Sigmundur Davíð súr yfir Smiðjunni – Hann vildi hús sem var teiknað 1916
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er óánægður með nýju skrifstofubyggingu Alþingis og segir tillaga sín sem hann lagði fram árið 2015 hafi verið betri Mynd: Heimildin / TDV
Þessi grein birtist fyrir rúmlega 3 mánuðum.

Sigmundur Davíð súr yfir Smiðjunni – Hann vildi hús sem var teiknað 1916

Þing­menn Mið­flokks­ins eru sér­stak­lega ósátt­ir við nýtt skrif­stofu­hús­næði Al­þing­is. Formað­ur Mið­flokks­ins, Sig­mund­ur Dav­íð Gunn­laugs­son, seg­ir að bet­ur hefði far­ið ef hönn­un húss­ins hefði ver­ið í anda til­lögu sem hann lagði fyr­ir rík­is­stjórn­ina sín­um tíma sem for­sæt­is­ráð­herra. Hann lét gera jóla­kort með þeirri til­lögu í að­drag­anda jóla 2015.

Þingmenn er nú byrjaðir að koma sér fyrir í nýja skrifstofuhúsnæði Alþingis sem nefnist Smiðja. Hafa þingmenn viðrað ólíkar skoðanir á nýju aðstöðunni sem þeim er boðin.

Þingmenn Miðflokksins eru til að mynda sérlega óánægðir með nýja húsakostinn. Í frétt á vef Morgunblaðsins kvartaði Bergþór Ólason undan mikilli hljóðbærni á milli fundarherbergja, stærð skrifstofanna og hráslagalegrar hönnunar á vinnurýmum þingflokka, svo eitthvað sé nefnt.

Þá var nýlega haft eftir formanni Miðflokksins Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, í viðtali í Morgunblaðinu, að honum litist afar illa í nýju bygginguna. Að því tilefni minntist Sigmundur Davíð á að upphaflega hafi staðið til að reisa skrifstofubyggingu sem hefði, að hans mati, verið talsvert betri.

Þessi ummæli Sigmundar Davíðs gefa tilefni til þess að rifja upp áform og sýn hans á því hvernig skrifstofuhúsnæðið á Alþingisreitnum hefði átt að líta út.  

Sýn Sigmundar 

Vorið 2015 lagði Sigmundar Davíð, þáverandi forsætisráðherra, þingsályktunartillögu fyrir ríkisstjórn þar sem mælt var með því að hefja undirbúningsvinnu við uppbyggingu á viðbyggingu við Alþingishúsið. Þá var sömuleiðis lagt til að ljúka við byggingu Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og reisa nýja Valhöll á þingvöllum, sem brann árið 2009.

Tilefni þessara byggingaráforma var að minnast þess að hundrað ár voru liðinn fullveldisstofnunar árið 1918. Í þingsályktunartillögunni var gert ráð fyrir að nánari útfærsla á byggingarverkefnunum lægi fyrir árið 2018.  

Samkvæmt tillögunni átti að efna til samkeppni um hönnun hússins á Alþingisreitnum. Hins vegar átti samkeppnin að taka mið af teikningum þjóðþekkta arkitektsins Guðjóns Samúelssonar, sem starfaði sem húsameistari ríkisins frá 1920 til dánardags árið 1950. 

Teikningar Guðjóns voru gerðar árið 1916 að beiðni stjórnvalda sem þá hugðust  reisa viðbyggingu við hús Alþingis. Þau áform féllu niður á sínum tíma meðal annars vegna bágrar efnahagsstöðu og skorts á fjármagni. 

Í tillögunni, sem Fréttablaðið greindi fyrst frá 1. apríl 2015, sagði að það færi „þar að leiðandi vel á því að nú, þegar Íslendinga hafa í heila öld notið þeirra framfara sem fylgdu í kjölfar fullveldis verði lokið við byggingaráformin.“

Hönnunarsamkeppnin átti því að taka mið af nútíma stefnum og straumum ásamt eldri áherslum úr fortíðinni. „Með því vinna kynslóðir fullveldisstofnunarinnar með kynslóðum samtímans við uppbyggingu til framtíðar. Um leið og horft er til framtíðar er fortíðinni sýnd virðing og draumar fyrri kynslóðar uppfylltir í þágu framtíðarkynslóða“

Sigmundur Davíð var sjálfur svo spenntur fyrir tillögu sinni að hann lét tölvuteiknaða mynd af viðbyggingu Alþingis, sem byggði að miklu leyti á teikningu Guðjóns Samúelssonar, prýða jólakort forsætisráðherra jólin 2015. 

Umdeild tillaga

Þegar þingsályktunartillagan var gerð opinber fór af stað mikil umræða. Gagnrýndu margir tillögu Sigmundar Davíðs og sérstaklega það að aldargömul teikning Guðjóns yrði lögð til grundvallar á hönnun hússins.  

Í frétt RÚV var haft eftir Aðalheiði Atladóttur, þáverandi formann Arkitektafélags Íslands að hún efaðist um að það færi vel taka hundrað ára gamla teikningu og „troða henni svolítið inn þarna á þetta svæði.“

Í grein sem Hjörleifur Stefánsson arkitekt birti á Kjarnanum fjallaði hann um tillögu Sigmundar Davíðs og setti hugmyndir og áhrif sem lágu að baki teikningu Guðjóns í sögulegt samhengi.

Í greininni var vitnað í Jónas frá Hriflu sem sagði að Guðjón hefði gert teikninguna árið 1916. „Útlit bygg­ing­anna er í anda klass­ískrar bygg­ing­ar­listar með róm­an­tísku ívafi eins og flestar þær bygg­ingar sem Guð­jón teikn­aði á fyrsta skeiði starfsævi sinn­ar,“ skrifaði Hjörleifur. 

Þá benti hann sömuleiðis á að byggingarlist Guðjóns hefði síðan þróast í gegnum starfsævi hans og endurspeglað samfélagið á hverjum tíma. „Ekki er frá­leitt að ætla að ef Guð­jón hefði gert aðra til­lögu um tíu árum seinna, þá hefði hann reynt að móta við­bygg­ingu í formi bursta­bæjar og enn tíu árum seinna hefði hann ef til vill gert teikn­ingu af húsi sem bar keim af módern­isma en þó með klass­ískum mónúm­ental­isma í anda Sund­hallar Reykja­vík­ur.“ 

Eftir að Sigmundur Davíð sagði af sér embætti forsætisráðherra vorið 2016 var fallið frá tillögu hans. Síðar var blásið til hönnunarsamkeppni þar sem Arkitektar Studio Granda áttu verðlaunartillöguna.

Fyrsta skóflustungan að nýju byggingunni var tekið 4. febrúar 2020 og nú, tæpum fjórum árum síðar eru þingmenn að flytja inn í hana. 

Kjósa
27
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (3)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Martin Swift skrifaði
    Sammála er ég Sigmundi um fátt, en þessi teikning Guðjóns finnst mér falla nokkuð betur inn í borgarmyndina. En smekkur fólks er jú misjafn.
    2
  • Grétar Reynisson skrifaði
    Er hann ekki bara súr ? punktur
    0
  • ÆS
    Ævar Sigdórsson skrifaði
    Sennilega hefði sú bygging orðið skárri en þetta hrófatildur
    2
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár