í ríkisstjórnina fyrir Katrínu sem matvælaráðherra. Í könnun Maskínu var spurt hvort svarendur bæru meira en minna traust til ríkisstjórnarinnar eftir mannabreytingarnar. Svörin voru afgerandi. Alls sögðust 67 prósent treysta ríkisstjórninni síður eftir þær en fyrir, 24 prósent sögðu stöðuna óbreytta en einungis tæplega níu prósent sögðust treysta stjórninni betur eftir að Bjarni tók við stýrinu.
Það rímar við svör við spurningunni um hversu mikið eða lítið traust svarendur bera til Bjarna Benediktssonar sem forsætisráðherra.
Alls sögðust 73 prósent treysta honum lítið en tæp 16 prósent vel. Aðrir treystu honum í meðallagi.
Sú vinsæla hætti, sá óvinsæli tók við
Katrín Jakobsdóttir, sem alla tíð hefur verið vinsælasti liðsmaður ríkisstjórnarinnar samkvæmt mælingum, tilkynnti föstudaginn 5. apríl að hún ætlaði að hætta sem forsætisráðherra og fara í forsetaframboð. Katrín hafði þá leitt ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá því síðla árs 2017. Eftir nokkurra daga stjórnarmyndarviðræður var ákveðið að halda samstarfinu áfram eftir brotthvarf Katrínar og að Bjarni myndi taka við sem leiðtogi ríkisstjórnarinnar.
Það var rökstutt með því að hann væri formaður þess flokks sem er stærstur í samstarfinu og fékk flest atkvæði í kosningunum 2021, þegar 24,4 prósent kjósenda kaus Sjálfstæðisflokkinn.
Gagnrýnendur hafa hins vegar bent á að Bjarni sé, samkvæmt mælingum Maskínu, langóvinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar. Í könnun fyrirtækisins sem Heimildin greindi frá i desember í fyrra kom fram að 75 prósent landsmanna vantreystu honum.
Fylgi flokkanna sem mynda ríkisstjórnina hefur líka hríðfallið það sem af er kjörtímabili og kannanir sýna reglulega að um og undir þriðjungur þjóðarinnar getur hugsað sér að kjósa þá. Auk þess er á annað ár liðið síðan að Sjálfstæðisflokkurinn mældist stærsti flokkur landsins. Það hlutverk hefur verið í höndum Samfylkingarinnar í öllum könnunum sem gerðar hafa verið síðan seint á árinu 2022.
Rúmlega 41 þúsund skrifað undir
Eftir að Bjarni tók við sem forsætisráðherra var settur af stað undirskriftalisti á Ísland.is undir yfirskriftinni: „Bjarni Benediktsson hefur ekki minn stuðning sem forsætisráðherra“. Í morgun höfðu 41.463 skrifað undir listann. Það eru töluvert fleiri en kusu Sjálfstæðisflokkinn á höfuðborgarsvæðinu í síðustu kosningum. Það gerðu 33.169 manns. Enn vantar þó aðeins upp á til að undirskriftirnar verði jafn margar þeim atkvæðum sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk í heild í þingkosningunum 2021 þar sem 48.708 manns greiddu flokknum atkvæði sitt.
Annar samanburðar sem má nefna að heildarfjöldi þeirra sem skrifuðu undir söfnun sem krafðist þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson myndi segja af sér embætti forsætisráðherra vegna eignarhalds hans á aflandsfélaginu Wintris var 30.241. Það tók um eina og hálfa viku að safna þeim fjölda frá því að söfnunin var sett af stað 27. mars 2016. Sigmundur Davíð sagði af sér 5. apríl það ár.
Vantraust lagt fram í dag
Bjarni hefur gefið lítið fyrir þá gagnrýni sem sett hefur verið fram á hann eftir að forsætisráðherraskiptin voru staðfest og sagðist á fundi sem haldinn var með flokksfólki um síðustu helgi að hann hefði fengið sinn skerf af skoðunum frá sjálfskipuðum sérfræðingum, sem væru sífellt að spá honum á útleið úr stjórnmálum.
Það truflaði Bjarna lítið og í ræðu sinni snéri hann út úr frægum orðum Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra sem sagði eitt sinn að hennar „tími mun koma“, með því að segja: „Minn tími er ekki búinn.“
Síðar í dag verður tekin fyrir tillaga þingflokka Flokks fólksins og Pírata um vantraust á ríkisstjórnina, að þing verði rofið fyrir 26. júlí og að efnt verði til almennra þingkosninga 7. september næstkomandi, rúmu ári áður en kjörtímabilinu á að ljúka.
Litlar líkur eru á því að vantraustið verði samþykkt þar sem stjórnarflokkarnir, sem hafa 38 þingmenn á Alþingi á móti 25 þingmönnum stjórnarandstöðunnar, munu að óbreyttu verja ríkisstjórn sína vantrausti.
Athugasemdir (1)