Þessi grein birtist fyrir rúmlega 11 mánuðum.

Fáránleg ákvörðun fyrir klassíska söngkonu

Björk Ní­els­dótt­ir er söng­kona, trom­pet­leik­ari, jazz­ari, popp­ari, rokk­ari, klass­íker, þjóðlaga­grúsk­ari, tónsmið­ur og sviðs­leik­kona. Hún ræð­ir hér starfs­um­hverfi sitt við Thelmu Hrönn Sig­ur­dórs­dótt­ur. Við­tal­ið er sprott­ið af rann­sókn sem Thelma og Guja Sand­holt gerðu sam­an í sam­vinnu við Ný­sköp­un­ar­sjóð og Heim­ild­ina – um starfs­um­hverfi fag­lærða söngv­ara á Ís­landi.

Fáránleg ákvörðun fyrir klassíska söngkonu

Björk Níelsdóttir er söngkona, trompetleikari, jazzari, poppari, rokkari, klassíker, þjóðlagagrúskari, tónsmiður og sviðsleikkona. Hún var valin bjartasta vonin í flokknum sígild og samtímatónlist á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2019. Samt segist hún oft þurfa að sanna að hún sé dugleg og góð í öllu því sem hún gerir í stað þess að vera „bara söngkona“.

Björk lærði á trompet til tvítugs, en móðir hennar skráði hana í söngnám á unglingsárunum og fljótt tók söngurinn yfir. Hún söng í kórum en var mestmegnis í lúðrahljómsveitum og hljómsveitum með vinum sínum. Björk tók mörg sumur þátt í skapandi sumarstörfum í Hafnarfirði og flutti tónlist um víðan völl, skipulagði tónlistarhátíðir og annað slíkt. „Okkur var treyst fyrir ýmsu í tónlistarmiðlun, vorum ung og skapandi einstaklingar.“

Björk var aðeins tvítug þegar hún fór á tveggja ára tónleikaferðalag með Björk Guðmundsdóttur sem trompetleikari í íslenska kvennabrassbandinu Wonderbrass. Eftir það langaði hana að reyna á sönginn og lá leiðin beint í klassískt söngnám í Tónlistarháskólanum í Amsterdam. 

Ég var algjör unglingur að fríka út

Björk féll fyrsta árið sitt í bakkalárnáminu og var sett í skammarkrókinn. „Ég upplifði svo mikið frelsi, átti mikinn pening eftir túrinn og var algjör unglingur að fríka út. Ég hafði alltaf verið svo stillt, en það er samt ekki afsökun fyrir að láta eins og bjáni.“ Eftir þessa reynslu tók hún námið mjög alvarlega og setti stefnuna á að útskrifast með hæstu einkunn. Kennarar voru mjög strangir og vildu stýra því hvernig hún hagaði sér, hverja hún umgekkst og hvernig hún átti að klæða sig. „Það var rosalega mikið verið að segja manni hvernig manneskja maður átti að vera,“ segir Björk. Eftir strangt bakkalárnám hélt Björk áfram í skólanum í meistaranám í klassískum söng. „Meistaranámið  var mun opnara. Þá opnuðust fleiri dyr og námið varð loksins mun skemmtilegra.“ 

Styrkleiki Bjarkar sem tónlistarmaður er fjölbreytni og hún einsetti sér að kynnast ólíkum stílum í náminu þrátt fyrir að vera í klassísku tónlistarnámi. „Ég átti vini í öllum deildum og ég söng með þeim öllum, því ég var að prófa mig áfram. Jazz, blús, barokk, allt þótti mér skemmtilegt.“ Björk segir þó að að viðmótið í skólanum hafi verið að maður ætti að einblína á einn stíl. Henni fannst hún fá lítinn stuðning frá söngkennara sínum sem kunni ekki að meta áherslur hennar á nútímatónlist. „Persónuleg skoðun kennarans á ekki að skipta máli þegar kemur að verkefnavali. Snobbið getur stundum flækst fyrir.“

„Persónuleg skoðun kennarans á ekki að skipta máli þegar kemur að verkefnavali. Snobbið getur stundum flækst fyrir.“

Björk útskrifaðist með láði, fékk sérstaka viðurkenningu fyrir listsköpun og söngkennarinn bað hana afsökunar. „Kennarinn endaði á að segja, fyrirgefðu Björk, þú ert eins og þú ert. Ég reyndi að breyta þér en það er ekki hægt.“ Björk reyndi að taka þessi orð ekki nærri sér. „Ég hugsaði, whatever, en maður verður samt svo ástfanginn af kennaranum sínum þannig að í manni blundar eðlilega smá samviskubit.“ Söngkennarar eiga það til að reyna að setja nemendur sína í kassa. Í staðinn fyrir að sýna pallettu af öllu sem hægt er að gera. Fókusinn virðist ekki alltaf vera á því að kenna manni að syngja. „Það tók mig langan tíma að fyrirgefa sjálfri mér fyrir að vera eins og ég er,“ viðurkennir Björk.

Ever/ReveHér er Björk í sýningunni Ever/Reve.

Strategísk ákvörðun að lifa á tónlistinni

Fyrsta verkefni Bjarkar eftir útskrift var tónleikaferð með hljómsveitinni Florence and the Machine, sem bakrödd og trompetleikari. „Þetta var algjörlega fáránleg ákvörðun fyrir klassíska söngkonu, en samt bara ofboðslega fínt því þá átti ég pening og það varð þá strategísk ákvörðun að lifa á tónlistinni.“ Síðastliðin sjö ár hefur hún túrað um alla Evrópu með spuna- og jazzhljómsveitinni Kaja Draksler Octet. Hún syngur einnig með samsuðuleikhúsinu Silbersee og  jazzrokkbandinu Spinifex. „Við túruðum sl. sumar í Portúgal, hressandi að vera á svona rokk og ról túr. Þetta var svo sveitt!“ segir Björk hlæjandi. „Við vorum ca 10 manns í bíl með enga loftkælingu, í hitabylgju að keyra upp og niður Portúgal og enduðum síðan sveitt á að taka upp plötu.“

Björk er nýflutt heim og segist þessa stundina vera að athuga hvort það sé hægt að búa á Íslandi og ferðast út í verkefni. Hún er öflug í íslenskri tónlistarsenu og brennur fyrir að skapa og flytja íslenska tónlist. Björk er meðlimur í tónlistarhópnum Stirnir Ensemble og garfar í þjóðlagatónlist með hljómsveitinni Gadus Morhua. Einnig hafa hún og Þóra Margrét Sveinsdóttir víóluleikari skapað saman tónlist undir nafninu Dúplum Dúó. Björk segir að hún elski að koma heim en starfsumhverfið sé erfitt. „Það er enginn atvinnukór, enginn söngvari með fasta stöðu. Íslenska óperan er eitt stórt spurningarmerki fyrir okkur öll. Enginn fyrirsöngur [VJ5], engin stefna og ekkert menningarprógramm fyrir börn til að kynnast klassískri tónlist. Ef börn læra ekki að kynnast sönglist og óperu frá unga aldri þá eru þau ekki að fara að mæta á tónleika þegar þau eru eldri. Það eru glötuð tækifæri þar.“

Söngvarar þurfa að berjast við margra ára fordóma

Björk finnst viðmótið á Íslandi gagnvart söngvurum undarlegt, meira að segja frá hljóðfæraleikurum. „Ég þarf svo oft að sanna að ég sé klár. Sýna að ég geti talið eða lesið tónlist. Hljóðfæraleikarar bera oft ekki virðingu fyrir söngvurunum. Það er einhver óskiljanleg kergja í gangi.“ Söngvarar eigi líka undir högg að sækja í leikhúsum. „Af hverju eru söngvarar ekki ráðnir í leikhúsin? Við kunnum alveg að leika. Kannski ættu söngvarar ekki að flytja Shakespeare, en það eru oft flókin sönghlutverk sem leikarar ættu að sleppa.“ Henni finnst almennt mikil tregða hjá menningarstofnunum að ráða fólk í vinnu. „Þú getur tekið lán fyrir söngnámi á Íslandi en getur ekki fengið vinnu við það. Við erum að berjast við margra ára fordóma gagnvart söngvurum allt frá menntastofnunum, tónlistarskólum og listaháskólum. Bara ef það væri menningarstofnun sem myndi virka fyrir söngvara og ráða íslenska söngvara til að sinna íslenskum verkefnum.“

Björk segir erfitt að lifa á tónlistinni á Íslandi nema maður sé á listamannalaunum ásamt því að starfa erlendis og við athafnir. ,,Þú þarft að vera með alla anga úti, tengdur í öllum geirum og svakalega kreatífur á hverju ári, en það er ekki hægt til lengdar.“ Björk segir það afleitt að Sinfóníuhljómsveit Íslands notist við áhugamannakóra og greiði þar af leiðandi ekki laun, heldur litla summu í kórsjóð. „Í Sinfóníunni geturðu vaxið í starfi, en fyrir söngvara er ekkert. Þú þarft bara að gera allt sjálfur og á endanum dregur það úr þér og mögulega endarðu annars staðar.“ Erlendis eru mörg dæmi um að atvinnukórar starfi í samstarfi við aðrar menningarstofnanir. Björk segir Íslendinga þurfa að líta í þá átt. „Ég væri til í að sjá magnaðan Kór Íslands, atvinnukór þar sem fólk má vaxa í starfi. Við erum að missa af svo miklu sem tengist sönglist.“

Myndband af Vornóttinni úr óperunni Þögnin eftir Árna Kristjánsson og Helga R. Ingvarsson.
„Gísli Marteinn fær enga klassíska tónlistarmenn eða jazzara til að flytja tónlist. Það vantar meiri breidd, þverskurð af tónlistinni.“

RÚV ekki að sinna hlutverki sínu sem menningarstofnun

Að mati Bjarkar er RÚV ekki að sinna hlutverki sínu sem menningarstofnun. Þar er enginn vettvangur nema fyrir popptónlistarmenn. „Gísli Marteinn fær enga klassíska tónlistarmenn eða jazzara til að flytja tónlist. Það vantar meiri breidd, þverskurð af tónlistinni. Sinfó fær stundum að vera í sjónvarpinu og Klassíkin okkar er æðislegt fyrirbæri, en það þarf að vera dægurumfjöllun um alls konar tónlist og vandaðri umfjöllun.“ Íslendingar eru þekktir fyrir að vera bókmenntaþjóð en það gleymist stundum að tala um hvað við erum mikil söngþjóð. „Við ræðum töluvert um bókmenntir en af hverju erum við ekki að tala um plötur?“ Björk segir RÚV hafa verið öflugt að taka upp tónleika en vandamál sé varðandi réttmætar greiðslur. „FÍH er þessa dagana að taka þetta mál fyrir og vinna að kjaramálum tónlistarmanna,“ segir hún spennt.

DúplumÞóra Margrét Sveinsdóttir og Björk Níelsdóttir.

Það er ýmislegt á döfinni hjá Björk sem er nýbúin að ljúka fjölda verkefna á Myrkum músíkdögum, m.a. Gleðilega geðrofsleikinn eftir Guðmund Stein Gunnarsson og frumflutning á verkum Kolbeins Bjarnasonar með Stirni Ensemble. Fram undan eru fleiri verkefni með Dúplum dúó, Cauda Collective og nýtt leikverk Þórunnar Guðmundsdóttur, Skoffín og skringilmenni með leikhópnum Hnoðri í norðri.

Það vantar ekki framtakssemina hjá þessum fjölhæfa listamanni sem er einnig að huga að hljóðupptökum með Gadus morhua og Stirni Ensemble sem verða gefnar út á árinu. „Það er ekki dvínandi áhugi á klassískri tónlist en það vantar pláss fyrir okkur innan ríkisbatterísins,“ segir Björk með bros á vör og slær hressilega í borðið.

„Ég vil sjá starfsgrundvöll fyrir söngvara.“

Kjósa
5
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Starfsumhverfi klassískra söngvara

Íslenskt samfélag togar mig heim, en ekki tónlistarlífið
ViðtalStarfsumhverfi klassískra söngvara

Ís­lenskt sam­fé­lag tog­ar mig heim, en ekki tón­list­ar­líf­ið

Bjarni Thor Krist­ins­son starfar að­al­lega við óperu­söng er­lend­is en hann hef­ur þó ver­ið mun leng­ur í sviðslist­um, al­veg síð­an hann var barn. Hann ræð­ir starfs­um­hverfi sitt við Thelmu Hrönn Sig­ur­dórs­dótt­ur. Við­tal­ið er sprott­ið upp úr rann­sókn sem Thelma og Guja Sand­holt gerðu sam­an í sam­vinnu við Ný­sköp­un­ar­sjóð og Heim­ild­ina – um starfs­um­hverfi fag­lærða söngv­ara á Ís­landi.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu