Einn af hverjum þremur landsmönnum myndu kjósa ríkisstjórnarflokkanna þrjá ef kosið yrði í dag, samkvæmt nýjustu könnun Maskínu. Samanlagt hafa þeir tapað 21 prósentustigi af fylgi það sem af er kjörtímabili.
Fylgi Vinstri grænna er nú komið fyrir neðan sex prósent í fyrsta sinn í mælingum fyrirtækisins, en það mælist 5,9 prósent, sem er rúmlega helmingi minna fylgi en flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Slík niðurstaða myndi þýða að flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra væri minnstur þeirra átta flokka sem eiga fulltrúa á þingi. Vikmörk í könnuninni eru 1,1 prósent. Það þýðir að ef fylgi Vinstri grænna yrði við neðri vikmörk myndi flokkurinn sennilega detta út af Alþingi.

Sjálfstæðisflokkurinn er líka að mælast með sögulega lágt fylgi, eða 17,7 prósent. Flokkurinn hefur aldrei fengið minna en 23,7 prósent fylgi í kosningum í sögu sinni og því væri um sögulegt afhroð að ræða ef þetta yrði niðurstaðan. Hann hefur tapað 6,7 prósentustigum frá kosningunum sem fram fóru haustið 2021.
Mestu fylgi hefur Framsóknarflokkurinn, sem fékk 17,3 prósent atkvæða í kosningasigrinum fyrir rúmum tveimur árum, tapað það sem af er kjörtímabili. Hann mælist nú með 9,8 prósent fylgi, sem er 7,5 prósentustigum minna en í síðustu kosningum. Stjórnarflokkarnir gætu ekki reiknað með að fá meira en 21 eða 22 þingmenn að óbreyttu, en þeir eru með 38 í dag.
Allir nema einn í andstöðu bætt við sig
Samfylkingin mælist nú með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur samanlagt, eða 27,8 prósent. Flokkurinn hefur næstum þrefaldað fylgi sitt í könnunum Maskínu frá kosningunum haustið 2021.
Hann er þó ekki eini stjórnarandstöðuflokkurinn sem hefur bætt við sig fylgi, þótt fylgisaukning Samfylkingarinnar á kjörtímabilinu, alls 17,9 prósentustig, sé sér á báti. Næst mestu hefur Miðflokkurinn bætt við sig, eða 2,8 prósentustigum, sem skilar flokki Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar 8,2 prósent fylgi.
Píratar mælast nú með 10,8 prósent stuðning, eða 2,2 prósentustigum meira en þeir fengu síðast, og Viðreisn hefur bætt við sig einu prósentustigi og mælast með 9,3 prósent fylgi.
Eini stjórnarandstöðuflokkurinn sem hefur tapað fylgi á kjörtímabilinu er Flokkur fólksins, sem mælist nú með 6,1 prósent stuðning, eða 1,7 prósentustigi minni en hann fékk í kosningunum 2021.
Sósíalistaflokkur Íslands virðist fastur við kjörfylgi sitt og mælist með 4,3 prósent fylgi, sem myndi ekki duga honum inn á þing.
Nokkrir kostir í stöðunni
Ef nýjasta könnun Maskínu yrði niðurstaða kosninga myndi ekki vera hægt að mynda tveggja flokka stjórn með meirihluta atkvæða á bakvið sig. Þá liggur fyrir að ómögulegt væri að mynda þriggja flokka stjórn án aðkomu Samfylkingarinnar.
Ef gengið er út frá því að nær útilokað er að Samfylkingin myndi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki miðað við yfirlýsingar forystumanna hennar, þá gæti sennilega myndað þriggja flokka stjórn með minnihluta atkvæða á bakvið sig í ýmsum mynstrum. Mögulegt væri að gera slíkt með tveimur af þremur eftirfarandi flokkum: Pírötum, Framsókn eða Viðreisn, sem allir mælast með svipað fylgi. Slík stjórn væri þó sennilega með minnsta mögulega meirihluta á þingi. Því er ekki útilokað að sögulega afar óvenjuleg fjögurra flokka stjórn sé í kortunum eftir næstu kosningar að óbreyttu.
Könnunin fór fram daganna 12. til 18. október annars vegar og 20. til 24. október hins vegar. Alls tók 1.935 svarendur afstöðu til flokks.
Athugasemdir