Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Mun ekki sakna illmælgi og hótana

Helga Vala Helga­dótt­ir, þing­mað­ur Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, er hætt á þingi eft­ir sex ára þing­setu og ætl­ar að helga sig lög­mennsku að nýju. Hún mun ekki sakna ill­mælg­inn­ar sem fylg­ir þing­störf­un­um og von­ast til að vera laus við hót­an­ir.

Mun ekki sakna illmælgi og hótana
Inn í frelsið Helga Vala talar um að fara í frelsið, með því að hætta á þingi. Mynd: Heiða Helgadóttir

„Þeir hafa nú bara verið ótrúlega skemmtilegir,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, um dagana sex sem liðnir eru frá því að hún greindi frá því í viðtali við Morgunblaðið að hún ætli að hætta á þingi eftir sex ára þingsetu. 

„Ég átti nú ekki von á svona góðum og hlýjum strokum eins og ég fékk á laugardaginn. Ég bjóst alveg eins við því að ég fengi yfir mig einhverja holskeflu af neikvæðni. En ég bara vissi ekki að fólki þætti svona vænt um mín störf. Það kom þægilega á óvart hvað fólk var bara eitthvað fallegt við mig,“ segir Helga Vala í samtali við Heimildina. 

Hún hafnar því að deilur við Kristrúnu Frostadóttur, sem tók við formennsku í Samfylkingunni fyrir tæpu ári síðan, tengist brotthvarfi hennar af þingi. „Það er svo leiðinlegt að þurfa alltaf að svara þessu, það er eins og það geti enginn hætt á þingi nema það búi einhver leiðindi á bakvið. Þingstörfin eru bæði mjög skemmtileg en geta verið mjög skrýtin og alls konar.“ 

Ástleysi í stjórnarráðinu 

Síðasti þingvetur var mattur að sögn Helgu Völu. „Mér fannst bara aðeins minna gaman, þar var lítil stemning í þinginu. Og í pólitíkinni almennt. Það er svona ástleysi í stjórnarráðinu og það smitast yfir allt.“ 

Hún ætlar að helga sig lögmennsku að nýju og halda áfram að elta draumana sína. Sakamál, sifjamál og fjölskyldumál munu einkenna störf hennar á næstunni. Ekki kemur til greina að vera talsmaður umsækjenda um alþjóðlega vernd. Ástæða þess er fyrst og fremst praktísk að sögn Helgu Völu. „Þegar maður er að byrja í rekstri þá þarf maður að passa að vera ekki of mikið að vinna pro bono en það eru örlög þeirra lögmanna sem starfa við þennan málaflokk.“ Útlendingamálin eru henni samt sem áður áfram hugleikin og hún hefur miklar áhyggjur af þeim anda sem ríkir hjá stjórnvöldum. „Það er verið að kljúfa samfélagið og umræðan er orðin miklu harðskeyttari en hún hefur nokkru sinni verið. Áður fyrr var þetta kannski einn og einn þingmaður sem leyfði sér að tala með þessum hætti en núna heyrir maður fjölmarga teikna upp þessa ofboðslegu pólaríseringu.“

Helga Vala vill sjá Samfylkinguna leggja áherslu á heilbrigðismál á komandi þingvetri. „Af því að heilbrigðismál eru hjartans mál allra landsmanna, það finna allir fyrir því þegar heilbrigðiskerfið er svona vanrekið eins og það hefur verið í tíð núverandi ríkisstjórnar og ríkisstjórna síðustu ára.“ 

Hótanir í garð fjölskyldu ekki notalegar

Þó svo að hún sé að segja skilið við þingmennskuna mun Helga Vala halda áfram að berjast fyrir ýmsum málum. Svo ætlar hún að halda áfram að hitta vinina sem hún hefur eignast í þinginu og mun koma til með að sakna. „Ég hlakka til að hitta þau í frelsinu.“ 

„Hótanir og annað. Það er ekkert sérstaklega notalegt.“

En það eru líka hlutir sem hún mun ekki sakna. „Ákveðinnar illmælgi, auðvitað erum við þjónar almennings. En ég held að við ættum líka aðeins að hugleiða hvað við leyfum okkur að segja um kjörna fulltrúa og hvað við leyfum okkur að draga fjölskyldur kjörinna fulltrúa inn í pólitíkina. Það er kannski það sem ég mun sakna minnst. Fjölskylda mín á ekki að þurfa að fá yfir sig skítinn vegna þess í hvaða vinnu ég er. Hótanir og annað. Það er ekkert sérstaklega notalegt.“ 

Helga Vala útilokar ekki að snúa aftur á þing, seinna. „Lífið mitt er samt auðvitað ótrúlegt ævintýri þannig að ég ætla ekki að útiloka neitt. Ég var ekki á leiðinni á þing 2017, það bar mjög brátt að. En þetta var auðvitað ofsalega skemmtilegt og lærdómsríkt þannig að ég sé ekki eftir einni mínútu. Ég er bara heppin, ég er að gera eitthvað skemmtilegt. Lífið er gott.“ 

Kjósa
24
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Allt af létta

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár