Þessi grein birtist fyrir rúmlega 2 mánuðum.

Íslenskt samfélag togar mig heim, en ekki tónlistarlífið

Bjarni Thor Krist­ins­son starfar að­al­lega við óperu­söng er­lend­is en hann hef­ur þó ver­ið mun leng­ur í sviðslist­um, al­veg síð­an hann var barn. Hann ræð­ir starfs­um­hverfi sitt við Thelmu Hrönn Sig­ur­dórs­dótt­ur. Við­tal­ið er sprott­ið upp úr rann­sókn sem Thelma og Guja Sand­holt gerðu sam­an í sam­vinnu við Ný­sköp­un­ar­sjóð og Heim­ild­ina – um starfs­um­hverfi fag­lærða söngv­ara á Ís­landi.

Hann er djúpi bassinn sem vakti athygli fyrir dagbókarfærslur sínar, Dagbók óperusöngvara, í sóttkví í miðjum Covid-faraldri. Bjarni Thor Kristinsson starfar þó aðallega við óperusöng erlendis. Hann hélt nýverið upp á 25 ára söngafmæli á sviði, en hefur þó verið mun lengur í sviðslistum, alveg síðan hann var barn.

Bjarni kemur úr Garðinum, fékk leikhúsbakteríuna snemma og steig fyrst á svið 10 ára. Hann spilaði á gítar og söng í kór en hugsaði aldrei um að verða söngvari. „Ég var í stjórnmálafræði, stúdentapólitík, kenna í grunnskóla, eignast börn og söngurinn var svo þarna líka.“ 

Óperusviðið kveikti áhugann á söngnum

Bjarni lærði söng hjá Ragnheiði Guðmundsdóttur og fylgdi henni síðar í Söngskólann í Reykjavík. Þar heyrði hann af áheyrnarprufu fyrir Messías eftir Handel á Listahátíð árið 1992 undir stjórn Jóns Stefánssonar. Bjarni gekk kokhraustur í áheyrnaprufu sem gekk ekki alveg sem skyldi. „Ég var svo stressaður í prufunni að ég komst ekki í gegnum fyrsta langa frasann, fékk að byrja aftur, klikkaði í þriðja sinn og labbaði út. Ég sat síðan fyrir utan og hlustaði á vini mína og aðra syngja og er á leiðinni út þegar ég hugsa, „ja, ég var ekki alveg það góður – en ég er ekki alveg svona lélegur Þannig að ég fór aftur inn, söng aftur og landaði hlutverkinu.“

Þetta varð þetta til þess að Bjarni tók þá ákvörðun að reyna að verða atvinnusöngvari og fór tveimur árum síðar í óperunám í Tónlistarháskólanum í Vín. Fljótlega eftir að hann byrjaði í skólanum fór hann að vinna sem atvinnusöngvari og áttaði sig á því að hann hefði eitthvað í þetta. „Þegar ég fann óperusviðið kviknaði áhuginn.“ Bjarna var boðin fastráðning hjá Þjóðaróperunni (Volksoper) í Vín og þar starfaði hann í þrjú ár sem aðalbassi. „Ég var heppinn með tímasetningu og það sem rak á mínar fjörur.“

Erfitt í harkinu

Bjarni flutti út til Vínar með fjölskylduna, en hún flutti fljótlega aftur heim. „Eldri dóttir mín er með downs [heilkenni] og þessi félagslegi pakki er bara ekki nógu góður þarna úti.“ Þegar hann lauk fastráðningu í Þjóðaróperunni ákvað hann að starfa frekar í lausamennsku þrátt fyrir mörg boð um fastráðningar. „Ég valdi þessa braut. Mig langar að búa hérna heima og þá er enginn annar möguleiki en að vera í lausamennsku.“ Bjarni segir það erfitt að vera í harkinu. „Íslenskt samfélag togar mig heim, en ekki tónlistarlífið.“

 Bjarni segir að það geti verið kostnaðarsamt að starfa í lausamennsku. Undirbúningur fyrir hlutverk sé algjörlega á kostnað söngvaranna, hvort heldur þeir geri það sjálfir eða með aðstoð annarra. Fastráðnir söngvarar við óperuhús fá þessa þjónustu frá sjálfu húsinu. Kosturinn sé hins vegar sá að í lausamennsku geti maður frekar valið sér hlutverk, en fastráðnir söngvarar séu settir í hlutverk.

25 ár á sviðiBjarni Thor starfar aðallega við óperusöng erlendis. Hann hélt nýverið upp á 25 ára söngafmæli á sviði, en hefur þó verið mun lengur í sviðslistum, alveg síðan hann var barn.

Barbapabbi á sviði

„Ég er óperusöngvari, sem er minn miði inn í tónlistarheiminn, en ég brenn fyrir leikhúshliðinni á söngnum,“ segir Bjarni sem fór að hugsa um sjálfan sig eins og Barbapabba á sviði. „Hann gat breytt sér í allt. Það gat verið góður eiginleiki að vera þú sjálfur, en geta lagað þig að aðstæðum á hverju sviði.“ Þessi eiginleiki hefur nýst Bjarna vel í starfi. Leikstjórar eru misjafnir og áherslur hverrar sýningar mismunandi. Sjálfur hefur Bjarni leikstýrt þó nokkrum sýningum hér heima og finnst það ákaflega skemmtileg áskorun. „Það er þetta með leikhúsbakteríuna,“ segir hann kíminn. 

 Það mætti segja að Bjarni sé ansi snar í snúningi og fljótur að laga sig að nýjum aðstæðum. „Ég hef gert töluvert af innstökki og oft sungið í sýningum án þess að fá æfingu. Þá horfir maður á upptöku af sýningunni og lærir hlutverkið í flugvél á leiðinni, en það er mjög gaman og þá eru allir með þér í liði.“

Fastagestur í Berlín í fimmtán ár

Fyrst stökk Bjarni fyrirvaralaust inn í hlutverk í Berlín árið 1998. „Þá var ég nýbúinn að syngja stórt hlutverk Volksoper í óperunni Zar und Zimmermann, sem inniheldur mikla tónlist og mikinn texta. Þegar ég kem heim bíða mín svo skilaboð frá Ríkisóperunni í Berlín um að söngvarinn þeirra verði mögulega veikur daginn eftir og ég segi strax já! Ég var svo eiginlega að vonast daginn eftir að þetta yrði ekki því þetta var allt önnur uppfærsla af Zar und Zimmermann.“ Bjarni var mættur 2–3 tímum fyrir sýningu, sá leikmyndina, hitti hljómsveitina, söngvara og aðstoðarleikstjórann. „Svo náði ég bara að spinna í þrjá klukkutíma,“ segir Bjarni. „En þetta gekk ótrúlega vel og ég var fastagestur í Berlín næstu fimmtán árin.“

Óperuhús á heimsvísu skiptast í A, B og C flokka eftir stærð hljómsveita. Það er reynsla Bjarna að gæðin séu ekki meiri þótt húsin séu stærri, því oft þegar húsin eru orðin stór og með meiri pening, sé þetta orðið svo mikill business. „Stærra hús, meiri peningur og meiri möguleiki á alls konar dirty business. Þá fer sjálf listin að mjakast niður.“ Bjarni hefur aldrei sungið í minna en A húsi en þó aldrei sungið á Metropolitan Opera, Staatsopera eða Royal Opera House í Covent Garden. „En ég hef stokkið inn í hlutverk í La Scala og hef eiginlega sungið í öllum öðrum húsum sem skipta máli.“ Bjarni hefur sungið víða á Ítalíu. „Ég hélt að Scala væri mun betra en hin húsin á Ítalíu en þar var bara sama skipulagsleysið,“ segir hann hlæjandi.

„Íslenska óperan hefði mögulega aldrei átt að flytja í Hörpu, því þar er ekki pláss fyrir hana og þar skortir annan sal með leikhússviði.“

Óperan orðin eins og skúffufyrirtæki

Bjarni syngur töluvert á Íslandi, m.a. með Íslensku óperunni. „Ég söng með öllum óperustjórum Íslensku óperunnar, m.a. í sýningunum Évgení Onegin, Galdralofti, Brottnáminu úr kvennabúrinu, Ástardrykknum, Töfraflautunni, Rakaranum í Sevilla og Carmen.“ Þegar Íslenska óperan er borin saman við önnur óperuhús sem Bjarni hefur starfað við segir hann að þeir sem stofnuðu hana hafi gert vel, bæði stjórnendur og val þeirra á listrænu starfsfólki. Hins vegar sé hún nú orðin eins og eitthvert skúffufyrirtæki. „Íslenska óperan hefði mögulega aldrei átt að flytja í Hörpu, því þar er ekki pláss fyrir hana og þar skortir annan sal með leikhússviði. Hér vantar nothæft óperuhús til frambúðar.“

„Það er fáránlegt að halda það að það sé bundið í genunum okkar að fíla ekki lengur klassíska tónlist.“

Hlutverk Ríkisútvarpsins að styrkja klassíska tónlist

Bjarni hefur það á tilfinningunni að það séu fáir sem lifi á því að syngja á Íslandi og þeir sem geri það séu með alla anga úti. Þannig sé varla hægt að tala um starfsumhverfi söngvara. Bjarni segir að margir velti því fyrir sér af hverju að eyða peningum í listform sem almenningur hefur ekki mikil tengsl við. En hann ítrekar að óperusöngur sé gamalt listform sem þarf að hugsa ef til vill upp á nýtt, en þar gilda samt önnur lögmál heldur en í því sem er hipp og kúl í dægurmenningunni. Bjarni segir að í mörgum löndum sem við berum okkur saman við er settur peningur í listir þrátt fyrir að hún sé ekki vinsælasta formið þessa stundina. Hlutverk Ríkisútvarpsins er að styrkja klassíska tónlist en hún er ekki lengur valin í besta útsendingartímann, þar sem hún var áður. „Þetta hangir líka saman við það að það er ekki nógu mikið að gerast í íslenska óperuheiminum eða jafnvel líka klassíska heiminum til þess að fjölmiðlarnir og sjónvarpið sérstaklega finnist réttmætt að sýna það.“

 Bjarni telur að það sé dvínandi áhugi á klassískum söngvurum með nýrri kynslóð, en það eigi ekki að vera meitlað í stein að það sé svoleiðis. „Hið opinbera hefur stór tækifæri til að nýta allt þetta fólk sem er að stunda þetta og það er fáránlegt að halda að það sé bundið í genunum okkar að fíla ekki lengur klassíska tónlist.“ Bjarni segir Íslendinga upp til hópa elska leikhús og það séu mörg sóknarfæri fyrir klassíska tónlist, en það sem gerist oft þegar þessi umræða fer í gang er að háværar raddir þröngsýnna eldri kynslóða vilji óperuna í gamla sama forminu. Að hans mati þurfi Óperan að endurskoða erindi sitt við almenning í nútímanum.

 Bjarni segir vanta atvinnusöngkór. Hann bendir á að Sinfónían velji sér reglulega samstarf við áhugamannakóra og borgi þá ekki atvinnufólki fyrir. „Væri hið sama gert fyrir önnur hljóðfæri?“ spyr Bjarni. „Ég þekki fjórar systur sem kunna á fiðlu. Þær geta komið án þess að fá greitt. Er þetta boðlegt?“ Bjarna finnst að atvinnukór ætti að vera til hér á landi eins og alls staðar annars staðar og söngvarar að eiga möguleika á fastráðningu. „En það þarf að setja skýrar línur, hvað er þessi kór? Atvinnukór hefur marga vettvanga.“

„Ég þekki fjórar systur sem kunna á fiðlu. Þær geta komið án þess að fá greitt. Er þetta boðlegt?“

Styrkir snúast um að skapa gott starfsumhverfi

„Einhverra hluta vegna virðast styrkir og listsköpun ekki ná saman hjá ákveðinni kynslóð.“ Síðustu ár hefur aðeins verið bætt í styrkjakerfið og listamenn hafa að auki sameinast í verkefnum, segir Bjarni. Honum finnst meiri sátt um að dreifa þurfi styrkjum hjá söngvurum annað en hjá rithöfundum þar sem menn sitja mjög fastir á sínu. „En það þarf svo sannarlega að blása í seglin í okkar samfélagi ef þetta á yfir höfuð að verða eitthvað og það er pólitísk ákvörðun. Ef Þjóðaróperan verður stofnuð og allt fer af stað, þá verður grasrótin að eiga aðgang að fé þótt hann verði aldrei áskriftarpeningur, annars er það ekki grasrót.“ Bjarni segir styrki snúast um að skapa gott starfsumhverfi. Að gefa fólki tíma og séns sem er að sinna listinni fyrir samfélagið. 

 Bjarni Thor og sambýliskona hans, Lilja Guðmundsdóttir söngkona, eignuðust stúlku, Ísafold Heiðu, á síðasta ári og því ætlar hann að minnka við sig ferðalög á næstu misserum og fara í harkið hér heima. Bassinn hljómmikli mun þó ferðast til Kína þar sem á að flytja allan Niflungahringinn í nokkrum lotum til ársins 2026. Sökum Covid hefur þurft að fresta sýningum þar nokkuð oft en Bjarni er vongóður um að hann verði fastagestur í austurvegi næstu árin.

Kjósa
9
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Starfsumhverfi klassískra söngvara

Fáránleg ákvörðun fyrir klassíska söngkonu
ViðtalStarfsumhverfi klassískra söngvara

Fá­rán­leg ákvörð­un fyr­ir klass­íska söng­konu

Björk Ní­els­dótt­ir er söng­kona, trom­pet­leik­ari, jazz­ari, popp­ari, rokk­ari, klass­íker, þjóðlaga­grúsk­ari, tónsmið­ur og sviðs­leik­kona. Hún ræð­ir hér starfs­um­hverfi sitt við Thelmu Hrönn Sig­ur­dórs­dótt­ur. Við­tal­ið er sprott­ið af rann­sókn sem Thelma og Guja Sand­holt gerðu sam­an í sam­vinnu við Ný­sköp­un­ar­sjóð og Heim­ild­ina – um starfs­um­hverfi fag­lærða söngv­ara á Ís­landi.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár