Til stendur að einfalda og minnka umfang íbúakosninga sveitarfélaga og veita þeim meira vald hvað kosningarétt varðar í ráðgefandi íbúakosningum með nýrri reglugerð innviðaráðuneytisins sem hefur verið birt á samráðsgátt stjórnvalda. Fram kemur í samráðsgátt að reglugerðinni sé einnig ætla að auka lýðræðisþátttöku og sjálfbærni sveitarfélaga, það muni efla sveitarstjórnarstigið.
Tilefni reglugerðarsetningarinnar er lagabreytingafrumvarp sem samþykkt var á Alþingi í júní síðastliðnum þar sem gerðar voru ýmsar breytingar sem höfðu það að markmiði að einfalda og minnka umfang íbúakosninga sveitarfélaga. Reglugerðin sem nú er til umsagnar fjallar um allar tegundir íbúakosninga sveitarfélaga og tekur mið af nýsamþykktum lagabreytingum.
Reglugerðin mælir fyrir um þær kröfur sem gerðar eru til framkvæmdar íbúakosninga sem eru haldnar til að kjósa í nefnd fyrir hluta sveitarfélags, um atkvæðagreiðslur um einstök málefni sveitarfélags og um atkvæðagreiðslur um sameiningar sveitarfélaga. Reglugerðin gildir þó ekki um atkvæðagreiðslur sem fara fram með rafrænum hætti.
Hreyfanlegir kjörstaðir leyfðir en engin utankjörfundaratkvæðagreiðsla
Í fylgiskjali reglugerðardraganna segir að framkvæmd íbúakosninga eins og þeim er lýst í drögunum víki að ýmsu leyti frá framkvæmd hefðbundinna kosninga sem haldnar eru á grundvelli kosningalaga.
Meðal þessara frávika má nefna tímabil íbúakosninganna en gert er ráð fyrir að slíkar kosningar skuli fara fram á að minnsta kosti tveggja vikna tímabili og í mesta lagi fjögurra vikna tímabili. Á því tímabili skuli vera að minnsta kosti einn kjörstaður opinn með reglulegan opnunartíma, til dæmis á skrifstofu sveitarfélagsins. Þó skuli leitast við að samræma bæði fjölda kjörstaða og opnunartíma við fjölda íbúa og vegalengdir í sveitarfélaginu.
Vegna þess að kosningarnar fara fram á fyrirframgefnu tímabili þá er ekki gert ráð fyrir kjörfundi eða kosningadegi og þar af leiðandi er ekki heldur gert ráð fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu hjá sýslumönnum eða sendiráðum í íbúakosningum.
Reglugerðin mun koma til með að leyfa hreyfanlega kjörstaði. Í fylgiskjali draganna er svokallaður kosningabíll nefndur sem dæmi um slíka hreyfanlega kjörstaði. Þá stendur auk þess til að leyfa kjósendum að greiða atkvæði með pósti til þess að auka aðgengi að kosningum.
Athugasemdir