„Hinn endanlegi mælikvarði á hagstjórn og efnahagsmál á Íslandi eru kjör fólksins í landinu. Á flesta mælikvarða eru þau afbragðs góð og hafa vaxið verulega undanfarin ár. Horft er til okkar Íslendinga um margt í þeim efnum.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson, sem var fjármála- og efnahagsráðherra meira og minna í áratug þar til í október og ber meiri ábyrgð á efnahagslegu heilbrigði Íslands en nokkur annar, í færslu á Facebook á miðvikudagskvöld.
Um er að ræða nokkuð þekkt stef. Hér er veisla. Ísland er best í heimi. Þeir sem sjá það ekki eru vitleysingar.
Um tíma var það rökstutt með því að vextir væru svo lágir og verðbólga líka. En svo breyttist það og nú eru vextir á óverðtryggðum íbúðalánum yfir ellefu prósent og verðbólgan samt átta prósent. Um tíma var það rökstutt með því að það væri svo ægilega mikill hagvöxtur á Íslandi. En svo kom í ljós að hagvöxtur á hvern íbúa á árunum 2017 til 2022 var enginn.
Um tíma var mælikvarðinn góð skuldastaða ríkissjóðs, eftir að höftum og neyðarlögum hafði, nauðsynlega, verið beitt til að knýja útlendinga til að gefa eftir mörg hundruð milljarða króna eignir sínar gegn því að fá aðgengi að öðrum eignum sem vanhæfir íslenskir banka-lukkuriddarar – með liðsinni íslenskra stjórnmálamanna – höfðu veðsett þeim en aldrei borgað til baka. En svo fór sú staða að versna og nú liggur fyrir að ríkissjóður verður rekinn í samtals mörg hundruð milljarða króna halla í að minnsta kosti fimm ár í röð. Nú er áætlað að ríkissjóður greiði 118 milljarða króna í vexti af lánum sínum á næsta ári, en bara ef það tekst að selja hlut í Íslandsbanka til að greiða niður hluta af lánunum. Ef það tekst ekki verða vaxtagreiðslurnar enn hærri.
Heimatilbúinn húsnæðisvandi
Um tíma var allt svo gott hér vegna þess að kaupmáttur hafði aukist svakalega, en bara þegar miðað var við réttu tímabilin. Þegar halla fór undan fæti þeirrar möntru var einfaldlega sagt, í tilkynningum á vef stjórnarráðsins, að kaupmáttur væri víst að aukast, ef fólk sleppti því bara að reikna með vaxtakostnaði sínum. Til að setja þá fullyrðingu í einhvers konar samhengi má benda á að heimili landsins borguðu 62 prósent meira í vaxtakostnað vegna lána sinna á fyrri hluta ársins 2023 en þau gerðu árið 2022.
Nú hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna, með vaxtagjöldum, dregist saman fjóra ársfjórðunga í röð. Á öðrum ársfjórðungi dróst kaupmáttur ráðstöfunartekna saman um 5,2 prósent. Það er mesta lækkun innan ársfjórðungs síðan á árinu 2010.
Stóra ástæðan fyrir kaupmáttaraukningunni sem var um tíma á Íslandi er fólgin í skattalækkunum. Samanlögð áhrif skattalækkana og -hækkana frá árinu 2018 og út síðasta ár skilaði ríkissjóði rúmlega 54 milljarða króna tekjutapi, samkvæmt útreikningum BSRB. Þetta er tekjutap án áhrifa skattalækkana vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, sem voru líka verulegar. Ofan á þetta hafa bæst stórtækar tilfærslur á tugum milljarða króna af fé úr ríkissjóði í húsnæðisstuðning sem eykur eftirspurn og gagnast aðallega efstu tekjuhópum landsins, þeim sem þurfa minnst á honum að halda.
„Til að mæta þessu heimatilbúna vandamáli á að liðka fyrir því að breyta skrifstofum í íbúðir“
Til að hella enn meiri eld á eftirspurnarbálið var ferðaþjónustu – sem er gríðarlega mannaflsfrek grein – leyft að vaxa stjórnlaust, og langt umfram getu hagkerfisins, án þess að hún yrði skattlögð í samræmi við neikvæð áhrif hennar á mikilvæga innviði, til dæmis húsnæðismarkað. Það þarf enda að hýsa ferðamennina sem hingað koma og starfsmennina sem vinna í ferðaþjónustu sem þurfti líka að stórum hluta að flytja inn.
Þetta finnst ýmsum stjórnarliðum hið besta mál. Peningarnir nýttust í stóraukna neyslu og keyrðu upp húsnæðisverð. Það hækkaði til að mynda um 61 prósent á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu. Fyrir vikið varð mun erfiðara fyrir marga með lægri tekjur, og lítið eða ekkert bakland til að hjálpa þeim inn á húsnæðismarkað, að komast í eigið húsnæði.
Til að mæta þessu heimatilbúna vandamáli á að liðka fyrir því að breyta skrifstofum í íbúðir. Formaður Samfylkingarinnar orðaði það ágætlega á þingi í gær þegar hún sagði að nú væri uppi sú staða að „íbúar þessa lands búa í ósamþykktu atvinnuhúsnæði á meðan ferðafólk gistir í íbúðarhúsnæði.“
Sárafátækt fólk
Minni tekjur hafa veikt getu hins opinbera til að halda úti sómasamlegu heilbrigðis- og velferðarkerfi og styðja við þá íbúa landsins sem þurfa mest á því að halda. Á undanförnum vikum hafa hrannast upp dæmi sem sýna fram á þetta svart á hvítu.
Þar má nefna nýja könnun Vörðu, sem birt var í vikunni, og sýndi að stór hluti fatlaðs fólks býr við sárafátækt á Íslandi og almenn lífsskilyrði þeirra eru miklu verri en launafólks almennt. Þrír af hverjum fjórum sem tilheyra þeim hópi eiga erfitt með að ná endum saman og ríflega þriðjungur þeirra býr við raunverulega fátækt. Helmingur hópsins metur stöðu sína verri í ár en í fyrra.
Sjö af hverjum tíu geta ekki staðið undir óvæntum 80 þúsund króna kostnaði nema með því að stofna til skulda. Fjórir af hverjum tíu hafa þurft að neita sér um tannlækna- eða sálfræðiþjónustu, aðallega vegna þess að þeir eiga ekki fyrir honum. Alls um 70 prósent svarenda sögðust búa við slæma andlega líðan.
Áhrifin á jafnréttismál hafa líka verið umtalsverð. Dæmi um það er að finna í niðurstöðum könnunar Vörðu sem var birt í lok nóvember. Þar kom meðal annars fram að konur lengi frekar fæðingarorlof en karlar, en fæðingarorlofsgreiðslur hafa verið langt frá því að fylgja verðlagi. Það gerir að verkum að sá maki sem hefur lægri tekjurnar er mun líklegri til að taka lengra orlof og í ljósi þess að launamunur kynjanna er sannarlega enn til staðar í jafnréttisparadísinni Íslandi þá eru það oftar en ekki konur.
Hugsað meira um peninginn en manneskjuna
Heilbrigðiskerfið hefur verið í fjársvelti árum saman. Samhliða hefur, líkt og Heimildin greindi frá á forsíðu í síðustu viku, staðið yfir þögul einkavæðing á heilbrigðiskerfinu með tilfærslu verkefna yfir til einkaaðila. Alls 150 milljarðar króna af opinberu fé fara á hverju ári í gegnum Sjúkratryggingar Íslands til nokkur hundruð fyrirtækja og aðila sem stofnunin er með samninga við.
Þrátt fyrir stóraukna einkavæðingu á heilbrigðisþjónustu hefur eftirlit með henni ekki verið eflt í nálægt því sama magni. Viðmælandi Heimildarinnar sagði að stofnunin Sjúkratryggingar Íslands væri „algjörlega vanbúin til að sinna eftirliti“ og að „sumir aðilar hafa bara verið í áskrift á peningum frá Sjúkratryggingum“.
Í Heimildinni í dag er saga konu sem fór í magaermisaðgerð hjá einkarekna heilbrigðisfyrirtækinu Klíníkinni þremur dögum eftir að hún hafði fengið að vita að hún væri með 3. stigs brjóstakrabbamein. Hún segist ekki hafa hitt neinn starfsmann Klíníkurinnar fyrir aðgerðina og ekki fengið neina eftirmeðferð. Þess í stað þurfti hún að nýta þjónustu ríkisrekna Sjúkrahótelsins og leita til Landspítalans eftir aðgerðina af því hún var svo veik. Hún lýsti upplifun sinni af ferlinu þannig að það sýni „að það er ekki verið að hugsa um manneskjuna heldur peninginn“.
Skorið niður ár eftir ár eftir ár
Um miðjan september 2021 var skýrsla stýrihóps um málefni fanga afhent ráðherrum þeirra málaflokka sem hafa með þau að gera. Í skýrslunni var rakið að kostnaður samfélagsins á hverju ári vegna einstaklinga sem fá refsidóma sé á bilinu 11 til 14 milljarðar króna á verðlagi ársins dagsins í dag. Allt að helmingur þeirra sem luku afplánun höfðu áður hlotið refsidóma.
„Við höfum bara haldið áfram að loka lasið fólk inni í ömurlegum fangelsum í stað þess að hjálpa því“
Hópurinn benti á þá augljósu staðreynd að það felst töluverður samfélagslegur sparnaður í að fækka endurkomum fanga. Beinn fjárhagslegur ávinningur ríkissjóðs gæti til að mynda orðið 31 prósent. Stór hluti fanga, raunar meirihluti þeirra, glímir við margþættan vanda, meðal annars fíknivanda. Geðheilbrigðisþjónusta fyrir fanga og fíknimeðferð er samt sem áður lítil. Í skýrslunni sagði að „sterkar vísbendingar eru um að fjárfesting í meðferðar- og endurhæfingarstefnu leiði til færri endurkoma í fangelsi. Hár einingarkostnaður leiðir til mikils sparnaðar ef endurkomum í fangelsi fækkar, sem einnig leiðir til þess að lífsgæði einstaklinga og aðstandenda sem hlotið hafa fangelsisdóm geta orðið betri og fórnarlömbum glæpa fækkar.“
Síðan hefur lítið sem ekkert gerst. Við höfum bara haldið áfram að loka lasið fólk inni í ömurlegum fangelsum í stað þess að hjálpa því. Það kom skýrt fram í kolsvartri skýrslu Ríkisendurskoðunar sem birt var í síðustu viku um Fangelsismálastofnun og fangelsismál almennt á Íslandi. Stóra niðurstaða hennar er að víða sé pottur brotinn og að íslenskt fullnustukerfi sé ekki rekið „með þeirri skilvirkni og árangri sem lög gera ráð fyrir“. Helstu ástæður megi rekja til þess að dómsmálaráðuneytið hafi ekki mótað heildarstefnu í málaflokknum. Ástand fangelsa er hörmulegt, vinnuaðstaða starfsmanna léleg, áskoranir í mannauðsmálum miklar, aðgengi fanga að heilbrigðisþjónustu ábótavant og afleiðingin sú að dómar fyrnast vegna þess að dæmt fólk kemst ekki að í fangelsum sökum plássleysis. Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, benti á í viðtölum í kjölfarið að þetta ómanneskjulega ástand ætti ekki að koma mikið á óvart. Skorið hafi verið niður til fangelsismála í 21 ár í röð, á sama tíma og refsingar þyngist, föngum fjölgi og hópurinn sem þurfi að þjónusta verði erfiðari.
Börnin sem geta ekki lesið sér til gagns
Þá á eftir að taka inn stöðu menntamála. Nýbirtar niðurstöður PISA-könnunar sýnir að 40 prósent fimmtán ára barna á Íslandi geta ekki lesið sér til gagns. Það hlutfall er vel undir meðaltali OECD. Við blasir að skortur á getu til að geta skilið það sem er lesið, sett það í samhengi og tengt saman grundvallarhugtök, mun bitna á lífsgæðum og tækifærum þessara barna. Það mun líka bitna á samfélaginu öllu, enda geta barna til að túlka og leggja mat á gögn hrakað gríðarlega á sama tíma og upplýsingaóreiða er að stóraukast. Við blasir að þessi hópur mun ekki eiga sömu tækifæri og þau sem ná tökum á lesskilningi. Bein fylgni er milli félagslegra aðstæðna og þess hvort börn nái þeim tökum. Til að bæta gráu ofan á svart þá er forvitni og samkennd á undanhaldi hjá íslensku börnunum. Þetta er staðan þrátt fyrir að um 200 milljarðar króna séu lagðir árlega í menntakerfið.
Greiningar sérfræðinga sýna að ástæðan fyrir hnignandi námsgetu íslenskra nemenda eiga sér rætur í aðgerðum stjórnvalda. Í illskiljanlegri aðalnámskrá, misgóðu námsefni og niðurfellingu samræmdra prófa.
Í umfjöllun Heimildarinnar í dag er haft eftir tveimur dósentum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands að þróunin síðustu tvo áratugi hafi „valdið verulegum áhyggjum og nú er ljóst að menntakerfið þarfnast mikilla umbóta svo rétta megi við þessa slæmu þróun“. Núverandi stjórnarflokkar geta ekki varpað ábyrgð á þeim aðgerðum á nokkurn annan. Fólk úr þeirra röðum hefur stýrt menntamálaráðuneytinu allan þann tíma.
Best fyrir hvern?
Óumdeilt er að kjör þorra fólks á Íslandi eru að rýrna hratt. Óumdeilt er að vöxtur þeirra á síðustu árum skapaði, fyrir flesta, fleiri vandamál en hann leysti. Óumdeilt er að ríkissjóður gæti verið rekinn í plús ef skattalækkanir fyrri ára hefðu verið fjármagnaðar, sem þær voru ekki. Hinn endanlegi dómur um hagstjórn og efnahagsmál á Íslandi, út frá þessum mælikvörðum, hlýtur því að vera falleinkunn.
Samhliða hafa stjórnvöld, ómeðvitað eða viljandi, tekið augun af boltanum og leyft velferðar- og heilbrigðiskerfum landsins að veikjast svo hægt sé að hlífa breiðu bökunum við nauðsynlegum skattahækkunum, færa efri tekjuhópum skattalækkanir og gera fjármagnseigendum kleift að mokgræða á neyðarástandi á húsnæðismarkaði. Ofangreind dæmi um þá hnignun, sem sett voru fram í skýrslum, greiningum og niðurstöðum kannana sem birtar voru á allra síðustu dögum, eru einungis örfá af fjölmörgum.
Hinn endanlegi dómur á hvort Ísland sé best í heimi hlýtur að vera sá að hann sé það fyrir suma. Þá sem kerfið hallar sér að og beygir sig fyrir.
Hinir, og börnin þeirra, eru nær örugglega ekki á sömu skoðun.
Ekki skritið að íhaldið hati Heimildina.