Skólaslit 2
Hressandi uppvakningasplatter fyrir krakka með húmor, spennu og rotnandi holdi.
Eins og svo margt sem höfundurinn og leikarinn Ævar Þór Benediktsson tekur sér fyrir hendur er nýjasta bók hans, Skólaslit 2, hluti af stærri heild. Hrollvekjurnar í bókaflokki þessum birtast fyrst á netinu sem framhaldssögur og tilheyra verkefni sem kennsluráðgjafar í Reykjanesbæ höfðu frumkvæði að. Markmiðið er að búa til óvenjulega og hvetjandi lestrarupplifun sem er sérstaklega ætlað að ná til drengja (þótt verkefnið taki til allra nemenda), að ræða um og við stráka sem lesendur á jákvæðan máta. Af umfjöllun um verkefnið má sjá að kennarar og nemendur hafa tekið Skólaslitum fegins höndum og unnið með sögurnar á afar skapandi hátt. Ævar Þór hefur unnið ötullega að lestrarhvatningu um árabil, talað til ólíkra hópa og beitt ýmsum aðferðum en ávallt með smitandi sagnagleði í fyrirrúmi. Skólaslit 2: Dauð viðvörun er nú komin út í bókarformi – lengri og ógeðslegri en vefútgáfan, eins og höfundur útskýrir – en vert að geta þess að Skólaslit 3: Öskurdagur birtist í köflum á heimasíðu verkefnisins í október, bæði til lestrar og hlustunar.
Skólaslit 2 er sjálfstætt framhald fyrstu sögunnar og hreinræktaður uppvakningasplatter í bókarformi. Við upphaf sögunnar kemst lesandinn að því að heil unglingadeild úr skóla á Reykjanesi er horfin eftir skólaferðalag. Að lögreglustöð á svæðinu skjögrar blóðugur unglingur og stynur upp úr sér að þau séu öll dáin. Þannig hefst spennandi frásögn sem er sviðsett samkvæmt helstu formúlum hryllingsmynda og -bókmennta, án þess að formúlunálgunin sé ókostur enda markhópurinn lesendur sem hafa haft styttri kynni af slíkum aðferðum en fullorðnir lesendur. Við kynnumst hópi unglinga (og einum ógæfusömum kennara) sem verða hetjur sögunnar, aukapersónur dúkka upp og drepast með dramatískum hætti eins og vera ber, veðrið og náttúruöflin eiga stóran þátt í að magna upp andrúmsloftið og með reglulegu millibili verða óvæntar sviptingar. Illi krafturinn sem ungmennin berjast við kallar fram hugrenningatengsl við Stranger Things sem er auðvitað annað dæmi um skáldskap þar sem þekktum hryllingsstefjum er beitt af sköpunargleði.
Stundum hefði mátt lofta betur um frásögnina, spennuþrungin framvindan er keyrð hratt áfram eftir að óhugnaðurinn skellur á fyrir alvöru og þeir sem gleypa í sig söguna í einu bretti eins og sú sem hér skrifar gætu þurft að draga andann djúpt nokkrum sinnum og líta upp úr bókinni til að kaflarnir renni ekki saman í öllum hraðanum. Keyrslan er þó brotin upp með persónulegum sögum aðalpersónanna sem eru dregnar næmum dráttum og minna lesandann á að ekki er allt sem sýnist og að öll eigum við okkur fleiri hliðar en þær sem við kjósum að sýna út á við. Eins og ein persónan segir þá erum við öll svo margt.
Ævar gengur skemmtilega langt í hryllingnum og það er nóg af blóði, gori, slími og springandi holdi í bókinni. Ari H. G. Yates slær hárréttan tón í myndum sínum sem undirstrika húmorinn í frásögninni og eru hvorki of hrollvekjandi né of barnalegar.
Það er óþarfi að hafa lesið fyrstu bókina í flokknum til að hafa gaman af Skólaslitum 2 en þær fléttast þó saman á hátt sem undirbyggir um leið þriðju og síðustu söguna. Skólaslitabækurnar bera stílræn merki Ævars sem höfundar en eru þó hressandi öðruvísi en flest sem skrifað er fyrir krakka á íslensku, og til þess er leikurinn gerður.
Athugasemdir