Tæplega 30 prósent landsmanna bera fremur eða mikið traust til fjölmiðla. Tæp 28 prósent bera slíkt traust til stjórnvalda. Það er litlu meira en þátttakendur í nýrri traustskönnun Fjölmiðlanefndar hafa til ókunnugs fólks.
Um helmingur þátttakenda könnuninni var annað hvort nokkuð eða mjög sammála því að fjölmiðlarnir RÚV, Kjarninn, Vísir, Stöð2/Bylgjan, Stundin og Fréttablaðið væru óháðir pólitískum, efnahagslegum eða öðrum sérhagsmunum þegar þeir fjalla um samfélagið og umheiminn.
Tæpur fjórðungur var sammála því að Hringbraut, Viðskiptablaðið, DV, og Morgunblaðið/Mbl.is/K100 væru óháðir í umfjöllun sinni. Fæstir voru sammála því að Mannlíf, Samstöðin, Frettin.is og Útvarp Saga væru óháðir.
Nokkuð önnur mynd blasir við þegar spurt var um hvert fólk færi í leit að fréttum. Vísir.is (79,3%), Morgunblaðið/Mbl.is/K100 (67,7%) og Rúv/Rás1/Rás2/Ruv.is (64,8%) voru þeir fjölmiðlar sem flestir þátttakendur sögðust nota til að nálgast fréttir.
Flestir (32,4%) telja ókeypis fréttamiðla á netinu mikilvægustu fréttamiðlana. 23,4 prósent telja sjónvarpið mikilvægasta fréttamiðilinn og 24 prósent útvarp. Dagblöð voru mikilvægustu fréttamiðlarnir í hugum 3,3 prósenta þátttakenda. Töluverð sveifla er milli aldurshópa í þessu sambandi.
Margir nota samfélagsmiðla en fáir treysta þeim
Á eftir fréttamiðlum á netinu notuðu næstflestir, eða 74,9%, samfélagsmiðil til að nálgast fréttir. Þó töldu aðeins 5,6% samfélagsmiðla vera meðal mikilvægustu fréttamiðla. Yngsti aldurshópurinn (18-29 ára) skar sig þar úr þar sem 83,0% höfðu notað samfélagsmiðla til að nálgast fréttir deginum áður en könnunin var gerð á meðan meðaltalið í öðrum hópum var um 72%.
Þegar litið er til notkunar yfir lengra tímabil kemur í ljós að 86,4% höfðu notað samfélagsmiðil á síðastliðnum 30 dögum til að nálgast fréttir. Í yngsta aldurshópnum (18-29 ára) var hlutfallið hæst eða 93,2%.
Skýrslan sem kom út í morgun er einn hluti rannsóknar Maskínu fyrir Fjölmiðlanefnd sem lögð var fyrir í nóvember í fyrra. Hluti spurninganna sem lagðar voru fyrir eru endurteknar frá fyrri rannsóknum í febrúar og mars árið 2021. Frá því að könnunin var gerð hefur Fréttablaðið lagt upp laupana og Kjarninn og Stundin sameinast í fjölmiðilinn Heimildina.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá. Könnunin fór fram á netinu og svarendur voru 983 talsins. Svarendur eru af öllu landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Við úrvinnslu voru gögnin vegin til samræmis við tölur Hagstofunnar þannig að hópurinn sem svarar endurspeglar þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu.
Þegar þátttakendur voru spurðir hversu mikið eða lítið traust þeir bæru til fjölmiðla á Íslandi var tæplega þriðjungur, eða 29,6%, sem sagðist bera fremur eða mjög mikið traust til þeirra. Þá sögðust 50,7% treysta þeim í meðallagi mikið, 12,8% fremur lítið og 6,9% mjög lítið. Munur var á afstöðu þátttakenda eftir kyni en fleiri konur (34%) sögðust bera annað hvort fremur mikið eða mjög mikið traust til fjölmiðla en karlar (25,6%).
Alls sögðust 37,5% þátttakenda bera annað hvort fremur lítið eða mjög lítið traust til stjórnvalda á Íslandi. Þá sögðust 34,7% bera í meðallagi mikið traust til þeirra og 27,8% annað hvort fremur mikið eða mjög mikið. Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar með tilliti til tekna kemur í ljós að hlutfall þeirra sem bera annað hvort fremur mikið eða mjög mikið traust til stjórnvalda hækkar eftir því sem tekjur verða hærri.
Kjósendur ríkisstjórnarflokkanna þriggja báru langtum meira traust til stjórnvalda en kjósendur annarra stjórnmálaflokka.
Traust til dómstóla á Íslandi meira á meðal karla
Rúmlega þriðjungur þátttakenda sagðist bera annað hvort fremur mikið eða mjög mikið traust til dómstóla á Íslandi. Þá voru 39,1% sem sögðust bera í meðallagi mikið traust til þeirra og 27,7% annað hvort fremur lítið eða mjög lítið traust. Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar með tilliti til aldurs kemur í ljós að hlutfall þeirra sem sögðust bera annað hvort fremur mikið eða mjög mikið traust til dómstóla á Íslandi var hæst í aldurshópnum 50-59 ára en lægst í yngsta aldurshópnum 18-29 ára. Munur var á afstöðu þátttakenda eftir kyni en fleiri karlar (37,2%) sögðust bera annað hvort fremur mikið eða mjög mikið traust til dómstóla á Íslandi en konur (28,9%).
Konur bera minna traust til fólks sem þær þekkja ekki
Alls sögðust 23,8% þátttakenda bera annað hvort fremur mikið eða mjög mikið traust til fólks sem þeir þekkja ekki á Íslandi. Þá var rúmlega helmingur sem sagðist bera í meðallagi mikið traust og 21% annað hvort fremur lítið eða mjög lítið.
Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar með tilliti til kyns þátttakenda kemur í ljós að konur eru síður líklegar til að bera traust til fólks sem þær þekkja ekki en karlar. Einnig má sjá fylgni á milli menntunar og trausts til ókunnugs fólks en því hærra menntunarstig sem þátttakendur höfðu þeim mun meira traust báru þeir til fólks sem þeir þekkja ekki.
Mikill meirihluti þátttakenda, eða 75,1%, sagðist finna til annað hvort fremur mikils eða mjög mikils öryggis á almannafæri. 80,6% karla sögðust finna til annað hvort fremur mikils eða mjög mikils öryggis á almannafæri samanborið við 69,1% kvenna.
Erfiðara að fylgjast með fréttum
Alls voru 18,7 prósent þátttakenda fremur eða mjög sammála fullyrðingunni „mér finnst erfitt að fylgjast með því sem er í fréttum“ sem er fjölgun frá árinu 2021 þegar hlutfallið mældist 12,7%. Tæplega þriðjungur var í meðallagi sammála fullyrðingunni en árið á undan var hlutfallið 19,7%.
Fleiri halda sér upplýstum án þess að fylgjast með fréttum. Rúmlega helmingur aðspurðra var annað hvort fremur eða mjög sammála fullyrðingunni „ég held mér vel upplýstri/upplýstu(m) þótt ég fylgist ekki með fréttum“. Er það hækkun frá árinu 2021 þegar hlutfallið var 43,7%. Yngri aldurshópar voru líklegri til að taka þá afstöðu heldur en þeir eldri.
Athugasemdir