Við Íslendingar vitum það. En nú veit Evrópa það öll: Loftgæði eru hvergi betri í álfunni en á Íslandi. Þetta má lesa úr niðurstöðum rannsókna sem þýski ríkisfjölmiðillinn Deutsche Welle (DW) og samtök blaðamanna sem einbeita sér að gagnaúrvinnslu unnu í sameiningu, m.a. út frá gögnum úr gervitunglum.
Fréttapunkturinn sem DW leggur áherslu á er sá að um 98 prósent allra Evrópubúa bjuggu í fyrra á svæðum þar sem svifryk er yfir viðmiðunarmörkum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Í rannsókninni var sjónum beint að fínum ögnum í andrúmsloftinu, hinu alræmda svifryki, sem sýnt hefur verið fram á að valdi sjúkdómum í öndunarfærum og æðakerfi og stytti lífslíkur fólks.
„Margt fólk veikist vegna lélegra loftgæða,“ segir Mark Nieuwenhuijsen, alþjóðlegu lýðheilsustofnunarinnar ISGlobal, við DW. „Og við vitum að með því að bæta loftgæði þá drögum við úr veikindum.“
Hið fína ryk, sem á m.a. uppruna sinn í allra handa iðnaði, sliti á götum og úr útblæstri, telst orðið heilsuspillandi ef það fer yfir 5 míkrógrömm í hverjum rúmmetra andrúmslofts.
Landslag hefur mikil áhrif á útbreiðslu svifryks því það safnast saman í dældum og dölum þegar engir vindar blása því á haf út. Þannig var ástandið í Evrópu verst í miðhluta álfunnar, sérstaklega í Po-dalnum á Ítalíu sem og í stórborgum á borð við Aþenu, Barselóna og París.
Betra loft í Evrópu en víða
Rannsókn DW var birt í enskri útgáfu á vef blaðsins í gær og samkvæmt henni náði árlegt magn svifryks á menguðustu svæðum Evrópu um 25 míkrógrömmum á rúmmetra.
Þrátt fyrir þessar niðurstöður eru loftgæði í evrópskum borgum almennt mun betri en víða í veröldinni. Í Nýju-Delí á Indlandi og fleiri borgum þar í landi getur hlutfall svifryks farið í allt að 100 míkrógrömm á rúmmetra.
Engu að síður getur það spillt heilsu fólks að búa við viðvarandi svifryksmengun líkt og rannsókn DW sýnir að eigi sér stað á nokkrum svæðum í Evrópu.
Evrópusambandið hyggur á nýjar reglur um loftgæði og samkvæmt drögum að þeim mega ekki mælast meira en 10 míkrógrömm svifryksagna á hvern rúmmetra andrúmsloftsins á ársgrundvelli. Það er töluvert yfir þeim viðmiðunarmörkum (6 míkrógrömm á m3) sem WHO hefur sett.
Engu að síður yrðu loftgæðareglur þrengdar því í dag eru viðmiðunarmörk innan Evrópusambandsins 20 míkrógrömm á rúmmetra eða fjórum sinnum meira en viðmið WHO kveða á um. Gagnrýnt hefur verið að Evrópuþingið ætli ekki að ganga lengra og er það sakað um að einblína á efnahagsleg áhrif þrengri viðmiðana fremur en á heilsu borgaranna.
Ítalía í mengunarskýi
Í byrjun árs var svifryksmengun á Ítalíu enn meiri en í fyrra. Verst var ástandið í borgunum Mílanó og Veróna þar sem svifryksagnirnar fóru yfir 75 míkrógrömm á hvern rúmmetra. Landafræðin skýrir ástæðurnar. Þessar borgir eru umkringdar fjöllum og í þeim er mikill umferðarþungi og fjölbreyttur iðnaður. Þá var veturinn kaldur og kynding með jarðefnaeldsneyti tíðari en oft áður.
Talið er að þúsundir manna deyi fyrir aldur fram úr sjúkdómum sem tengjast mengun andrúmsloftsins. DW rifjar t.d. upp rannsókn sem birt var í læknatímaritinu Lancet árið 2015 þar sem sýnt var fram á að fækka mætti dauðsföllum í Mílanó um 10 prósent með bættum loftgæðum.
Loftgæði á Ítalíu hafa ekki batnað síðan þá heldur versnað. Hins vegar, segir í samantekt DW, hafa loftgæði batnað í Póllandi – eða öllu heldur skánað. Þau eru ennþá með því versta sem finnst í Evrópu en frá árinu 2018 hafa þau breyst hægt og bítandi til hins betra. Skýringuna á þessum umskiptum má rekja til ákvarðana stjórnvalda um að fækka kolaofnum sem notaðir eru til kyndingar á heimilum fólks. Því verkefni er hvergi nærri lokið.
Athugasemdir