Kópavogsbær hyggst feta í fótspor Reykjavíkurborgar og Voga og segja upp samningi vegna reksturs Reykjanesfólkvangs. Fólkvangurinn var stofnaður af sveitarfélögum á suðvesturhorni landsins árið 1975 en Umhverfisstofnun hefur enn ekki gert stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn líkt og stofnuninni ber að gera fyrir friðlýst svæði þrátt fyrir ítrekanir stjórnar hans, segir í fundargerð bæjarráðs Kópavogsbæjar.
Kópavogsbær á ekki frekar en Reykjavík land innan fólkvangsins en greiddi tæpar 1,3 milljónir til rekstrar hans í fyrra. Líklega verður upphæðin um 1,6 milljónir í ár.
Reykjanesfólkvangur er á sunnanverðum Reykjanesskaga og nær milli Vesturháls í vestri og að sýslumörkum Árnessýslu í austri og niður að sjó. Norðan megin liggja mörk hans meðfram Heiðmörk og Bláfjallafólkvangi. Kópavogsbær á ekki land innan Reykjanesfólkvangs en mörk hans liggja að Bláfjallafólkvangi sem er þjóðlenda innan sveitarfélagsmarka Kópavogs. Tilurð Reykjanesfólkvangs má rekja til tillögu Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Seltjarnarness, Hafnarfjarðarbæjar, Keflavíkur, Grindavíkur, hreppsnefnda Garðahrepps, Njarðvíkurhrepps og Selvogshrepps til Umhverfisstofnunar um að stofna fólkvang á Reykjanesskaga. Fólkvangurinn var stofnaður með auglýsingu nr. 520/1975 í B. deild stjórnartíðinda. Skipuð var samvinnunefnd sveitarfélaganna sem fer með stjórn fólkvangsins. Nefndin er skipuð einum fulltrúa frá hverjum aðila.
Fólkvangurinn er um 300 ferkílómetrar að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar. Þar er meiri gróður en víðast hvar annars staðar á Reykjanesskaga og er landið kjörið til útivistar og náttúruskoðunar. Innan fólkvangsins eru m.a. Krýsuvík, Kleifarvatn, Grænavatn, Krýsuvíkurberg, Vesturháls (Núpshlíðarháls) og Austurháls (Sveifluháls), Búrfell og Búrfellsgjá, Stóra-Eldborg og Brennisteinsfjöll. Uppi á hálsunum eru nokkur smá vötn, Grænavatn, Arnarvatn og Spákonuvatn.
Athugasemdir (1)