Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Dvergrisafræði

Sam­býl­ið við dvergris­ana get­ur ver­ið erfitt fyr­ir heim­il­is­bók­hald lands­manna.

Dvergrisafræði

Öflugasta leitarvél mannkyns, Google, kannast ekki við hugtakið dvergrisafræði. Svo virðist sem ekkert hafi verið ritað til þessa undir hatti þessara fræða, að minnsta kosti ekki opinberlega. Það væri þó gagnlegt að hafa skilning á þeim til að skilja íslenskt viðskiptalíf. Það einkennist af þessum furðuskepnum, fyrirtækjum sem eru risar á íslenska örmarkaðinum en dvergar í alþjóðlegum samanburði.

Sambýlið við dvergrisana getur verið erfitt fyrir heimilisbókhald landsmanna. Sem risar eru fyrirtækin stór og fá, jafnvel markaðsráðandi. Samkeppni er því takmörkuð á flestum mörkuðum og kostir hennar ná ekki að njóta sín. Sem dvergar eru fyrirtækin lítil og vanmáttug og njóta ekki sömu stærðarhagkvæmni og næst í fjölmennari löndum. Hvort tveggja leiðir til hærra verðlags hérlendis en í nágrannalöndunum, þótt það sé raunar líka hátt þar.

Aðhaldið minna á smærri markaði

Þeim sem fást við að kenna hagfræði á Íslandi er nokkur vandi á höndum vegna þessa. Það er þó vitaskuld ekki svo að það sem Steingrímur Hermannsson kallaði heilög hagfræðilögmál virki ekki á Íslandi. Hann var forsætisráðherra á tímum erfiðrar glímu við efnahagsvanda og leiddist biðin eftir áhrifum efnahagsaðgerða. Hagfræðilögmálin virka í grundvallaratriðum á Íslandi sem annars staðar en aðstæður eru um margt aðrar hér en í stærri hagkerfum. Smæðin og fæðin skiptir máli. Hún hefur áhrif á viðskipti fólks og önnur samskipti.

Í örhagkerfi er síður hægt að treysta því að agi markaðarins veiti stjórnendum fyrirtækja aðhald þegar fáir keppa. Áhugi erlendra aðila á íslenska markaðinum er oft lítill sem þýðir að innlend fyrirtæki þurfa litlar áhyggjur að hafa af samkeppni að utan. Þetta á meðal annars við um nánast allan fjármálageirann, hér starfa hvorki erlendir bankar né tryggingafélög, að minnsta kosti ekki á smásölumarkaði. Skýring þess er væntanlega bæði smæð markaðarins og sjálfstæður gjaldmiðill sem flækir starfsemi hér frá sjónarhóli erlendra fjármálafyrirtækja.

Það er hins vegar engin sérstök ástæða til að ætla að stjórnendur íslenskra fyrirtækja í fákeppni taki ákvarðanir sem eru ólíkar þeim sem teknar eru á erlendum mörkuðum þar sem sambærileg fákeppni ríkir. Það er líka þörf fyrir öflugt samkeppniseftirlit á erlendum fákeppnismörkuðum enda ríkur hvati til að brjóta samkeppnisreglur þar. Þörfin er bara meiri hérlendis vegna þess hve mikið er um fákeppni. Hagfræðilögmálin – þótt þau séu ekki heilög! – virka yfirleitt á svipaðan hátt við sambærilegar aðstæður óháð löndum.

Að fást við flókin kerfi

Samfélög og samskipti manna eru flókin, hvort sem skoðuð eru viðskipti eða aðrir fletir mannlífsins. Það gerir félagsvísindagreinar, eins og hagfræði og viðskiptafræði og allar hinar, spennandi og krefjandi. Það þýðir hins vegar líka að skilningurinn verður aldrei fullkominn og spár ekki heldur.

Spár um þróun efnahagsmála eru oft rangar eða að minnsta kosti með miklum skekkjumörkum. Stundum eru þær vandræðalega skakkar. Nýlegt dæmi er verðbólguskotið sem hófst í fjölda landa árið 2021 flestum að óvörum. Eftir langt tímabil tiltölulega mikils verðstöðugleika var allt í einu komin veruleg verðbólga, jafnvel um og yfir 10 prósent á ári, beggja megin við Atlantshafið og raunar víðar. Hagfræðingar voru hér komnir í svipaða stöðu og jarðvísindafólk, sem líka fæst við mjög flókin kerfi, og getur ekki spáð með mikilli vissu um til dæmis hvar eldgos verða og hvenær eða hve stór og langvinn þau verða.

Seðlabankar brugðust við verðbólguskotinu á svipaðan hátt víðast hvar. Þeir hækkuðu vexti töluvert en þeir höfðu víða verið nálægt sögulegu lágmarki áður. Slíkar aðgerðir eru nánast aldrei vinsælar, enda beinlínis ætlað að þrengja að hagkerfinu og kæla það. Það leikur hins vegar enginn skynsamlegur vafi á því að þær hafa áhrif í þá átt sem stefnt er að. Hækkun stýrivaxta vinnur gegn verðbólgu og lækkun hefur þveröfug áhrif.

Það er ekki umdeild niðurstaða innan hagfræðinnar þótt annað heyrist stundum meðal leikmanna og leiðtoga í stjórnmálum. Það er ekki bundið við Ísland. Erdogan Tyrklandsforseti hefur til dæmis mjög beitt sér fyrir lækkun vaxta sem leið til að berjast við verðbólgu og rekið í kippum þá embættismenn sem flækjast fyrir honum í þeirri baráttu. Afleiðingarnar voru fyrirsjáanlegar út frá hagfræðinni, verðbólgan hefur verið um tífalt meiri í Tyrklandi en í Vestur-Evrópu að jafnaði undanfarin ár.

„Einhvern veginn hefur samt tekist að tryggja einn mesta kaupmátt sem þekkist í heiminum“
Gylfi Magnússon

Vandræðalega rangar spár

Það er annað mál að erfitt er að sjá fyrir nákvæmlega hvernig verðbólga mun þróast og hve háa stýrivexti þurfi og hve lengi til að ná tökum á henni. Það á ekki bara við á Íslandi. Markaðir eru ekki að fullu fyrirsjáanlegir. Það á ekki bara við um þróun almenns verðlags. Það á ekki síður við um þróun eignaverðs, svo sem gengi hlutabréfa eða verð fasteigna. Spár um slíka hluti verða oft vandræðalegar séu þær rifjaðar upp síðar. Það spáði enginn því sumarið 2007 að rúmu ári síðar yrðu bæði íslenski hlutabréfamarkaðurinn og fasteignamarkaðurinn botnfrosnir og krónan komin í skjól gjaldeyrishafta, þótt sumir viðruðu vissulega áhyggjur.

Sveiflan í fjármálakrísunni var snarpari í örhagkerfinu íslenska en í stærri hagkerfum en hagspár voru meira eða minna kolrangar um þróun mála í þeim líka. Það sá heldur enginn fyrir sumarið 2008 að stærstu seðlabankar heims, sá bandaríski og á evrusvæðinu, myndu þurfa að búa til að jafnaði um það bil 1 milljarð dollara annars vegar og 1 milljarð evra hins vegar á dag næstu 15 árin til að halda fjármálakerfi heimsins á floti. Það veit heldur enginn hvort og þá hvernig á að vinda ofan af því.

Áskorun að bæta skilning

Risarnir hafa sem sé ekki svör við öllum spurningum og skilningur á viðfangsefnum þeirra er ófullkominn. Það á því ekki bara við um dvergrisana íslensku. Það er alþjóðleg áskorun að bæta þann skilning og virðist kalla á róttækar breytingar á ýmsum forsendum sem hagfræðingar hafa gefið sér til þessa, meðal annars um skilvirkni markaða og getu þeirra til að stýra sér sjálfir.

Hvað um það. Hér heima þarf að huga að dvergrisunum, hvetja þá til dáða og veita þeim aðhald. Það kallar augljóslega á öflugt samkeppniseftirlit en einnig á opnun markaða eftir því sem kostur er fyrir alþjóðlegri samkeppni. Mörg mikilvæg skref hafa verið tekin í þá átt, sérstaklega aðildin að EES fyrir rúmum þrjátíu árum. Full aðild að ESB væri enn róttækara skref en hún er ekki í sjónmáli. Full aðild myndi meðal annars færa Ísland inn í tollabandalag ESB ríkja sem myndi greiða verulega fyrir flæði vara til og frá landinu. Upptaka evrunnar myndi líka hafa veruleg áhrif en hefði bæði skýra kosti og galla. Umræðan um upptöku evrunnar hefur talsvert snúist um væntingar um lægri vexti, sem gæti gengið eftir, en sparnaðurinn af því fyrir þjóðarbúið í heild yrði lítill ef nokkur því að Íslendingar greiða sjálfum sér en ekki útlendingum vexti í krónum. Fleira hangir á spýtunni en ekki verður reynt að rekja það hér.

Dæmisögur af íslenskum fyrirtækjum

Þegar menntakerfið býr fólk undir störf í íslensku atvinnulífi þarf ef vel á að vera bæði að kenna því á þær lausnir og tækni sem best þykir á alþjóðavísu og að starfa við íslenskar aðstæður. Það þarf líka ákveðna hógværð í kennsluna, það er að viðurkenna að þekkingin á gangverki viðskiptalífsins er ófullkomin.

Þetta er ekki hægðarleikur. Í háskólum er námsefni í viðskiptafræði að mestu erlent, oftast bandarískt, og tekur lítið ef nokkuð mið af vanda þess og vegsemd að vera Íslendingur sem lifir og hrærist í örhagkerfi með dvergrisum. Lítið er af íslensku kennsluefni. Þó er eitthvað til. Má nefna að undanfarin ár hafa verið ritaðar allmargar dæmisögur eða það sem enskumælandi kalla case um viðfangsefni sem íslensk fyrirtæki hafa glímt við. Dæmisögurnar um íslensku fyrirtækin – sem líka eru stundum kallaðar raundæmi eða jafnvel klípusögur, sem er skemmtilegt hugtak – eru mjög góð viðbót við hafsjó af erlendum dæmisögum sem eru í boði. Þröstur Olaf Sigurjónsson prófessor hefur verið afar ötull við ritun slíkra sagna. Áhugavert er að dæmisögurnar eru oftast ritaðar á ensku með erlendan markað í huga en nýtast afskaplega vel íslenskum nemendum.

Kennslubækur fyrir íslenskan markað þekkjast líka. Í fyrra kom út vönduð kennslubók í rekstrarhagfræði á íslensku eftir Ágúst Einarsson prófessor og Axel Hall lektor. Hún er einkum skrifuð með nemendur í grunnnámi í huga. Gylfi Zoëga prófessor hefur líka nýlega gefið út stórskemmtilega bók um hagfræði sem ætluð er almenningi. Sjálfur er ég nýbúinn að gefa út kennslubók á íslensku í rekstrarhagfræði sem einkum er ætluð nemendum í MBA námi, þótt hún ætti að geta nýst öðrum.

Sú bók, Rekstur og hagfræði, er skrifuð til að endurspegla íslenskt viðskiptalíf fremur en til dæmis bandarískt. Það kallar ekki bara á fjölda íslenskra dæma heldur einnig mikla áherslu á samkeppnismál og -eftirlit og leikjafræði, sem nýtist til að greina ákvarðanir í fákeppni. Um leið þarf þó að miðla lærdómi sem hægt er að draga af erlendum dæmum og vitaskuld margs konar þekkingu sem rekja má til erlendra rannsókna.

„Dvergrisarnir og fákeppnin eru að sönnu dragbítar og saga gjaldmiðilsins sjálfstæða er þyrnum stráð“
Gylfi Magnússon

Alþjóða- og heimageirinn

Þótt erlend samkeppni sé mjög takmörkuð, stundum engin, í stórum hluta íslensks viðskiptalífs þá er sá hluti sem á í harðri alþjóðlegri samkeppni einnig stór og raunar vaxandi. Sá hluti, sem við getum kallað alþjóðageirann, er ekki síður mikilvægur en heimageirinn. Þar eru aðstæður töluvert frábrugðnar, smæð heimamarkaðarins skiptir litlu, jafnvel engu, og fákeppni er miklu síður hamlandi fyrir skilvirkni og framþróun.

Lífskjör á Íslandi byggja á hvort tveggja, alþjóðageiranum og heimageiranum, og bæði opinbera geiranum og einkageiranum, ef út í það er farið. Þeir sem mennta fólk í viðskiptafræði hérlendis verða, ef vel á að vera, að búa nemendur vel undir störf hvar sem þeir lenda í þessari geiraskiptingu. Fyrir 85 árum, þegar kennsla í viðskiptafræði á háskólastigi hófst hérlendis, í hinum skammlífa Viðskiptaháskóla Íslands, voru rökin fyrir því að hefja kennsluna ekki síst að búa Íslendinga við að taka við utanríkisþjónustu landsins af Dönum. Viðskiptaháskólinn rann inn í Háskóla Íslands en allt frá þessum upphafsárum hefur kennslan miðast við að búa nemendur undir störf hvort heldur á heima- eða alþjóðamarkaði og bæði í einkageira og opinbera geiranum.

Það hefur án efa skipt máli fyrir lífskjarasókn Íslendinga. Þrátt fyrir allt eru lífskjör hér afar góð í öllum alþjóðlegum samanburði. Dvergrisarnir og fákeppnin eru að sönnu dragbítar og saga gjaldmiðilsins sjálfstæða er þyrnum stráð. Einhvern veginn hefur samt tekist að tryggja Íslendingum einn mesta kaupmátt sem þekkist í heiminum og tiltölulega mikinn jöfnuð. Margt hlýtur því að vera – og er – vel gert í íslensku viðskiptalífi.

Skemmtilegra samfélag

Það er þó vitaskuld alltaf hægt að gera betur. Íslenska hagkerfið hefur í gegnum aldirnar reitt sig mjög á nýtingu náttúruauðlinda. Náttúruauðlindir Íslands eru allnokkrar en ekkert meiri en gengur og gerist á hvern fermetra landsins. Það búa bara svo fáir á Íslandi að náttúruauðlindir á mann eru meiri hér en víðast hvar. Þær munum við nýta áfram, vonandi skynsamlega.

Þróun hagkerfisins og þar með lífskjara mun þó ráðast miklu frekar af því hvernig okkur Íslendingum tekst að búa til og tileinka okkur þekkingu. Við þurfum að hvetja dvergrisana okkar til dáða og veita þeim stíft aðhald, með samkeppni bæði innanlands og að utan. Það kallar á skilning á eðli dvergrisanna, kostum þeirra og göllum. Þeir mega ekki fá að leika lausum hala og móta leikreglurnar. Jafnframt vinnum við vonandi fleiri og fjölbreyttari sigra á alþjóðamörkuðum. Það krefst mikilla fjárfestinga í mannauði, rannsóknum og þróun. Það krefst þess líka að samfélagið sé opið, ekki bara fyrir flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns, heldur líka fyrir nýsköpun og flæði hugmynda. Slíkt samfélag er ekki bara mikilvægt fyrir lífskjör og hagvöxt – það er líka miklu skemmtilegra en staðnað, lokað og læst samfélag!


Höfundur er prófessor í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og forseti deildarinnar. Bók hans, Rekstur og hagfræði, kom út nú í nóvember og fæst á prenti í Bóksölu stúdenta og sem rafbók hjá Heimkaupum og Amazon.

 

 

Kjósa
14
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • TM
    Tómas Maríuson skrifaði
    Það er gaman að lesa vel skrifaðar fræðigreinar fyrir almenning og á höfundurinn allar mínar þakkir skilið.
    Ég er þó í fáfræði minni dálítið hissa að verðbólguskotið sem hófst 2021 hafi komið hagfræðingum á óvart. Í Covid-faraldrinum gerðist þó tvennt: framleiðnin raskaðist og minnkaði verulega en samtímis helltu ríkisstjórnir auknu fjármagni út í hagkerfin. Ég hef alltaf haldið að slíkar aðstæður væru uppáskrift á verðbólgu.
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Öld „kellingabókanna“
5
Greining

Öld „kell­inga­bók­anna“

„Síð­asta ára­tug­inn hafa bæk­ur nokk­urra kvenna sem fara á til­finn­inga­legt dýpi sem lít­ið hef­ur ver­ið kann­að hér áð­ur flot­ið upp á yf­ir­borð­ið,“ skrif­ar Sal­vör Gull­brá Þór­ar­ins­dótt­ir og nefn­ir að í ár eigi það sér­stak­lega við um bæk­ur Guð­rún­ar Evu og Evu Rún­ar: Í skugga trjánna og Eldri kon­ur. Hún seg­ir skáld­kon­urn­ar tvær fara á dýpt­ina inn í sjálf­ar sig, al­gjör­lega óhrædd­ar við að vera gagn­rýn­ar á það sem þær sjá.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
1
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
Rak 90 prósent starfsfólks fyrir að skrópa á morgunfund
3
Fréttir

Rak 90 pró­sent starfs­fólks fyr­ir að skrópa á morg­un­fund

Bald­vin Odds­son, ung­ur ís­lensk­ur at­hafna­mað­ur, rat­aði ný­ver­ið í frétt­ir í Banda­ríkj­un­um fyr­ir að reka 99 starfs­menn úr sprota­fyr­ir­tæki sem hann stofn­aði og rek­ur. Fram­kvæmda­stjór­inn mun hafa ver­ið ósátt­ur við slaka mæt­ingu á morg­un­fund, þar sem að­eins ell­efu af 110 starfs­mönn­um meld­uðu sig, og til­kynnti þeim sem voru fjar­ver­andi að þau væru rek­in.
Ísrael og Palestína: „Stjórnvöld sem líkja má við mafíur“
6
Viðtal

Ísra­el og Palestína: „Stjórn­völd sem líkja má við mafíur“

Dor­rit Moussai­eff er með mörg járn í eld­in­um. Hún ferð­ast víða um heim vegna starfs síns og eig­in­manns­ins, Ól­afs Ragn­ars Gríms­son­ar, þekk­ir fólk frá öll­um heims­horn­um og hef­ur ákveðna sýn á við­skipta­líf­inu og heims­mál­un­um. Hún er heims­kona sem hef­ur í ára­tugi ver­ið áber­andi í við­skipta­líf­inu í Englandi. Þessi heims­kona og fyrr­ver­andi for­setafrú Ís­lands er elsku­leg og elsk­ar klón­aða hund­inn sinn, Sam­son, af öllu hjarta.

Mest lesið í mánuðinum

Við erum ekkert „trailer trash“
1
VettvangurHjólhýsabyggðin

Við er­um ekk­ert „trailer trash“

Lilja Kar­en varð ólétt eft­ir gla­sa­frjóvg­un þeg­ar hún bjó á tjald­svæð­inu í Laug­ar­daln­um og á dög­un­um fagn­aði dótt­ir henn­ar árs af­mæli. Af­mæl­is­veisl­an var hald­in í hjól­hýsi litlu fjöl­skyld­unn­ar á Sæv­ar­höfða, þar sem þær mæðg­ur búa ásamt hinni mömm­unni, Frið­meyju Helgu. „Okk­ar til­finn­ing er að það hafi ver­ið leit­að að ljót­asta staðn­um fyr­ir okk­ur,“ seg­ir Frið­mey, og á þar við svæð­ið sem Reykja­vík­ur­borg fann fyr­ir hjól­hýsa­byggð­ina.
Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
2
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
„Þetta er eins og að búa í einbýlishúsi“
4
VettvangurHjólhýsabyggðin

„Þetta er eins og að búa í ein­býl­is­húsi“

Berg­þóra Páls­dótt­ir, Bebba, hef­ur un­un af því að fá gesti til sín í hjól­hýs­ið og finnst þetta svo­lít­ið eins og að búa í ein­býl­is­húsi. Barna­börn­in koma líka í heim­sókn en þau geta ekki far­ið út að leika sér í hjól­hýsa­byggð­inni í Sæv­ar­höfð­an­um: „Þau skilja ekki af hverju við vor­um rek­in úr Laug­ar­daln­um og sett á þenn­an ógeðs­lega stað.“
Tilnefnd sem framúrskarandi ungur Íslendingur en verður send úr landi
5
Fréttir

Til­nefnd sem framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur en verð­ur send úr landi

Til stend­ur að hin sýr­lenska Rima Charaf Eddine Nasr verði send úr landi. Hún var á dög­un­um ein af tíu sem til­nefnd voru til verð­laun­anna Framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur í ár. Til­nefn­ing­una fékk hún fyr­ir sjálf­boða­liða­störf sem hún hef­ur unn­ið með börn­um. Hér á hún for­eldra og systkini en ein­ung­is á að vísa Rimu og syst­ur henn­ar úr landi.
Ný ógn við haförninn rís á Íslandi
6
Vindorkumál

Ný ógn við haförn­inn rís á Ís­landi

Hafern­ir falla blóð­ug­ir og vængja­laus­ir til jarð­ar í vindorku­ver­um Nor­egs sem mörg hver voru reist í og við bú­svæði þeirra og helstu flug­leið­ir. Hætt­an var þekkt áð­ur en ver­in risu og nú súpa Norð­menn seyð­ið af því. Sag­an gæti end­ur­tek­ið sig á Ís­landi því mörg þeirra fjöru­tíu vindorku­vera sem áform­að er að reisa hér yrðu á slóð­um hafarna. Þess­ara stór­vöxnu rán­fugla sem ómæld vinna hef­ur far­ið í að vernda í heila öld.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.

Mest lesið undanfarið ár