Þjóðarbúið fékk á sig mikið og snöggt högg í heimsfaraldrinum; landsframleiðslan dróst saman í fimm ársfjórðunga í röð en samdráttur á árinu 2020 í heild var 7,2% og 8,7% á mann. Endurkoman hefur verið örari en var eftir fall fjármálakerfisins en hún dempast þó nokkuð þegar horft er til hagvaxtar á hvern íbúa vegna þess hve landsmönnum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum.
Í þessari grein tek ég til umfjöllunar hvernig höfuðborgarsvæðið hefur náð vopnum sínum á nýjan leik eftir faraldurinn en jafnframt mun ég fjalla um það hvernig þróunin hefur orðið í einstökum sveitarfélögum á svæðinu. Ég notast við þrengri skilgreiningu á höfuðborgarsvæðinu en kann að vera réttlætanleg vegna þess að ég fjalla ekki um nærsvæði höfuðborgarinnar að þessu sinni og sleppi að fjalla sérstaklega um Kjósarhrepp.
Greiningin byggir á upplýsingum sem Hagstofan birtir reglulega um staðgreiðsluskyldar launatekjur eftir atvinnugreinum og búsetu launafólks. Um er að ræða upplýsingar um fjölda einstaklinga eftir atvinnugreinum og sveitarfélögum. Atvinnugreinar sem landsmenn stunda eru hér flokkaðar í 13 flokka og nöfn þeirra gefa oft á tíðum ekki tæmandi lýsingu á því hvaða starfsemi tilheyrir hverjum flokki. Fyrir áhugasama um nánari skilgreiningu á flokkuninni er bent á útgáfu Hagstofunnar Íslensk atvinnugreinaflokkun (ÍSAT 95).
Þess þarf að geta að einstaklingur getur stundað launaða vinnu í fleiri en einni atvinnugrein og þess vegna er samtala launamanna eftir atvinnugreinum hærri en heildarfjöldinn en í honum er enginn tvítalinn. Rétt er að vekja athygli á því að þessar tölur eiga við einstaklinga eftir því hvar þeir búa en ekki hvar vinnustaður þeirra er.
Efnahagslega áfallið sem samfélagið varð fyrir í heimsfaraldrinum hafði átt sér aðdraganda. Hagvöxtur hafði farið minnkandi frá fyrsta ársfjórðungi árið 2018 og vöxtur vinnumarkaðarins nokkru fyrr. Það dró úr vexti hans og í byrjun árs 2019 var fjöldi launþega orðinn minni á höfuðborgarsvæðinu en hann hafði verið 12 mánuðum fyrr eins og sjá má á mynd 1. Botninum var náð í janúar 2021 en ársvöxturinn fór yfir núllpunktinn aftur í maí 2021. Hann náði síðan hámarki í apríl 2022. Það vekur athygli hversu hratt dregur úr vexti vinnumarkaðarins frá fyrra ári þótt enn sé langt í land með að fjöldi launþega dragist saman nema vegna árstíðasveiflunnar sem sést vel á rauðu línunni.
Í þessari grein legg ég mesta áherslu á þróun í fjölda þeirra sem þiggja laun og miða við septembermánuð árið 2020 til að hafa samanburð við septembermánuð í ár en í febrúarmánuði árið 2021 var samdrátturinn frá fyrra ári í lágmarki. Eftir það tók ekki nema 3 mánuði þangað til fjöldi launþega var orðinn meiri en hann hafði verið ári fyrr. Í október árið 2020 var fjöldi launþega í landinu 14.500 færri en þeir höfðu verið ári fyrr og var munurinn milli ára aldrei meiri en það.
Í farsóttinni gripu stjórnvöld til margháttaðra aðgerða til þess að leitast við að koma í veg fyrir að ráðningarsamband milli launþega og atvinnurekenda rofnaði og þess vegna sýna tölur um stöðuna í upphafi umfjöllunarinnar sennilega meiri fjölda sem þáði laun en fjöldann sem var raunverulega að vinna. Engin leið er að greina þarna á milli og kannski er það ekki mikilvægt.
Mynd 2 sýnir breytinguna á fjölda þeirra sem fengu laun milli september 2020 og september 2023.
Vinnumarkaðurinn hefur vaxið um 19,9% á þessu tímabili eða um tæplega 30.000 einstaklinga, og minna höfuðborgarsvæðinu (13,6%) en á landsbyggðinni (20,8%) en þar munar mest um mikinn vöxt atvinnu á Suðurnesjum og á Suðurlandi. Í heild fjölgaði störfum á höfuðborgarsvæðinu um 9.700 á því tímabili sem hér er til skoðunar. Störfum fjölgaði langmest í atvinnugreininni veitinga- og gistihúsarekstur en sú grein hefur vaxið um 67% á landsvísu og samtals um tæplega 7.700 störf. Hlutfallslegur vöxtur í þessari atvinnugrein var meiri á landsbyggðinni (89%) en á höfuðborgarsvæðinu en engu að síður er fjölgunin þar 51%. Þessi atvinnugrein lamaðist að sjálfsögðu nær algerlega meðan farsóttin stóð yfir.
Næst mest fjölgun starfa hefur orðið í atvinnugreininni fjármálastarfsemi og sérhæfð þjónusta. Vöxturinn var hlutfallslega meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Kann þetta að hluta til að stafa af búferlaflutningum fólks í þessum atvinnugreinum í útjaðra höfuðborgarsvæðisins eins og það er skilgreint hér.
Fjölgun starfa var álíka mikil í flutningastarfsemi, byggingarstarfsemi og í opinberri stjórnsýslu og þjónustu, rúmlega 4.000 störf í hverjum flokki. Í flutningastarfsemi var meiri fjölgun á landsbyggð en höfuðborgarsvæði, fyrst og fremst á Suðurnesjum. Í byggingarstarfsemi fjölgaði störfum meira á höfuðborgarsvæði en á landsbyggð en vöxturinn var hlutfallslega álíka. Í opinberri stjórnsýslu og þjónustu skiptist fjölgunin nær jafnt milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis en var hlutfallslega minni á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni sem ætti að ríma við áform stjórnvalda um að dreifa starfsemi ríkisins um landið þótt hlutur sveitarfélaganna sé mikill í greininni.
Verslunargeirinn óx hlutfallslega mun meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu á því tímabili sem hér er til skoðunar en mikil fjölgun ferðamanna á efalítið umtalsverðan þátt í því. Vinnuaflsnotkun þriggja atvinnugreina hefur dregist saman eða staðið í stað frá því farsóttin herjaði en engin þeirra varð fyrir miklum áhrifum af henni.
Ef við snúum okkur næst að höfuðborgarsvæðinu einvörðungu þá sýnir Mynd 3 saman breytingu á fjölda starfandi á höfuðborgarsvæðinu frá botninum í apríl 2020 og meðallaun á hvern launþega nú í september. Það sem vekur strax athygli er að sú atvinnugrein sem hefur vaxið mest að mannafla er jafnframt sú sem greiðir lægst laun á hvern starfsmann. Nú má ekki gleyma því að talið hefur verið að í þessari starfsemi sé algengt að starfsmenn séu ekki í fullu starfi og ef til vill eigi það sinn þátt í lágum launum á hvern starfsmann. Gögn Hagstofu um vinnumarkaðsrannsóknir styðja þá tilgátu hins vegar ekki sterklega, vinnutími karla sem störfuðu í gisti- og veitingarekstri var 7% lægri en meðaltal allra karla árið 2022 meðan vinnutími kvenna var 4% lægra en gilti um allar konur. Meðan á faraldrinum stóð munaði hins vegar 15-20%.
Það hlýtur að vekja athygli að í þremur af fimm mestu vaxtargreinum höfuðborgarsvæðisins eru laun fyrir neðan meðaltal allra greina (blá lína).
En hvernig hefur þessi endurkoma svæðisins dreifst milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu? Þarna skiptist niðurstaðan eftir tveimur megináhrifaþáttum: annars vegar hefur íbúum fjölgað en hins vegar hefur atvinnuþátttaka aukist frá botninum í farsóttinni. Mynd 4 er tilraun til að gefa skýringu á því hvert vægi þessara skýringarþátta er. Fjöldi starfandi óx um 13,6% á þessu tímabili á höfuðborgarsvæðinu í heild. Mest var fjölgunin í Garðabæ og svo í Mosfellsbæ en minnst var hún í Hafnarfirði og Seltjarnarnesi. Í Reykjavík má skýra helming af fjölgun starfandi með fjölgun íbúanna og 55-58% af fjölguninni í öllum hinum sveitarfélögunum nema Seltjarnarnesi. Þar er öll aukning starfa til komin af aukinni atvinnuþátttöku íbúanna enda fjölgaði þeim óverulega.
Höfuðborgarsvæðið er eitt samfellt atvinnusvæði og umtalsverður fjöldi þeirra sem þar starfa búa í jaðarsvæðum þess. Jafnframt er nokkur fjöldi sem býr á höfuðborgarsvæðinu eins og það er skilgreint hér við störf á jaðarsvæðunum. Hið sama á við um námsmenn. Þar með er ekki sagt að ekki sé mismunur á atvinnuskiptingu innan svæðisins. Í manntalinu sem gert var fyrir árið 2021 koma fram vísbendingar um mismun í þessum efnum eftir svæðum innan höfuðborgarsvæðisins og þar með er hægt að fullyrða að mismunur í atvinnugreinaskiptingu sé jafnvel meiri innan sveitarfélaganna en milli þeirra.
Íbúum höfuðborgarsvæðisins hefur fjölgað um tæplega 20.000 frá upphafi árs 2020 til 1. nóvember í ár. Á tímabilinu september 2020 til jafnlengdar í ár fjölgaði launþegum um tæplega 16.000. Fjölgun starfandi í hverju sveitarfélagi fylgir nær algerlega fjölgun íbúanna sem ég tel vera vísbendingu um að það er íbúaþróunin sem ræður ferðinni og að íbúar velji sér almennt ekki búsetu eftir því hvar þeir vinna eða öfugt. Á því eru þó undantekningar svo sem í stóriðju. Búsetuþróunin og laun í atvinnugreinum mynda hins vegar veigamestu stoðina undir tekjuþróun sveitarsjóðanna meðan tekjur af atvinnuhúsnæði eru lítilvægari hjá flestum sveitarfélögum og eru nær einu tekjurnar sem þau hafa af þeirri atvinnustarfsemi sem fer fram í sveitarfélaginu. Í framtíðinni kann að verða meira samræmi milli búsetu og vinnustaðar og ein afleiðing þess yrði minna álag á samgöngukerfið.
Athugasemdir