Það er vel þekkt að samrekstur banka og tryggingafélaga býður upp á hagkvæmni. Reyndar fer tvennum sögum af því hvernig það hefur gengið, sum staðar vel og annars staðar ekki en samrekstur af þessu tagi er algengur. Afkoma Landsbankans undanfarin ár hefur skilað það miklum hagnaði að eigandi bankans þarf ekki að kvarta þó lántakendur og þeir sem eiga sparifé sitt þar séu ekki sáttir. Stjórnendum bankans og bankaráði hefur verið falið af þar til bærum yfirvöldum að skila sem mestum ágóða og hámarka virði bankans.
„Armslengdin“
Sú meðvitaða ákvörðun var tekin af eigendum bankans, að skipta sér ekki af rekstrinum, en láta nægja að setja markmið um hverju hann skyldi skila. Með þetta að leiðarljósi ákveður stjórn Landsbankans að kaupa tryggingafélag. Þá bregður allt í einu svo við að eigandinn lætur í sér heyra og gagnrýnisraddir heyrast frá hægri og vinstri. Ráðherrann sem fer með eignarhald bankans segir að þetta sé ómögulegt jafnvel þó ráðherrar hafi margsinnis lýst því yfir að þeir ætluðu sér ekki að skipta sér af rekstri bankans. Án þess að segja það berum orðum þá bendir ráðherrann á að kaup bankans á tryggingafélagi stríði gegn samþykktum Sjálfstæðisflokksins um takmörkun á umfangi fyrirtækja í eigu ríkisins. Sum sé, það er hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins sem á að ráða för, en ekki sjónarmið arðbærs rekstrar.
Meiri árlegur hagnaður - meira heildarvirði
Arðbær rekstur Landsbankans ætti að vera eigandanum fagnaðarefni og ef hann verður enn arðbærari með kaupum á tryggingafélagi ætti eigandinn að gleðjast enn meira en svo er ekki að heyra. Ef kaup á tryggingafélagi gera rekstur Landsbankans arðbærari þá ættu hærri arðgreiðslur í ríkissjóð að vera vinstri mönnum fagnaðarefni. Komi til þess að bankinn verði seldur einkaaðilum í framtíðinni ætti meira að fást fyrir hann. Það ætti að vera Sjálfstæðismönnum fagnaðarefni.
Aðalfundur Landsbankans fer fram þann 17. apríl og þar verður stjórn bankans kosin. Tilnefningar um hverjir skuli sitja í bankaráðinu verða bornar upp af Bankasýslunni. Nú verður áhugavert að sjá hverja Bankasýslan tilnefnir og hvaða kröfur hún gerir til þeirra sem hún tilnefnir. Verða þeir t.d. spurðir út í hugmyndir þeirra um ríkisrekstur og einkavæðingu? Verða þeir spurðir út í virkni í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins? Verða þetta atriðin sem Bankasýslan leggur til grundvallar um hvort viðkomandi sé hæfur til að setjast í bankaráð Landsbankans? Það er verður spennandi að fylgjast með hverjir það verða sem Bankasýslan tilnefnir.
Býr eitthvað annað að baki?
Raunveruleg ástæða þess að ráðherrar rísa upp gegn kaupum Landsbankans á tryggingafélagi er á huldu. Er það vegna þess að tryggingafélagið var ætlað einhverjum öðrum? Þá má spyrja sig hvaða aðilar á Íslandi hafa fjármagn til að kaupa tryggingafélag ef lífeyrissjóðirnir hafa ekki áhuga? Eru það kannski fyrirtækin sem fá auðlindir þjóðarinnar á silfurfati og hafa verið að kaupa sig inn í fjölda óskyldra fyrirtækja? Var tryggingafélagið kannski frátekið og ætlað innmúruðum og innvígðum?
Athugasemdir (5)