Þessi grein birtist fyrir rúmlega 2 mánuðum.

Ég hef sóst eftir því að fá virðingu en ekki endilega athygli

Haf­steinn Þórólfs­son er bæði söngv­ari og tón­skáld. Hann ræð­ir starfs­um­hverfi sitt við Thelmu Hrönn Sig­ur­dórs­dótt­ur. Við­tal­ið er af­leiða af rann­sókn sem Thelma og Guja Sand­holt gerðu sam­an í sam­vinnu við Ný­sköp­un­ar­sjóð og Heim­ild­ina – um starfs­um­hverfi fag­lærðra söngv­ara á Ís­landi.

Ég hef sóst eftir því að fá virðingu en ekki endilega athygli

Þú tryllir mig vakti mikla lukku í forkeppni Eurovision árið 2007 undir seiðandi rödd Hafsteins Þórólfssonar. Hann er ekki allur þar sem hann er séður. Múltítalent, söngvari, tónskáld og leiðsögumaður. Hann sækir tónlistargenin í báða ættliði. Móðurafi Hafsteins er Oddgeir Kristjánsson, tónskáld frá Vestmannaeyjum, og faðir hans Þórólfur Guðnason, fyrrverandi sóttvarnalæknir, sýndi hvað í hann er spunnið þegar þeir feðgar sungu saman einkennislag Hinsegin daga, Ég er eins og ég er, í sjónvarpinu í miðjum Covid-faraldri.

Hleypti hommanum út en faldi sig inni í skáp

Hafsteinn söng í kórum frá 8 ára aldri og í Menntaskólanum að Laugarvatni var hann dreginn inn í kórinn hjá Hilmari Erni Agnarssyni. ,,Hilmar var svo ofboðslega inspirerandi. Þetta var alveg geggjað. Fókusinn var ekki á því að gera okkur góð. Fókusinn var í minningunni að fá okkur til að upplifa hvað tónlist gæti gefið manni og hvað við gætum gert saman.“

Þegar skólinn setti upp leikritið Kabarett, landaði Hafsteinn hlutverki skemmtanastjórans. „Þarna neyddist ég til að hleypa hommanum út en á sama tíma þá fóru allir að fatta. Það var mér pínu ofviða og ég féll í þunglyndi.“ Hafsteinn endaði á að falla á mætingu og var vikið úr skólanum. „Ég faldi mig í skápnum þegar skólinn byrjaði á morgnana,“ bætir hann við hlæjandi. Þessi ár höfðu þó mikil áhrif á Hafstein og áttu eftir að móta hann sem tónlistarmann og samkynhneigðan einstakling.

Hér syngur Hafsteinn á Hinsegin dögum.

Þú tryllir mig

Hafsteinn nam klassískt söngnám við Söngskólann í Reykjavík undir leiðsögn Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur. Seinna hóf hann meistaranám í Guildhall School of Music and Drama í London. Þarna vaknaði áhugi Hafsteins á tónsmíðum, sem hann átti eftir að leggja fyrir sig seinna meir. „Eftir á að hyggja var þetta kannski ekki alveg það sem ég hefði átt að fara í, mitt náttúrulega söngeðli liggur ekki í háklassík eða óperu.“ Hann flutti aftur heim til Íslands og skráði sig á kvöldnámskeið hjá Þorvaldi Bjarna í elektrónískri tónlist.

Lagið Þú tryllir mig var sent í gríni í Eurovision, en var svo valið í forkeppnina og endaði í þriðja sæti. Þetta varð til þess að Hafsteinn fór að leggja drög að bakkalárnámi í tónsmíðum í Listaháskólanum. „Ég get sagt hispurslaust að það er uppáhaldstímabil ævi minnar. Ég lærði ógeðslega mikið og kennslan var ofboðslega góð og uppbyggileg.“ Í tónsmíðanáminu fór áhugi Hafsteins að hallast meira að nútímatónlist þar sem eru engar fyrir fram gefnar og hamlandi kríteríur. Hann endaði á að fara í meistaranám í rythmísku deildinni í tónsmíðum í Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum með fókus á að semja fyrir raddir. Hann sótti einnig tíma í London hjá breska prófessornum Paul Barker sem er einn sá reyndasti á því sviði.  

Syngjandi leiðsögumaður

Hafsteinn er dæmi um faglærðan söngvara sem tekur að sér fjölbreytt verkefni. Hann söng með klassísku sönghópunum Cantoque og Schola Cantorum en einnig bakraddir í Eurovision hjá Gretu Salóme. Auk þess hefur hann lokið meiraprófi og haslað sér völl í túristabransanum. Þar notar hann reynslu sína úr tónlistarheiminum óspart. „Ég get í raun stjórnað tímanum mínum betur sem tónlistarmaður og tónsmiður og að auki fléttað saman tónlist í framsetningu leiðsagnarinnar.“ Hafsteinn vinnur mest með fólki sem kemur til Íslands til að gifta sig. „Ég hef til dæmis samið víkingasögu út frá Egilssögu þar sem ég set inn nöfn brúðhjónanna ásamt gestum sem karakterum úr sögunni. Allir fá einnig skrítin viðurnefni úr Íslendingasögum eins og John Seal-testical Simcox og Harry Heavy-Breather Smith. Sagan inniheldur íslensk orðatiltæki eins og Took him to the Bakary [Taka hann í bakaríið] og heitir John and Stacy’s Viking Wedding þar sem allt endar í rugli; morð, svik og örlög. Allt endar auðvitað vel, þannig séð.

„Íslenskur almenningur veit í raun lítið af mér sem tónlistarmanni, ég hef haft tækifæri á því og það hafa opnast þannig dyr. Ég hef sóst eftir því að fá virðingu en ekki endilega athygli.“ Þótt hann sé menntaður í klassískum söng tekur Hafsteinn fyrir það að vera kynntur sem slíkur. „Ég er bara söngvari. Á Íslandi þarftu að geta gert fleiri stíla. Annars er búið að njörva þig niður í ákveðin box.“

LiðlegurAð vera söngvari á Íslandi krefst liðleika í alla staði, af viðtalinu við Hafstein að dæma.

Hvernig viltu nota röddina?

 Klassískt söngnám að mati Hafsteins þýðir að þú hefur lært þá tækni að syngja án míkrafóns. „Í söngnámi skortir að mynda tengsl við þá sem eru að skapa tónlist í dag og þar af leiðandi að læra að nota röddina á fjölbreyttari hátt eftir listrænni sýn skaparans.“ Honum finnst að tónlistarnám ætti að kenna öll stílbrigði. „Þú þarft og ættir að skoða hvað þú getur gert með röddinni. Hvernig viltu nota röddina? Loftkennd, falsetta, syngja dýpra eða hvaðeina.“ Hafsteinn hefur mikla ástríðu fyrir þekkingu og virkni raddar og segir það lykilinn að góðum fjölhæfum söngvara.

„Ef þú vilt fá regluleg verkefni hérlendis í tónlist þá snýst þetta um fjölhæfni. Það eru örfáir sem geta verið stjörnur á sínu sviði en þeir og við hin erum yfirleitt taugaveikluð um framtíðina, það þarf svo lítið til að detta út úr hringiðunni.“ Að mati Hafsteins er fjölhæfni grundvöllur þess að hann starfar í tónlist. „Mín innkoma í tónlist hefur miðast við einsöng og sönghópa í jarðarförum og upptökum; Disney, teiknimyndir, kvikmyndir og tölvuleiki og ýmsan bakraddasöng. Ástæðan fyrir að ég fæ þessi verkefni er hvað ég er góður að lesa nótur og á auðvelt með að skipta um söngtækni eftir verkefnum.“

Starfsumhverfið á Íslandi er erfitt

„Söngvarasamfélagið er öflugt. Flestir styðja hver annan en allir eru þó óöruggir varðandi hvort þeir fái verkefni því það eru svo margir góðir söngvarar og raddhópar að berjast um þau fáu launuðu verkefni sem standa til boða.“

Hafsteini finnst tónskáldasamfélagið líka tiltölulega einangrað og fókusinn þar vera mikið til að semja fyrir aðra lærða tónlistarmenn. Hann segir þar vera lítill áhugi á að vinna með eða semja fyrir söngvara eða kóra og það endurspeglist í námskrá stærstu tónlistarskóla Evrópu. Söngnemendur læra lítið að flytja nútímatónlist og tónskáldin læra lítið að vinna með söngvurum.

„Ef þú sækir um listamannalaun og styrk á Íslandi fyrir verk eingöngu fyrir raddir færðu ekki styrk. Verk einungis fyrir raddir hefur aldrei verið tilnefnt til íslensku tónlistarverðlaunanna, svo ég viti til.“

„Þú verður í öllum tilfellum að vera byrjaður á verkefninu í algjörri óvissu um hvort þú fáir fjármagn“

Óöruggt styrktarumhverfi

Hafsteinn hefur sótt um töluvert af styrkjum, og telur styrktarumhverfið brotið. „Umsóknarfrestur verkefnanna í tengingu við hvenær eigi að framkvæma verkefnið er algjörlega klikkað. Þú færð svar um umsóknina á sama tíma og þú átt að vera að framkvæma verkefni. Þú verður í öllum tilfellum að vera byrjaður á verkefninu í algjörri óvissu um hvort þú fáir fjármagn.“ Hann tekur dæmi um listamannalaun sem umsækjandi þarf að sækja um í september fyrir næsta ár og fær að vita í desember hvort hann fái styrk eða ekki. „Þá ertu búinn að plana allt árið í von og óvon um hvort þú fáir eitthvað.“

Hafsteinn talar um að mögulega þurfi að fá utanaðkomandi erlent fólk til að meta umsóknir. „Maður setur stórt spurningarmerki við það að fá aldrei svör við því af hverju maður fékk ekki styrkinn.“ Hann segir upphæðir sem íslenskir sjóðir veita vera í mun lægra hlutfalli við kostnað en gerist á Norðurlöndum. „Ég er ekki að segja að styrkir eigi að fullfjármagna verkefni en það næst aldrei jafnvægi milli innkomu á tónleikum, sölu á upptökum og styrkja hérlendis.“ Verkefnin verða að veruleika í smækkaðri mynd eða með sjálfboðavinnu. „Þar spilar inn í þessi kærleikur innan greinarinnar, þar sem margir hjálpa félögum sínum til að láta listræna drauma þeirra verða að veruleika.“

Stofnanir þurfa að standa við sitt

Fókusinn í íslenskum tónlistarstofnunum mætti vera betri segir Hafsteinn og bendir á að Óperuna mætti stokka upp frá grunni út frá því hvernig tenging hennar á að vera við samfélagið og listformið á Íslandi. Það sé skiljanlegt að það þurfi að setja upp erlend stórvirki til að selja miða en hæfileikaríkir söngvarar og tónskáld á Íslandi hafi fengið lítið brautargengi.

Hafsteinn bendir einnig á að Sinfóníuhljómsveit Íslands gangi framhjá atvinnusönghópum. Hún ræður áhugafólk í stórum kórum til að syngja á tónleikum og býður fyrir greiðslu í kórsjóð. Með þessu er Sinfónían að vinna gegn umhverfinu. Atvinnusöngvarar eru aðeins kallaðir til í verkum eins og Eddu eftir Jón Leifs þar sem ekki er hægt að flytja verkið án atvinnufólks.

Hafsteinn telur að á Íslandi mætti stofna atvinnukór sem þjónar samfélaginu. Hann þarf að vera skipaður af fólki sem er vel læst á nótur og getur sungið mismunandi stílbrigði. Það væri ekki langlífur kór ef hann væri einungis skipaður af klassískt lærðum einsöngvurum. Í Danmörku er til slíkt fyrirkomulag varðandi Útvarpskórinn og hefur reynst vel.

Þá hefur það gerst síðustu árin að sumar kirkjur hafa stofnað sína eigin kóra til að syngja í jarðarförum og rukka sama taxta og þrautþjálfaðir atvinnukórar. Hafsteinn segir þá kalla stundum í einstaka atvinnumenn til að hjálpa en það sé ekki jafngóður flutningur og grafi undan starfsgreininni. En málið er að það þorir enginn að segja neitt af hræðslu við að detta út úr greininni.

„Helsta áskorun söngvara í dag er að vita aldrei hvort eða hvað maður er að fara að fá í laun og hvernig maður geti undirbúið sig fyrir áföll“

Starfsumhverfið mikil áskorun

Að mati Hafsteins er helsta áskorun söngvara í dag að vita aldrei hvort eða hvað maður er að fara að fá í laun og hvernig maður geti undirbúið sig fyrir áföll. Hvernig maður getur staðið með sjálfum sér og réttindum sínum án hræðslu við að vera útilokaður frá verkefnum. Sjálft starfsumhverfið sé mikil áskorun og það sé varla hægt að koma út í plús þrátt fyrir að það sé uppselt. „Það er ógerningur að koma út í plús hvað þá núlli!“

„Þegar ég nam og starfaði í Danmörku upplifði ég heilsteypt jafnvægi innan samfélagsins og tónlistargreinarinnar. Jafnvægi á möguleikum til starfa og verkefna og jafnvægi í launum út frá töxtum og kostnaði við tónleikahald.“ Hafsteinn telur Íslendinga geta lært mikið af öðrum Norðurlandaþjóðum. Þó hefur íslenskt starfsumhverfi ekki bugað Hafstein enn þá, sem heldur ótrauður áfram að skapa og flytja tónlist fyrir sig og aðra. „Tónlist er besta leiðin sem ég veit til að tengjast öðru fólki og gera eitthvað saman í gleði.“ Fram undan er útgáfa á nýju tónlistarævintýri eftir Hafstein, ásamt öðrum tónlistarævintýrum og ferðum með ástföngnum túristum sem karakterinn Hafsteinn Seal-Testical Þórólfsson.

Kjósa
8
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Starfsumhverfi klassískra söngvara

Fáránleg ákvörðun fyrir klassíska söngkonu
ViðtalStarfsumhverfi klassískra söngvara

Fá­rán­leg ákvörð­un fyr­ir klass­íska söng­konu

Björk Ní­els­dótt­ir er söng­kona, trom­pet­leik­ari, jazz­ari, popp­ari, rokk­ari, klass­íker, þjóðlaga­grúsk­ari, tónsmið­ur og sviðs­leik­kona. Hún ræð­ir hér starfs­um­hverfi sitt við Thelmu Hrönn Sig­ur­dórs­dótt­ur. Við­tal­ið er sprott­ið af rann­sókn sem Thelma og Guja Sand­holt gerðu sam­an í sam­vinnu við Ný­sköp­un­ar­sjóð og Heim­ild­ina – um starfs­um­hverfi fag­lærða söngv­ara á Ís­landi.
Íslenskt samfélag togar mig heim, en ekki tónlistarlífið
ViðtalStarfsumhverfi klassískra söngvara

Ís­lenskt sam­fé­lag tog­ar mig heim, en ekki tón­list­ar­líf­ið

Bjarni Thor Krist­ins­son starfar að­al­lega við óperu­söng er­lend­is en hann hef­ur þó ver­ið mun leng­ur í sviðslist­um, al­veg síð­an hann var barn. Hann ræð­ir starfs­um­hverfi sitt við Thelmu Hrönn Sig­ur­dórs­dótt­ur. Við­tal­ið er sprott­ið upp úr rann­sókn sem Thelma og Guja Sand­holt gerðu sam­an í sam­vinnu við Ný­sköp­un­ar­sjóð og Heim­ild­ina – um starfs­um­hverfi fag­lærða söngv­ara á Ís­landi.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár