Þessi grein birtist fyrir rúmlega 2 mánuðum.

Hreinir tónar í glötuðu starfsumhverfi Um starfsvettvang klassískra söngvara á Íslandi

Guja Sand­holt og Thelma Hrönn Sig­ur­dórs­dótt­ir eru vel kunn­ug­ar starfs­um­hverfi söngv­ara. Þær unnu sam­an viða­mikla rann­sókn á starfs­um­hverfi fag­lærðra söngv­ara á Ís­landi og var hún gerð í sam­vinnu við Ný­sköp­un­ar­sjóð og Heim­ild­ina. Hér er stytt út­gáfa af grein­ar­gerð­inni.

Hér ber að líta stytta útgáfu af greinargerð Guju Sandholt um starfsvettvang klassískra söngvara á Íslandi.

Á Íslandi hafa faglærðir klassískir söngvarar tekið þátt í og glætt menningarlífið áratugum saman en klassísk söng- og kóramenning hafa löngum verið mikilvægur partur af íslensku samfélagi. Íslenskir söngvarar hafa gert garðinn frægan víða um lönd, sungið á stærstu sviðum heims og margir hafa sungið sig inn í hjörtu þjóðarinnar, stundum á mikilvægustu stundum í lífi fólks. Um þessar mundir eru 131 skráður meðlimur í Klassís, fagfélagi klassískra söngvara og starfa sumir hérlendis en aðrar einnig erlendis.

Guja og ThelmaGuja er klassísk söngkona, listrænn stjórnandi og meistaranemi í hagnýtri menningarmiðlun en Thelma er söngkona og meistaranemi í blaða- og fréttamennsku.

Flestir völdu sér starfið vegna ástríðu á söng, leik og tónlistinni sjálfri og stunduðu lengi nám í tónlistarháskólum til að geta starfað við fagið. Á Íslandi eru auk þess um 250-300 starfandi kórar með um 8000 meðlimum og um 500 söngnemendur stunda söngnám í fjölmörgum tónlistarskólum um land allt. Hlutfall kórsöngvara af þjóðinni er um 4-5%  skv. nýlegri könnun Gallups en í henni kemur einnig fram að alls hafi um 38% landsmanna einhvern tíma sungið í kór á ævinni og um 55% kvenna.

Í hverri viku má sækja ýmsa söngtónleika um land allt, mikil gróska er í klassísku sjálfstæðu söngsenunni og auk þess koma íslenskir atvinnusöngvarar fram í óperu- og tónlistarhúsum víða um heim í hverri viku. Óperusýningar eru almennt vel sóttar og framboðið hefur aukist undanfarið samhliða nýliðun í faginu.

Miðað við velgengni ýmissa íslenskra söngvara erlendis og hérlendis, virðast sumir þeirra hafa komist nálægt því að finna hinn hreina tón. Nokkrir hafa náð eins langt og hægt er í faginu og jafnvel unnið til virtra verðlauna eins og Grammy. Aðrir hafa átt góðan starfsferil og unnið árum saman við fagið í ýmsum löndum. Algeng spurning sem íslenskir söngvarar fá erlendis frá samstarfsfólki sínu, er hvers vegna það komi svo margir góðir söngvarar frá þessu litla landi. Íslenska þjóðin er jú söngelsk með eindæmum og gott aðgengi að tónlistarmenntun hefur eflaust orðið til þessarar jákvæðu þróunar. En þrátt fyrir sigra og velgengni, virðist starfsumhverfi þessa hóps listamanna ekki vera upp á marga fiska hérlendis og ekki hefur verið hlúð að því svo vel sé. Greinarhöfundar þessarar greinar og viðtala sem birtast í kjölfarið fóru á stúfana, lögðu viðhorfskönnun um starfsumhverfið fyrir félaga í Klassís, leituðu upplýsinga og kortlögðu starfsvettvanginn í samstarfi við Nýsköpunarsjóð námsmanna og Heimildina. Þær starfa báðar sem klassískar söngkonur.

Lýsandi dæmi

Í Áramótaskaupinu í hittiðfyrra vakti sena úr Bónus mikla athygli. Saga Garðarsdóttir leikkona lék konu sem hafði gleymt að taka með sér poka og á meðan hún laumaðist aftur inn í búðina til að finna plastpoka, söng hljómmikill kór reiðisöng yfir henni, svo hún skammaðist sín fyrir umhverfissóðaskapinn. Mörgum þótti atriðið vel heppnað og söngurinn flottur. Nokkrum vikum seinna, kom atriðið aftur til tals í samfélaginu þegar í ljós kom að söngvararnir sem höfðu verið fengnir til að syngja í atriðinu, fengu ekki eðlilega greitt fyrir vinnuna sína, eða einungis um 10% af lágmarkstaxta. Mörgum var ofboðið og heit umræða skapaðist en segja má að þetta hafi verið lýsandi dæmi fyrir stöðu og starfsvettvang klassískra söngvara á Íslandi.

Þrátt fyrir að félagar í Klassís séu eins margir og raun ber vitni, starfa þeir ekki allir við sönginn enda reynist söngvurum nær ómögulegt að starfa við sönginn í fullu starfi á Íslandi. Bestu atvinnumöguleikarnir eru erlendis en þar búa og starfa ýmsir íslenskir söngvarar. Vegna stöðunnar á Íslandi, hafa margir faglærðir söngvarar sem hér vilja búa, horfið til annarra starfa eða sinna söngnum í hlutastarfi eða frístundum.

Nokkrum vikum seinna, kom atriðið aftur til tals í samfélaginu þegar í ljós kom að söngvararnir sem höfðu verið fengnir til að syngja í atriðinu, fengu ekki eðlilega greitt fyrir vinnuna sína, eða einungis um 10% af lágmarkstaxta.

Þjálfun, nám og starfsheiti

Í þessari grein notum við starfsheitið klassískur söngvari í stað óperusöngvari vegna þess að það hefur breiðari skírskotun og margir innan fagsins notast við það. Klassískt menntuðum söngvurum má bera saman við hljóðfæraleikara og íþróttamenn hvað þjálfun varðar, þar sem áratugalöng ástundun liggur oft að baki. Á Íslandi er klassískur söngur kenndur við ýmsa tónlistarskóla og einnig á háskólastigi við LHÍ. Að útskrift lokinni, halda flestir sem hyggja leggja starfið fyrir sig, í framhaldsnám erlendis.

Sumir ílengjast við nám og störf en aðrir ákveða að halda aftur heim - sú ákvörðun verður oft þess valdandi að viðkomandi skiptir um starfsvettvang eða starfar í hlutastarfi við sönginn.

Þrátt fyrir þungt starfsumhverfi, virðist fólk hvorki hika við að stunda söngnám árum saman né taka námslán hjá Menntasjóði námsmanna. 91% af aðspurðum söngvurum sögðust hafa tekið námslán til að fjármagna nám sitt, sem nú standa í allt frá 3-25 milljónum króna. Meistararitgerð og rannsókn Ásu Fanneyjar Gestsdóttur, söngkonu og menningarstjórnanda, Þetta er bara bévítans hark frá árinu 2017 fjallar um veruhátt óperusöngvara og upplifun þeirra af starfsvettvanginum. Þar kemur fram að viðmælendur gátu ekki ráðlagt öðrum að velja þetta starf. 

Starfsvettvangurinn

Helsti starfsvettvangur faglærðra klassískra söngvara, almennt séð er, auk óperustarfa, störf við kóra eða kirkjuathafnir, með hljómsveitum, í tónlistarleikhúsi og sjálfstæðum verkefnum. Klassískir söngvarar geta hvergi sótt um fasta stöðu á Íslandi í sínu fagi og því eru nær allir söngvarar á Íslandi sjálfstætt starfandi. Þessu er öfugt farið hjá leikurum, dönsurum og hljóðfæraleikurum sem hafa möguleika á að sækja um vinnu við leikhúsin, Íslenska dansflokkinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Í Sinfóníuhljómsveitinni eru minnst 65 stöðugildi hljóðfæraleikara en hljómsveitin var stofnuð árið 1950 og á sér yfir 70 ára sögu. Gildi hennar fyrir íslenskt samfélag og menningarlíf verður seint fullmetið. 

Söngvarar á Íslandi starfa sumir við jarðarfararsöng og kirkjuathafnir; Íslenska óperan, sinfóníuhljómsveitir á Íslandi og ýmsar hátíðir og kórar ráða söngvara einnig í verkefni en söngvarar hafa orðið atkvæðameiri í sjálfstæðu sviðslistasenunni á undanförnum árum og staðið fyrir eigin verkefnum í auknum mæli. Vandamálið við sjálfstæða geirann er að hann er ótryggur og ófyrirsjáanlegur og innviðirnir að sumu leyti ófaglegir.

Íslenskir listamenn geta sótt um verkefnastyrki og listamannalaun til framkvæmda á verkefnum en árángurshlutfall þeirra sem sækja um starfslaun tónflytjenda er lágt. (var t.d. 21% árið 2023). Það ár fengu aðeins sjö klassískir söngvarar laun í samtals 41 mánuð. Upphæð listamannalauna á mánuði miðast við 66% vinnu og launin eftir því. Fagleg nefnd fer yfir allar umsóknir. Listamannalaunin eru ekki hugsuð sem hefðbundin laun heldur verkefnastyrkir.

Á hverju ári eru listamenn því á byrjunarreit hvað listamannalaunin varðar og aldrei er möguleiki á að gera nokkurra ára plön fram í tímann.

Á hverju ári eru listamenn því á byrjunarreit hvað listamannalaunin varðar og aldrei er möguleiki á að gera nokkurra ára plön fram í tímann. Einn helsti gallinn við styrkjakerfið er hversu seint svör berast við umsóknum og hversu stutt fram í tímann er hægt að sækja um styrki. Það setur íslenskt tónlistarfólk oft í vonda stöðu gagnvart erlendum samstarfsaðilum. Vonir standa þó til með að styrkjaumhverfið eflist og bætist í kjölfar nýstofnaðrar Tónlistarmiðstöðvar sem hefur almennt séð mætt jákvæðu viðhorfi tónlistarfólks. Nýlega samþykkt á Alþingi nýtt frumvarp Lilju Daggar Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptamálaráðherra um íslenska tónlistarstefnu á árunum 2023-2030 en eitt af markmiðum hennar er að tónlist verði fullgild og eftirsóknarverð atvinnugreinSömuleiðis er nú unnið að mótun sviðslistastefnu sem nær utan um styrkjaumhverfi er snýr að óperuflutningi og tónleikhúsi. Sú stefna kemur til með að hafa bein áhrif á starfsvettvang söngvara.

Söngvararnir sem tóku þátt í viðhorfskönnuninni, lýstu meðal annars starfsumhverfinu á Íslandi á eftirfarandi hátt: óásættanlegt, slæmt, ófaglegt, erfitt, ólíðandi, óstablít, óöruggt, illa borgað, ekkert til að tala um, verulega glatað, ekki mikil samstaða, ekki mjög beisíð, enginn starfsgrundvöllur, hörmulegt, lítið hvetjandi, þungt, óþroskað, bágborið, hark, handahófskennt, skelfilegt, mjög klíkumiðað, enga fasta vinnu að fá, mjög fá tækifæri; engin vernd innan umhverfisins eða samfélagsins fyrir söngvara.

Einn af þeim 50 söngvurum sem tóku þátt, svaraði að sér fyndist starfsumhverfið ágætt.

Íslenska óperan og þjóðarópera

Íslenska óperan (ÍÓ) var formlega stofnuð árið 1980 af ástríðufullu óperufólki með Garðar Cortes í broddi fylkingar. Hún hefur verið eina stofnunin á landinu um árabil sem hefur notið fastra opinberra fjárframlaga til að standa fyrir óperuflutningi. Á hverju ári hefur ÍÓ sett upp 1-2 óperuuppfærslur sem og nokkra minni viðburði.Stofnunin hefur ráðið tónlistarfólk í tilfallandi verkefni en afar sjaldan í fastar stöður. Föstu starfsmennirnir hafa hingað til verið stjórnendur, starfsfólk á skrifstofu, yfirmaður búningadeildar og sýningar-/framleiðslustjóri, eftir því sem best verður komist.

Á tímabilum hefur verið tónlistarstjóri og rétt eftir aldamót voru söngvarar þó fastráðnir til 1 árs í senn. Almennt séð þykir íslenskum söngvurum afar vænt um ÍÓ enda eiga margir dýrmætar minningar þaðan. Saga hennar er merkileg og hefur hún verið mikilvægasti starfsvettvangur söngvara á Íslandi frá stofnun. Á undanförnum árum hefur þó styr staðið um hana eins og fjallað hefur verið um víða. Meðal þess sem gagnrýnt hefur verið eru kjaramál og launastefna, skortur á samningum og faglegu samtali, dýrt skrifstofuhúsnæði í Hörpu, ógagnsæi í rekstri, lítil framleiðsla, vöntun á viðburðum fyrir börn, framkoma stjórnenda við listafólk og í vor sem leið, óviðeigandi leikgervi í óperuuppfærslu. Sunna Valgerðardóttir, fréttamaður á RÚV rifjaði síðastliðið sumar upp stöðu ÍÓ í Þetta helst í kjölfar umræðunnar.

Í þættinum fjallaði hún einnig um dómsmál Þóru Einarsdóttur gegn ÍÓ sem söngkonan vann fyrir Landsrétti; vantraustsyfirlýsingu Félags klassískra söngvara á stjórn og óperustjóra sem og viðbrögð formanns stjórnar Íslensku óperunnar við yfirlýsingunni. Þrátt fyrir gagnrýnina, hefur þó margt verið vel gert síðustu ár; listamenn hafa brillerað í sýningunum sem flestum hefur verið vel tekið og verið mjög vel sóttar.

Síðastliðin ár hafa æ háværari raddir heyrst meðal listamanna um að að breyta þurfi rekstrarformi óperunnar og bæta vettvanginn. Stofnunin hefur til þessa verið rekin sem sjálfseignarstofnun og hefur því ekki þurft að fara eftir stjórnsýslulögum. Það hefur mörgum þótt gagnrýnivert.

Síðastliðin ár hafa æ háværari raddir heyrst meðal listamanna um að að breyta þurfi rekstrarformi óperunnar og bæta vettvanginn.

Aðdragandi þjóðaróperu

Aðdragandi hugmyndanna um þjóðaróperu hófst fyrir alvöru þegar ný lög um sviðslistir tóku gildi í júlí 2020 en lengi hafði verið unnið að þeim. Þar með fékk óperuformið sömu stöðu og leikhús, dans- og brúðuleikhús og var lagalega skilgreint með sviðslistunum. Við undirbúning sviðslistalaganna kom í ljós að lagaramma vantaði um óperulistina þannig að hún hefði lagalegan grundvöll og tryggingu fyrir tilvist sinni eins og aðrar sviðslistir.

Í ráðuneytinu var hafist handa og árið 2020 mynduð nefnd til að kanna kosti og galla og grundvöll þjóðaróperu. Meirihluti nefndarinnar lagði til í skýrslunni Þjóðarópera, uppspretta nýsköpunar úr jarðvegi hefðar „að mennta- og menningarmálaráðherra bæri fram frumvarp til breytinga á lögum um sviðslistir og lögfesti stofnun þjóðaróperu (...) í þeim tilgangi að gera að veruleika nýjan starfsvettvang fyrir söngvara, hljómlistarmenn, tónskáld, textasmiði og annað listafólk sem sinna kann óperulistinni og alltof lengi hefur verið hornreka í íslensku menningarlífi.“. Yfirgnæfandi meirihluti þess fagfólks sem nefndin ráðfærði sig við, studdi einnig stofnun þjóðaróperu. Tveir nefndarmeðlimir skiluðu séráliti.

Í lok maí sl. birtust fréttir um að öllu föstu starfsfólki ÍÓ hefði verið sagt upp, nema óperustjóra og í viðtali tók óperustjóri fram að breytingar væru í farvatninu. Í viðtalinu kom fram jákvætt viðhorf til breytinganna. Annan tón var seinna að heyra í yfirlýsingu frá stjórn ÍÓ þar sem skorað var á stjórnvöld að skrúfa ekki fyrir fjármagn til stofnunarinnar. Stjórnir BÍL og Klassís sendu í kjölfarið frá sér ályktanir þar sem lögð var áhersla á að stjórnirnar styddu áform ráðuneytisins.

Eins og málin standa núna, er vinna við stofnun nýrrar þjóðaróperu í fullum gangi í ráðuneytinu í samstarfi við nýráðinn verkefnastjóra og nefnd um stofnun þjóðaróperu. Stefnt er á að hún taki til starfa í byrjun árs 2025, nái áætlanir fram að ganga. Fyrir þær sakir mun ÍÓ ekki njóta sömu fjárframlaga og áður og nú í febrúar gefst sjálfstæðu senunni auk þess tækifæri á að sækja um fjármagn í nýjan óperusjóð. Breytingar eru því á næsta leiti. Ljóst er að um mikið tilfinningamál er að ræða en heitar umræður áttu sér stað meðal fagfólks á nýliðnu ári þar sem sumir lýstu yfir hræðslu og tortryggni yfir áformunum þó svo meirihluti hafi lýst yfir jákvæðu viðhorfi sbr. niðurstöður viðhorfskönnunarinnar. Nokkrir töldu sig ekki hafa kynnt sér málið nægilega vel til að mynda sér skoðun. Hér að neðan má sjá nokkur dæmi:

Hvaða skoðun hefur þú á stofnun nýrrar Þjóðaróperu?

 • Ég vil sjá Þjóðaróperu, það þarf að gerast eins fljótt og hægt er.
 • Væri mjög jákvæð þróun.
 • Ég held að það sé farsælast fyrir alla starfsstéttina. Það myndi líklegast auka gagnsæi á starfsemi óperunnar. Ég held að þjóðarópera myndi hafa mjög jákvæð áhrif á starfsstéttina og styrkja stöðu íslenskra söngvara.
 • Bráðnauðsynlegt og löngu tímabært. Nauðsynlegt að hafa fagráð, fagaðila til ráðgjafar og í stjórn.
 • Ég er á þeirri skoðun að byggja ætti nýja þjóðaróperu á grunni Íslensku óperunnar, sumsé breyta rekstri ÍÓ. Þykir vænt um ÍÓ og hún hefur verið að byggja upp frábært starf og setja upp mjög flottar sýningar og finnst galin hugmynd að leggja hana niður og stöðva fjárframlög til hennar.
 • Èg vona að sú hugmynd fái fram að ganga svo að íslensk sönglist fái notið sín enn frekar; Þjóðarópera væri mikið framfararkref. Við verðum að sjá breytingar, óperan þarf verðugri sess hjá þjóðinni og nýjan óperustjóra.
 • Það þarf að grundvalla óperustarfsemi hér eins og aðra sviðslistastarfsemi, með skilgreindri aðkomu ríkisins og stjórn sem er skipuð fulltrúum ákv. aðila. Núverandi ástand er óboðlegt.

Sjálfstæða senan og listahátíðir

Á undanförnum árum hefur sjálfstæða óperu- og söngsenan sprungið út en sjálfstætt starfandi söngvarar og þeirra samstarfsfólk hafa staðið fyrir fjölmörgum verkefnum.Ný kynslóð sprenglærðra söngvara er mætt til leiks með framkvæmdagleði og listrænan metnað að vopni og hefur vakið athygli fyrir vel heppnaðar uppfærslur og lausnamiðað hugarfari. Á Grímuverðlaununum í júní sl. hlaut grasrótarstarf óperulistamanna Grímuverðlaun í flokknum Sproti ársins.

Nokkrar tónlistarhátíðir á Íslandi einbeita sér að klassískri sönglist og hjá þeim er lögð áhersla á fjölbreytta viðburði fyrir alla aldurshópa; faglegt samtal og fræðslu; alþjóðlegt og innlent samstarf og metnaðarfulla dagskrá. Víða á landsbyggðinni er öflugt söngstarf atvinnufólks. Stærsta áskorun þessara hópa og hátíða er að tryggja fjármagn til að standa fyrir starfinu. Flestir þurfa að byrja fjármögnun frá grunni ár hvert þar sem nær ómögulegt er að tryggja styrki til lengri tíma. Á undanförnum árum hafa langflestar óperusýningarnar verið í boði sjálfstæðu senunnar og því svíður mörgum hversu litlu fjármagni hefur verið veitt í hana.

Kórastarf og atvinnumennska

Atvinnusöngvarar hafa á undanförnum árum talað fyrir stofnun atvinnumannakórs með föstum stöðugildum hér á landi. Slíkur kór gæti sinnt mismunandi skyldum og starfað þvert á stofnanir; til dæmis í samstarfi við þjóðaróperu, RÚV, Sinfóníuhljómsveit Íslands, leikhúsin og á landsbyggðinni; sinnt upptökum á nýjum og eldri verkum; haft hlutverk innan Þjóðkirkjunnar, við tónlistarflutning á landsbyggðinni og sinnt fræðslustarfi. Slíkur kór myndi, auk nýrrar þjóðaróperu, breyta starfsumhverfinu mikið. Hingað til hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands aðeins ráðið áhugamannakóra í sín verkefni og þannig að vissu leyti grafið undan starfsvettvangi faglærðra söngvara.

Um margra ára skeið hafa söngvarar hvíslað um það sín á milli en eru nú farnir að segja það upphátt og óska eftir því að breyting verði þar á. Þeir tala um nauðsyn þess að standa vörð um listræn gæði, vernda fagið og búa til raunveruleg störf á fagvettvangi. Að ráða eingöngu áhugamannakóra, mætti líkja við að góðu áhugafólki væri boðið að spila alla íþróttalandsleiki meðan atvinnufólkið sæti heima. Stjórnendum hljómsveitarinnar er kunnugt um stöðuna og viðhorf margra söngvara en hafa enn ekki svarað kallinu eða kallað eftir nauðsynlegu fjármagni til að breyta þessu. Margir áhugamannakórarnir eru góðir og því í raun mjög jákvætt og hvetjandi að bjóða þeim að syngja með Sinfóníunni til að auka þátttöku og áhuga. Þegar atvinnufólkið er hins vegar algjörlega útilokað frá vettvangi sem ætti að vera þeirra fagvettvangur, þarf að skoða málin betur. Kannski væri hægt að finna einhvern góðan meðalveg.

Í könnun okkar stóð ekki á svörum við eftirfarandi spurningu: Hvaða skoðun hefur þú á stofnun atvinnukórs með föstum stöðugildum sambærilegum við hljóðfæraleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands?

 • Ég tel að það eigi að vera kór við Þjóðaróperu og að SÍ eigi að greiðan kórsöngvurum full laun fyrir sína vinnu með hljómsveitinni hvaða kór sem þau kjósa að ráða í verkefnin.
 • Ég held að það væri klárlega eitthvað sem á að gera. Þetta hefur verið talað um lengi og nú nokkuð í kóraheiminum og innan raða Klassís. Ég teldi hinsvegar að ef það yrði gert yrði það að vera samansett af atvinnusöngvurum sem geta sungið fleiri stílbrigði en bara hefðbundin klassískan söng. Þetta er pólitískt mál innan raða söngvara.
 • Það væri mjög jákvætt og er starfsvettvangur sem ég hefði áhuga á að starfa við.
 • Það myndi bæta starfsumhverfi söngvara til muna. 

Í öllum löndum Evrópu sem við miðum okkur við, eru starfræktir atvinnumannakórar (útvarpskórar, kammerkórar, óperukórar) sem eru margir reknir á svipaðan hátt og sinfóníuhljómsveitir eða sem hluti af leik-/óperuhúsi. Erlendis er gífurleg samkeppni um slíkar stöður en vinna í slíkum kórum stuðlar að sterku listrænu starfi og dýrmætu starfsöryggi.

Í öllum löndum Evrópu sem við miðum okkur við, eru starfræktir atvinnumannakórar (útvarpskórar, kammerkórar, óperukórar)

Þjóðkirkjan

Söngur við við jarðarfarir og aðrar kirkjuathafnir er einn helsti starfsvettvangur klassískra söngvara á Íslandi. Erfitt getur reynst að komast að í söng-/jarðarfararhópum eða sem einsöngvari en áhugafólk tekur auk þess nokkuð pláss í þeim verkefnum. Sumir prestar mæla með eigin kirkjukórum og hafa þeir áhrif á val aðstandenda á flytjendum og tónlistinni. Tónlistarfólkið er sjálfstætt starfandi og fær greitt af aðstandendum hinna látnu en ekki þjóðkirkjunni. Eftir Hrunið árið 2008 dró Þjóðkirkjan saman seglin í tónlistarflutningi og nær algjört hrun varð í tónlistarflutningi í kirkjuathöfnum þar sem sums staðar var alveg skrúfað fyrir fjármagn til tónlistarflutnings. Í sögulegu samhengi hefur kirkjan spilað ómetanlegan þátt í tónlistar- og menningaruppeldi í samfélaginu, bæði hér og erlendis. Sá mikilvægi vinkill vill oft verða útundan í umræðunni um stöðu kirkjunnar í samfélaginu og dæmi um ómetanlegt tónlistarstarf í kirkjunni má finna víða.

Leikhúsin

Leikhúsið skipar mikilvægan sess í lífi fjölmargra Íslendinga. Hið sama gæti gilt um óperuformið og alls kyns tónlistarleikhús þar sem klassískir söngvarar koma fram. Sumir telja óperuformið óaðgengilegt en þeir sem fylgjast með senunni heima og erlendis, vita að svo er sjaldnast raunin og að þróun á sér stað víða. Lítil samvinna hefur verið milli leikhússins og óperufólks almennt séð í íslensku senunni. Af einhverjum ástæðum hafa fáir reynslumiklir, klassískir söngvarar fengið tækifæri til að koma fram í leikhúsunum á Íslandi. Þó hefur örlítið rofað til á síðustu 1-2 árum þegar leikhúsin hafa stutt við óperusýningar sem eru framleiddar af sjálfstæðum hópum.

Í hópi klassískra söngvara leynast margir með mikla sviðs- og leikreynslu úr atvinnuhúsum erlendis og þeir gætu átt fullt erindi á íslensk leiksvið. Að líta í ríkari mæli til Þýskalands og þeirra samlegðaráhrifa sem verða þegar leikhús, ópera og dansflokkar starfa í návígi, gæti einnig verið góð hugmynd.

RÚV og fjölmiðlarnir

RÚV er ein mikilvægasta menningarstofnunin í samfélaginu og á sér hliðstæður í BBC á Englandi og ríkismiðlunum á Norðurlöndunum. RÚV hefur ríku menningarhlutverki að gegna. Rás 1 er eina útvarpsstöðin sem sinnir klassískri tónlist þó svo umfjöllun um hana hafi minnkað á undanförnum árum. Árið 2013 stóðu yfirvöld fyrir miklum niðurskurði hjá RÚV þar sem framlag til stofnunarinnar var minnkað um 1 milljarð á ársgrundvelli (rúmur 1,5 milljarður á verðlagi dagsins í dag). Um 60 manns misstu vinnuna og tónlistardeildin var svo gott sem lögð niður. Áhrif þessa sársaukafulla niðurskurðar verða seint fullmetin en á þeim áratugi sem liðinn er síðan þá, hefur umfjöllun um menningu átt undir högg að sækja. Sýnileiki klassískra tónlistarmanna hefur á sama tíma minnkað í þáttagerð.

Oft reynist erfitt að fá umfjöllun um klassíska tónlistarviðburði og gagnrýni á tónleikum og uppfærslum í öðrum fjölmiðlum enda eru fáir gagnrýnendur starfandi. Það dagskrárgerðarfólk sem sinnir menningunni á fjölmiðlunum vinnur undir miklu álagi og hefur ekki tök á að fjalla um nema brot af menningartengdum viðburðum.

Um mikinn meirihluta þeirra tónleika sem haldnir eru, eru því ekki til umfjallanir. Í menningarumfjöllun Kastljóssins um árið sem var að líða og sviðslistaumfjöllun á RÚV, var til að mynda ekki einu orði minnst á klassíska tónlist. Vissulega er að sá skortur á menningarumfjöllun sem um ræðir, hluti af stærra vandamáli fjölmiðla á Íslandi og rekstrarumhverfi þeirra. Nýlega lauk einnig dómsmáli FÍH gegn RÚV vegna kjarasamninga með sigri FÍH en sú niðurstaða kallar auk þess á nýjar nálganir og samtöl.

Í menningarumfjöllun Kastljóssins um árið sem var að líða og sviðslistaumfjöllun á RÚV, var til að mynda ekki einu orði minnst á klassíska tónlist.

Mikilvægi nýrra áhorfendahópa

Áhyggjur fagfólks vegna stöðu mála felast ekki síst í óvissu um framtíðina og skorts á  þróun og uppbyggingu á áhorfendahópum og samfellu í starfi. Án samfellu á sýningum og tónleikum er erfitt að byggja upp nýja áhorfendahópa og þá verður eftirspurnin smám saman minni, listformið hættir að vera mikilvægt eða hluti af lífi fólks. Að sama skapi hefur verkefnavalið mikið að segja. Tvær sýningar á síðastliðnu leikári í Þjóðleikhúsinu og Íslensku óperunni kveiktu á heitum samfélagsumræðum um birtingarmyndir neikvæðra staðlímynda í sviðslistum sem og inngildingu fagfólks og áhorfenda hjá íslenskum sviðslistastofnunum. Ljóst er að ríkari krafa er gerð á verkefnaval, inngildingu og áherslur hjá listrænum stjórnendum en áður. Íslenskt samfélag og og viðhorf breytist í sífellu sem og áhorfendahóparnir sjálfir. Það þurfa listirnar að endurspegla.

Tónlistarnám, lýðheilsa, nýsköpun og framtíðin

Ógrynni rannsókna hafa sýnt fram á gildi tónlistar, kórastarfs og söngs fyrir fólk, börn, lýðheilsu og samfélög. Tónlistar- og listnám eykur hæfni á mörgum sviðum en samt hefur tónlistar- og listkennsla minnkað í grunnskólum á Íslandi á undanförnum árum. Barnakórastarf er á undanhaldi og tónlistarskólar berjast margir í bökkum fjárhagslega. Mörg börn fá aldrei tækifæri til að stunda tónlistarnám vegna hversu dýrt það er og sums staðar er ekki hægt að komast að vegna langra biðlista. Íslendingar eru þekktir fyrir sköpunargáfu en nýlega birtist grein í Guardian um hvernig Ísland hefur þróast í „orkuver“ fyrir klassíska tónlist. Þegar litið er til mannfjölda, hafa Íslendingar náð ótrúlegum árangri á sviði klassískrar tónlistar.

Vandi söngvara á Íslandi - samantekt

Að sumu leyti snýst vandi söngvara á Íslandi um valdaleysi í eigin fagi sem og kerfisbundið og almennt skilningsleysi á starfinu og mikilvægi þess, víða þar sem síst skyldi. Þannig barðist Íslenska óperan á móti grunnkjararéttindum söngvara í dómsmáli sínu gegn Þóru Einarsdóttur og hefur á undanförnum árum staðið fyrir fáum verkefnum í stórri yfirbyggingu. RÚV hefur ekki greitt söngvurum og öðru tónlistarfólki fyrir upptökur samkvæmt taxta árum saman og nýlegur dómur kallar eftir nýju samtali.

Klassísk tónlist og sönglist hafa átt undir högg að sækja þar á undanförnum árum með minni spilun og umfjöllun en áður tíðkaðist

Klassísk tónlist og sönglist hafa átt undir högg að sækja þar á undanförnum árum með minni spilun og umfjöllun en áður tíðkaðist; Sinfóníuhljómsveit Íslands ræður nær ávallt áhugamannakóra í stað atvinnufólks við flutning á kórverkum og eins og ÍÓ, býður söngvurum nær aldrei í prufur og ræður oft erlenda söngvara til að syngja bitastæðustu einsöngsparta. Þjóðkirkjan hefur dregið saman tónlistarseglin allt frá hruni og innan hennar er einnig talað fyrir enn meiri niðurskurði í tónlistarstarfi.

Ýmsir kirkjukórar, mannaðir áhugamannafólki, taka nokkuð pláss í jarðarfararsöng og keppast þar við atvinnufólkið um greidd verkefni. Þar að auki ráða leikhúsin frekar leikara til að fara með sönghlutverk en söngvara og bjóða ekki faglærðum klassískum söngvurum í opnar prufur til sín. Styrkjakerfi ríkisins er, eins og fyrr segir, meingallað en vonir standa til að það fari batnandi. Auk þess hallar mikið á klassíska söngvara í úthlutunum ÚTÓNs í samkeppni við dægurtónlist.

Að halda sér í söngformi og leita að vinnu í þessu starfsumhverfi reynist oft þrautin þyngri. Aðstöðuleysi gerir söngvurum sem og öðru sviðslistafólki erfitt fyrir sem og há húsaleiga hjá tónlistarhúsi allra landsmanna og tónleikastöðum. Að reyna að starfa við fagið á Íslandi er ákveðinn ómöguleiki og því í raun athyglisvert hversu virkir klassískir söngvarar eru þó í menningarlífinu. Ljóst er þó að það er fáum auðvelt. Söngvararnir sjálfir lýstu þessu vel þegar þeir svöruðu eftirfarandi spurningu í könnuninni:

Hver er helsta áskorunin við að vera söngvari í dag? Geturðu nefnt dæmi um eigin reynslu?

 • Að laun séu í einhverju samræmi við vinnuna sem að baki liggur. Að fá vinnu.
 • Ófaglegt starfsumhverfi og starfsmenning. Lítil sem engin fagvitund meðal söngvara.
 • Ekki hægt að lifa af því að starfa sem söngvari. Vantar stöður. Laun lág.
 • Helsta áskorunin er trúlega starfsumhverfið og það hvað maður er háður styrkjakerfinu. Það er t.d áskorun að vita ekki fyrr en í janúar hvort verkefni sem var sótt fyrir 4 mánuðum fyrr verði að veruleika … það er líka áskorun skapa allt sjálfur og vera í senn; framkvæmdastjóri, listrænn stjórnandi, markaðstjóri, grafískur hönnuður, textagerðarkona og svo já söngkonan.
 • Tilvistarréttur
 • Óöryggi og enginn möguleiki á fastri vinnu 

Horft til framtíðar

Það býr gífurlegur mannauður í klassískum söngvurum og þeirra samstarfsfólki á Íslandi og erlendis. Undanfarið hefur greinarhöfundur oft velt þeirri spurningu fyrir sér, hvort landsmenn þekki yfir höfuð söngvarana „sína“ af yngri kynslóðinni eins og þeir þekkja íþróttafólkið, leikarana og áhrifavaldana? Hringja nöfn eins og Arnheiður Eiríksdóttir, Björk Níelsdóttir, Benedikt Kristjánsson, Eyrún Unnarsdóttir, Bryndís Guðjónsdóttir, Jóhann Kristinsson, Kristján Jóhannesson, Agnes Thorsteins, Elísabet Einarsdóttir, Álfheiður Erla Guðmundsdóttir og Andri Björn Róbertsson bjöllum hjá almenningi? Öll eru þetta söngvarar undir fertugu sem eru á blússandi ferð í sínum söngferlum úti um hvippinn og hvappinn.

Þegar gert er grein fyrir starfsumhverfi hópsins og viðhorf hans kannað, liggur við að mani fallist hendur. En ýmislegt vekur líka von; gróskan í grasrótinni, krafturinn í fagfólkinu og sigrar þess hérlendis og erlendis, samstaða margra sem og nýtilkominn, dýrmætur pólitískur vilji til að efla starfsvettvanginn. Fyrir tæpum 70 árum, árið 1957, sagði Ragnhildur Helgadóttir alþingiskona meðal annars þessi orð í þrumuræðu um sýn sína á íslenska óperu og fastráðningu óperusöngvara:

Þeim, sem hafa búið sig undir að gerast söngvarar að atvinnu, hefur fjölgað að mun á síðari árum. Hafa sumir þeirra setzt hér að að námi loknu, en það þótti þeim, sem á undan fóru, ekki fýsilegur kostur. Þessir góðu listamenn hafa eflt tónlistarlífið, en vinnuskilyrði þeirra hafa þó verið slík, að starf þeirra hefur hvorki orðið þeim sjálfum né almenningi jafnnotadrjúgt og skyldi.

Margt bendir til að þau eigi enn við árið 2024. Vonandi mun ráðherra ná markmiði sínu um að gera tónlist að fullgildri og eftirsóknarverðri atvinnugrein sem allra fyrst og beisla um leið sprengikraftinn sem býr í klassískum söngvurum. Staðreyndin er nefnilega sú að það er ekki einungis hálendið sem hægt er að virkja. Söngvarar vilja vinna við sitt fag og taka þátt í að efla samfélagið og menningarlífið hér á landi. Kannski er einfaldlega mál til komið - það væri spennandi framsókn.

Greinargerðina má nálgast í heild sinni á þessari slóð.

Kjósa
19
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Starfsumhverfi klassískra söngvara

Fáránleg ákvörðun fyrir klassíska söngkonu
ViðtalStarfsumhverfi klassískra söngvara

Fá­rán­leg ákvörð­un fyr­ir klass­íska söng­konu

Björk Ní­els­dótt­ir er söng­kona, trom­pet­leik­ari, jazz­ari, popp­ari, rokk­ari, klass­íker, þjóðlaga­grúsk­ari, tónsmið­ur og sviðs­leik­kona. Hún ræð­ir hér starfs­um­hverfi sitt við Thelmu Hrönn Sig­ur­dórs­dótt­ur. Við­tal­ið er sprott­ið af rann­sókn sem Thelma og Guja Sand­holt gerðu sam­an í sam­vinnu við Ný­sköp­un­ar­sjóð og Heim­ild­ina – um starfs­um­hverfi fag­lærða söngv­ara á Ís­landi.
Íslenskt samfélag togar mig heim, en ekki tónlistarlífið
ViðtalStarfsumhverfi klassískra söngvara

Ís­lenskt sam­fé­lag tog­ar mig heim, en ekki tón­list­ar­líf­ið

Bjarni Thor Krist­ins­son starfar að­al­lega við óperu­söng er­lend­is en hann hef­ur þó ver­ið mun leng­ur í sviðslist­um, al­veg síð­an hann var barn. Hann ræð­ir starfs­um­hverfi sitt við Thelmu Hrönn Sig­ur­dórs­dótt­ur. Við­tal­ið er sprott­ið upp úr rann­sókn sem Thelma og Guja Sand­holt gerðu sam­an í sam­vinnu við Ný­sköp­un­ar­sjóð og Heim­ild­ina – um starfs­um­hverfi fag­lærða söngv­ara á Ís­landi.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár