„Það er að sjálfsögðu ánægjulegt og gleðilegt að dómstóllinn taki undir sjónarmið okkar og núna, bráðum þremur árum síðar, vinnum við þetta mál. Á sama tíma er það líka kvíðvænlegt að það þurfi að ráðast í ákveðnar umbætur hvað varðar okkar lýðræðislega fyrirkomulag,“ segir Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum 2021.
Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) komst í morgun að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi brotið gegn mannréttindasáttmála Evrópu í Alþingiskosningunum 2021, í kjölfar endurtalningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Það var samhljóma álit Mannréttindadómstólsins að ríkið hafi brotið á rétti til frjálsra kosninga og rétti til skilvirks úrræðis.
Magnús kærði kosningarnar í kjördæminu til kjörbréfanefndar Alþingis og fór fram á svokallaða uppkosningu sem felur í sér að kosið yrði að nýju í Norðvesturkjördæmi. Hann, ásamt Guðmundi Gunnarssyni, frambjóðanda Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi, fóru síðar með málið til Mannréttindadómstóls Evrópu í nóvember 2021, eftir að seinni talning atkvæða í Norðvesturkjördæmi var látin standa.
Með niðurstöðu MDE er málinu er lokið fyrir dómi af mati Magnúsar. „Þessi niðurstaða felur í sér að íslenska ríkið gerðist brotlegt við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta felur ekki í sér að kosningarnar séu ógildar, þetta er áfellisdómur yfir íslenskum stjórnvöldum. Nú þarf að grípa til úrbóta til þess að tryggja að þetta gerist ekki aftur.“
Úrbætur felast í stjórnarskrárbreytingum
Magnús vonar að núverandi stjórnarmeirihluti bregðist við með viðeigandi ráðstöfunum til að tryggja að atburðarásin endurtaki sig ekki. Hann segir heilindi kerfisins í heild sinni undir. „Það er löggjafarvaldið sem velur framkvæmdavaldið, framkvæmdavaldið hefur aðkomu að því að velja dómsvaldið. Allt kerfið er undir þegar við erum að tala um kosningar. Mannréttindadómstóll Evrópu kemst að því að það hefur verið brotið gegn réttinum til frjálsra kosninga. Það er rosalega stórt, það er ekki hægt að segja annað.“
Úrbæturnar fela meðal annars í sér breytingar á stjórnarskrá að mati Magnúsar. „Nú er það í höndum stjórnvalda að bregðast við og tryggja að svona atvik gerist ekki aftur. Eitt af því sem þarf að gera í því samhengi er að breyta stjórnarskrá, svo það eru ekki þeir sem vinni kosningar hverju sinni sem kveði upp hvort kosningar hafi farið löglega fram. Það er enginn dómari í eigin sök. Það er það sem mér hefur alltaf sviðist sárast í þessu.“
Magnús segir það einnig skipta máli að niðurstaða hafi fengist áður en gengið er til þingkosninga að nýju, sem verður í síðasta lagið haustið 2025. „Ég held að það hljóti að vera. Auðvitað er fínt að kjósendur séu meðvitaðir um þetta mál og það gerist að nýju áður en við kjósum til Alþingis.“
Dómur er fallinn.