Vikulangs gæsluvarðhalds verður krafist yfir þremur körlum og þremur konum eftir umfangsmiklar aðgerðir lögreglu í gær. Er þetta á grundvelli rannsóknarhagsmuna að því er kemur fram í tilkynningu frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.
Tilefni aðgerða lögreglu í gær voru rökstuddur grunur um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum útlendinga og grunur um skipulagða brotastarfsemi.
Aðgerðir þessar fóru fram bæði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess og stóðu yfir í allan gærdag. Á annað hundrað tóku þátt í þeim, þar af um 80 starfsmenn lögreglu og fjöldi starfsfólks stofnana og félagasamtaka.
25 húsleitir voru framkvæmdar. Grunsemdir eru uppi um að talsverður fjöldi fólks hafi orðið fyrir mansali.
Athugasemdir