Á stuttum tíma hefur verkefnastjórnun náð fótfestu í öllum greinum atvinnulífsins og rannsóknir sýna hvernig hlutfallslegt vægi verkefna í efnahagslífinu hefur aukist jafnt og þétt. Meira en þriðjungur af verðmætasköpun atvinnulífsins fer fram í formi verkefna. Þau lúta gjarnan að uppbyggingu innviða fyrirtækja og stofnana, til að mynda innleiðingu, upplýsingakerfa, verkferla og tæknibúnaðar og markmiðið er þá að auka getuna til að framleiða vörur og veita þjónustu. Getan til að undirbúa og framkvæma verkefni kallast einmitt á við getuna til að breytast. Breytingar eru órjúfanlegur hluti af veruleika okkar; allt er breytingum háð og hraði breytinga fer vaxandi. Það sem ræður örlögum okkar í viðskiptaumhverfi samtímans er hversu fljót við erum að bregðast við breytingum í þessu umhverfi og laga okkur að nýjum aðstæðum.
Verkefnastjórnun er fag allra starfsgreina, enda þótt í árdaga þessa fags á Íslandi hafi hún verið fag tæknimanna. Þá snérist hún fyrst og fremst um verklegar framkvæmdir og samhæfingu tæknilegra verkefna. Nú þurfa öll fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir að geta undirbúið og framkvæmt verkefni. En verkefnastjórnin er sjálfstæð faggrein sem varð til um miðbik síðustu aldar í Bandaríkjunum og þróaðist þar en náði brátt útbreiðslu um allan heim. Eins og aðrar faggreinar byggir hún á þekkingu sem sprettur af reynslu og fræðilegum rannsóknum. Þekkingin þróast hratt á fjöldamörgum sviðum atvinnulífsins. Hún þróast jafnt í háskólaumhverfinu og í framsæknum fyrirtækjum í öllum starfsgreinum.
Þróunin hefur verið ör á Íslandi. Frumkvöðlarnir ruddu brautina á síðustu áratugum 20. aldar. Hér má nefna menn eins og verkfræðingana Egil Skúla Ingibergsson og Tryggva Sigurbjarnarson, en hann var brautryðjandi í kennslu í verkefnastjórnun á háskólastigi. Verkefnisstjórnun var fyrst kennd sem sjálfstætt fag við Verkfræðideild Háskóla Íslands um aldamótin 2000. Fáeinum árum síðar hófst MPM námið, fyrsta meistaranámið í verkefnastjórnun á Íslandi. Stökkbreyting hefur orðið á vitund og vitneskju í íslensku atvinnulífi á þeim hartnær tuttugu árum sem liðin eru frá upphafi MPM námsins. Einnig hefur mikil breyting orðið á framboði námskeiða á þessu sviði og í dag má nema verkefnastjórnun á framhaldsstigi við þrjá háskóla hér á landi. Þetta er góð þróun því íslensku atvinnulífi veitir svo sannarlega ekki af því að fjölga fagmenntuðu fólki á þessu sviði.
Á 20 ára afmæli MPM námsins á Íslandi hefur sú ákvörðun verið tekin að gera viðamiklar breytingar á umgjörð og áherslum. Kröfurnar hafa aukist og mikil og vaxandi eftirspurn er í samfélaginu eftir reynslumiklu og fagmenntuðu fólki til að leiða umfangsmikil og kostnaðarsöm verkefni á vegum opinberra aðila og einkaaðila á komandi árum. Til að setja þetta í samhengi má vísa í nýlega úttekt sem gerð var við HR. Samkvæmt henni munu fjárfestingar opinberra aðila í innviðaverkefnum á Íslandi á næstu tveimur áratugum nema amk. 1500 milljörðum króna. Til að árangur náist skipta reynsla og þekking öllu máli og MPM námið við HR aðlagar sig að þessum auknu kröfum atvinnulífsins. Námið verður héðan í frá í boði fyrir fólk sem hefur reynslu af stjórnun verkefna og gegnir leiðandi hlutverkum í verkefnum í leik eða starfi. Í MPM náminu koma nemendur með þessa reynslu inn í skólastofuna og spegla hana með kennurum, markþjálfum, faghandleiðurum og samnemendum, ásamt því að lesa sig til um klassíska þekkingu á þessu sviði í bland við nýjustu strauma og stefnur í faginu. MPM námið gengur til samstarfs við Verkefnastjórnunarfélag Íslands og IPMA – Alþjóðasamtök verkefnastjórnunarfélaga – og þeir sem innritast í MPM námið munu undirgangast alþjóðlega vottun sem staðfestir reynslu þeirra. Þeir sem ljúka MPM námi verða þannig gjaldgengir að taka að sér leiðandi hlutverk í flóknum verkefnum um allan heim.
MPM námið hefur frá upphafi byggt á rótum fagsins, sem spratt upp úr verkfræðilegri nálgun. Enda þótt verkefnastjórnun sé nú kennd í margskonar háskóladeildum um allan heim þá grundvallast MPM námið við HR á þessu verkfræðilegu rótum og er hluti verkfræðideildar skólans. En MPM nám er fyrir allar fagstéttir. Öll þau sem hafa lokið grunnnámi í háskóla og hafa reynslu af því að gegna leiðandi hlutverkum í verkefnum geta skráð sig til leiks. Eftir sem áður eru áhersluþættir MPM námsins hefðbundnir þættir er varða undirbúning og framkvæmd verkefna, uppbygging og rekstur verkefnadrifinna fyrirtækja, samskipti innan verkefna og við margs konar hagsmunaaðila. Síðast en ekki síst hlutverk leiðtoga í verkefnum, margvíslegir siðferðislegir fletir verkefna og sjálfbærni - sem er mikilvægt leiðarstef í öllum verkefnum og verkefnafyrirtækjum.
MPM námið er alþjóðlegt nám, kennt á ensku og miðast við þarfir og aðstæður fólks sem stundar námið samhliða því að taka virkan þátt í krefjandi verkefnum í leik og starfi. Með þessum breytingum á áherslum og uppbyggingu MPM námsins hefur verið mörkuð skýr stefna til framtíðar. MPM námið mun þó eftir sem áður aðlaga sig að þörfum og kröfumatvinnulífsins eins og þær eru á hverjum tíma.
Athugasemdir