Þessi grein birtist fyrir rúmlega 11 mánuðum.

Forstjóri SKELJAR fékk 193 milljónir króna í laun og bónus í fyrra

For­stjóri fjár­fest­inga­fé­lags­ins SKEL yf­ir­gaf Ari­on banka á ár­inu 2022. Fyr­ir það fékk hann greiðslu upp á ann­að hundrað millj­ón­ir króna vegna „keyptra starfs­rétt­inda“ of­an á hefð­bund­in laun og kauprétt­ar­samn­ing sem met­inn var á einn millj­arð króna. Í fyrra fékk hann 8,6 millj­ón­ir króna á mán­uði í laun og 90 millj­óna króna ein­skipt­is­greiðslu.

Forstjóri SKELJAR fékk 193 milljónir króna í laun og bónus í fyrra

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKELJAR, fékk 103,4 milljónir króna í laun, hlunnindi og mótframlag í lífeyrissjóð á árinu 2023, eða 8,6 milljónir króna á mánuði. Til viðbótar við þetta fékk hann einskiptisgreiðslu upp á 90 milljónir króna og heildargreiðslur til forstjórans, sem er bróðir Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur fjármála- og efnahagsráðherra, námu því 193,4 milljónum króna á síðasta ári. Ef þeirri upphæð er deilt niður á mánuði ársins þá voru tekjur Ásgeirs 16,1 milljónir króna í hverjum mánuði í fyrra, eða um 537 þúsund krónur á dag í meðalmánuði sem telur 30 daga. Í ofanálag átti forstjórinn kauprétti á 64 milljónum hluta í SKEL um síðustu áramót. 

Frá þessu er greint í ársreikningi SKELJAR sem birtur var í lok liðinnar viku. 

Ásgeir var ráðinn í starfið í apríl í 2022, en hann var áður aðstoðarbankastjóri Arion banka. Hann hóf störf 9. júlí sama ár. Í ársreikningi SKELJAR vegna ársins 2022 kom fram að hann hafi fengið 45 milljónir króna vegna svokallaðra „keyptra starfsréttinda“ á því ári auk þess sem SKEL greiddi 55 milljónir króna í launatengd gjöld. SKEL var í raun að greiða honum háa upphæð fyrir að skipta um vinnu. Í fyrra gjaldfærði SKEL svo 60 milljónir króna vegna þessa og á árinu 2025 mun félagið gjaldfæra 15 milljónir króna. SKEL mun einnig standa skil á launatengdum gjöldum samhliða bæði þessi ár.

Heildarfjárhæðin var hins vegar greidd til Ásgeirs á árinu 2022 og í efnahagsreikningi SKEL voru færðar alls 165 milljónir króna á meðal veltufjármuna vegna þessa. Hann greiddi tekjuskatt af allri upphæðinni á árinu 2022. Sú einskiptisgreiðsla sem hann fékk frá SKEL í fyrra umfram laun, alls upp á 90 milljónir króna, er því ótengd þessum „keyptu starfsréttindum“.

„Úr takti við það sem eðlilegt getur talist“

Magnús Ingi Ein­­ar­s­­son, áður fram­­kvæmda­­stjóri banka­sviðs Kviku banka, var ráð­inn fjár­­­mála­­stjóri SKELJAR á svipuðum tíma og Ásgeir tók við sem forstjóri. Ásgeir og Magnús Ingi fengu kaup­rétti um hluti í félag­inu þegar þeir voru ráðnir í sam­ræmi við kaup­rétta­á­ætlun þess sem sam­­þykkt var á aðalfundi 2022. Sam­­kvæmt þeirri áætl­­un, sem tók gildi þann 10. mars 2021, var SKEL heim­ilt að úthluta kaup­rétti til lyk­il­­stjórn­­enda félags­­ins af fimm pró­­sentum af útgefnu heild­­ar­hlutafé þess. Mark­aðs­verð þess­­ara kauprétta var á þeim tíma um 1,6 millj­­arðar króna.

Þessi kaup­rétt­­ar­heim­ild, sem gildir til árs­ins 2027, var full­nýtt í samn­ingum við Ásgeir og Magnús Inga. Sam­­kvæmt til­­kynn­ingu sem SKEL sendi frá sér í vorið 2022 nam virði kaup­réttar Ásgeirs 1,02 millj­­örðum króna, á meðan virði kaup­réttar Magn­úsar Inga nam 572 millj­­ónum króna. Laun Magnúsar Inga eru ekki sérstaklega tiltekin í ársreikningi SKELJAR. 

Árni Guðmundsson, þáverandi framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, gagnrýndi þá launaþróun sem væri til staðar á meðal forstjóra skráðra íslenskra félaga í grein sem hann skrifaði í mars í fyrra, en félögin eru öll að nokkrum eða stórum hluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Árni sagði að launin væru „úr takti við það sem eðlilegt getur talist í íslensku samfélagi.“ Þar nefndi hann sérstaklega launagreiðslur til Ásgeirs Helga og laun Orra Haukssonar, forstjóra Símans, sem Heimildin hafði greint frá að hefði verið með 9,7 milljónir króna að meðaltali á mánuði á árinu 2022. 

Árni tiltók að Gildi hefði beitt sér gegn þeirri launaþróun sem hafi verið að raungerast. „Reynslan hefur hins vegar sýnt að sífellt er verið að bæta við kaupaukum í ýmsu formi til stjórnenda án þess að það komi niður á háum föstum launum.“

Hagnaðist um 5,4 milljarða í fyrra

SKEL fjár­fest­inga­fé­lag hét áður Skelj­ungur í 93 ár. Nafni og til­gangi félags­ins var breytt í byrjun árs 2022 sam­hliða því að til­kynnt var um 6,9 millj­arða króna hagnað á árinu 2021. Sá hagn­aður var nær allur til­­kom­inn vegna sölu á fær­eyska dótt­­ur­­fé­lag­inu P/F Magn á árinu 2021, en bók­­færð áhrif þeirrar sölu á tekjur Skelj­ungs í fyrra voru 6,7 millj­­arðar króna. Árið 2022 var hagnaðurinn enn meiri, 17,5 milljarðar króna. Sá hagnaður kom nær allur til vegna þess að gangvirði fjáreigna og fjárfestingaeigna var fært upp um 18,9 milljarða króna. Það er tilkomið vegna þess að þegar SKEL var breytt í fjárfestingafélag voru eignir þess færðar á gangvirði í gegnum rekstur. 

Í fyrra var hagnaðurinn mun hóflegri, eða 5,4 milljarðar króna, en arðsemi eigin fjár var 16 prósent. Heildareignir félagsins voru metnar á 50 milljarða króna í lok síðasta árs og eigið fé þess var 38 milljarðar króna

Streng­­ur, eign­­ar­halds­­­fé­lag sem stjórn­­­ar­­for­­mað­­ur­inn Jón Ásgeir Jóhannesson fer fyr­ir, á 50,1 pró­­sent hlut í SKEL og hefur því tögl og hagldir innan þess. Arðgreiðslur vegna ársins 2023 og endurkaup eigin bréfa frá aðalfundi síðasta árs námu um 1,5 milljörðum króna. Áform eru um að greiða 750 milljónir króna út í arð í ár. 

Komnir með stóran hlut í fjárfestingabanka

Fjárfestingafélagið á hlut í tveimur skráðum félögum: 15,37 prósent hlut í fasteignafélaginu Kaldalóni og 8,2 prósent hlut í tryggingafélaginu VÍS, sem sameinaðist fjárfestingabankanum Fossum í fyrra. SKEL er næst stærsti eigandinn í VÍS og með kaupum VÍS á Fossum varð fjárfestingafélag sem stýrt er af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni stærsti einkafjárfestirinn í fjárfestingabanka á Íslandi. Jón Ásgeir var síðast í slíkri stöðu innan Glitnis fyrir bankahrun, þegar félög sem hann leiddi stýrðu þeim banka síðustu metrana áður en hann féll í október 2008. Næst stærsti einkafjárfestirinn í sameinuðu félagi VÍS og Fossa er félagið Sjávarsýn, í eigu Bjarna Ármannssonar, sem eitt sinn var bankastjóri Glitnis banka. 

Þá hefur SKEL 100 prósent hlut í dótturfélögunum Orkunni, Skeljungi, Gallon, Löðri, Lyfjaval og ráðandi hlut í Kletti. Auk þess á SKEL helmingshlut í Reir Þróun og 81 prósent í smásölufyrirtækinu Heimkaup. Sum dótturfélaganna eru undir öðrum dótturfélögum samstæðunnar.

Í fyrra tók SKEL þátt í að stofna Styrkás með Horni IV slhf., framtakssjóðs í stýringu Landsbréfa.  Það á að verða leiðandi þjónustufyrirtæki á fyrirtækjamarkaði sem hefur styrk til að þjónusta innviða- og atvinnuvegafjárfestingu. Markmið hluthafa er að skrá alla hluti í félaginu á skipulegan markað í Kauphöll Íslands fyrir árslok 2027. Skeljungur og Klettur voru sett inn í Styrkás og Ásmundur Tryggvason var ráðinn forstjóri félagsins í október. Ásmundi var áður framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfesta hjá Íslandsbanka en var gert að hætta störfum þar í fyrrasumar. Hann var einn þeirra starfsmanna bankans sem keypti hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði í mars 2022. Bankinn hefur viðurkennt að hafa framið margháttuð lögbrot í hlutverki sínu sem söluráðgjafi við þá sölu og samþykkti að greiða metsekt, alls um 1,2 milljarða króna, vegna þessa. Ásmundur gerði starfslokasamning við Íslandsbanka, í 42,5 prósent eigu íslenska ríkisins, sem gerði ráð fyrir tólf mánaða greiddum uppsagnarfresti sem ekki var gerð krafa um að yrði unnin. Íslandsbanki gjaldfærði  63,4 milljónir króna í laun og launatengd gjöld í tengslum við samkomulagið á þriðja ársfjórðungi ársins 2023. Þremur mánuðum eftir að Ásmundur hætti hjá Íslandsbanka var hann kominn með starf hjá Styrkás

Eru að búa til smásölurisa

Þann 19. janúar síðastliðinn var tilkynnt um að SKEL og Samkaup hefðu undirritað yfirlýsingu um að hefja könnunarviðræður vegna mögulegs samruna Samkaupa, sem reka 64 matvöruverslanir víðsvegar um landið undir merkjum Samkaupa,  Nettó, Kjörbúðarinnar og Iceland, við dótturfélög SKELJAR. Um er að ræða annars vegar Orkuna sem starfrækir 72 orkustöðvar, 14 þvottastöðvar undir merkjum Löðurs, sex hraðhleðslustöðvar, tvær vetnisstöðvar og eina metanstöð. Þá á félagið 32 fasteignir og lóðir víðs vegar um landið, auk annarra eigna. Hins vegar er um að ræða Heimkaup, sem reka sjö apótek undir merkjum Lyfjavals og níu þægindaverslanir undir merkjum 10-11, Extra og Orkunnar, auk annarra eigna.

Sameinað félag yrði eitt öflugasta fyrirtæki landsins á matvörumarkaði, lyfsölu og eldsneyti. Áætlaðar tekjur þess á ári eru 72 milljarðar króna, sem er um 60 prósent af tekjum smásölurisans Festi, sem rekur 26 Krónuverslanir ásamt N1, Bakkanum og Elko, og um 44 prósent af tekjum Haga, sem reka 33 Bónusverslanir, sjö Hagkaupsbúðir, 22 Olísstöðvar, 44 ÓB stöðvar og stundar stórfelldan innflutning á vörum ásamt því að reka vöruhús. Í fjárfestakynningu SKELJAR vegna síðastar ársuppgjörs segir að áætlaður rekstrarhagnaður sameinaðs félags fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og skatta sé 6,2 milljarðar króna. 

Gangi kaupin eftir verður fjárfestingafélag undir stjórn Jóns Ásgeir því aftur orðið stór leikandi á íslenskum smásölumarkaði, en hann stofnaði Bónus snemma á tíunda áratugnum með föður sínum og stýrði Baugi Group, fjárfestingafélagi sem átti og rak matvælaverslanir og stundaði verðbréfaviðskipti með hlutabréf í öðrum fyrirtækjum innanlands og erlendis fyrir bankahrun. Baugur Group var lýstur gjaldþrota í mars 2009 og þegar skiptum á samstæðunni lauk sum­arið 2019 kom í ljóst að 2,7 pró­sent hafði feng­ist upp í 424 millj­arða króna lýstar kröf­ur. 

Kjósa
42
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (5)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Friðrik Friðriksson skrifaði
    Er þetta fólkið sem fer fram á að almenningur sýni ábyrgð í launakröfum? Hvar er þeirra ábyrgð ? og hvað með verðbólgu og stýrivaxtahækkanir vegna þeirra ofurlaunahækkana?..Býr þetta fólk í allt öðru þjóðfélagi en almennir launþegar?.
    3
  • Friðrik Friðriksson skrifaði
    Af hverju var Ásgeir keyptur út úr Arionbanka, komst hann að einhverjum viðskiptum sem mátti ekki sjá dagsins ljós?..Óeðlileg viðskipti við stór fyrirtæki?.
    2
  • ADA
    Anna Dóra Antonsdóttir skrifaði
    Hver eða hverjir eru eigendur Skeljar?
    1
    • Einar Björnsson skrifaði
      Það stendur allt í fréttinni og líka hægt að fletta upp hjá rsk.is !

      "Streng­­ur, eign­­ar­halds­­­fé­lag sem stjórn­­­ar­­for­­mað­­ur­inn Jón Ásgeir Jóhannesson fer fyr­ir, á 50,1 pró­­sent hlut í SKEL og hefur því tögl og hagldir innan þess. "
      3
  • ADA
    Anna Dóra Antonsdóttir skrifaði
    Hver eða hverjir eru eigendur Skeljar?
    -1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár