Landsprent, prentsmiðja Morgunblaðssamstæðunnar, hefur fest kaup á prentvél Fréttablaðsins og tengdar eignir úr þrotabúi Torgs ehf., útgáfufélags Fréttablaðsins, sem lagði upp laupana fyrr á árinu.
Óskar Sigurðsson skiptastjóri þrotabús Torgs staðfestir þetta í samtali við Heimildina, en segist ekki geta gefið upp kaupverðið.
Guðbrandur Magnússon framkvæmdastjóri Landsprents segir aðspurður í samtali við Heimildina að hann reikni ekki með því að prentvélin sjálf verði rekin áfram, væntanlega verði örlög hennar að verða að „einhverju brotajárni“. Prentvélin hefur verið starfrækt í viðbyggingu við Ísafoldarprentsmiðju í Garðabæ.
„Við tökum það sem við getum notað og hitt verður að einhverju brotajárni hugsa ég“
„Við vorum fyrst og fremst að ásælast þarna vélbúnað og ýmsar rekstrarvörur sem við gerðum tilboð í og því var tekið,“ segir Guðbrandur, sem vill ekki gefa upp hvað Landsprent greiðir þrotabúi Torgs fyrir prentvélina.
Hann segir að þær vörur sem Landsprent ásældist úr Ísafoldarprentsmiðjunni hafi verið pappír, prentlitir, vélbúnaður, pökkunarbúnaður úr pökkunarsal, bindivélar, plastvélar og annar búnaður sem fylgir prentun dagblaða. „Við vorum fyrst og fremst að gera tilboð í þessar vörur. Það var ekkert annað sem vakti fyrir okkur,“ segir Guðbrandur.
En hvað ætliði að gera, þið fáið væntanlega fullt af vélbúnaði sem varla nýtist nokkuð, er það?
„Við tökum það sem við getum notað og hitt verður að einhverju brotajárni hugsa ég,“ segir framkvæmdastjórinn. Það er því útlit fyrir að Landsprent verði eina prentsmiðjan á landinu sem getur prentað fréttablöð.
Ísafoldarprentsmiðja gerði einnig tilboð í prentvélina, en það var lægra en tilboð Landsprents. Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri prentsmiðjunnar segist ekki vilja ræða málið við Heimildina og vill heldur ekki gefa upp hversu hátt tilboð Ísafoldarprentsmiðju í prentvélina og tilheyrandi varning var.
Tengdir aðilar hafa hlaðið upp skuldum gagnvart Landsprenti
Móðurfélag Morgunblaðssamsteypunnar heitir Þórsmörk. Útgáfufélagið Árvakur og Landsprent eru bæði dótturfélög Þórsmerkur, í kjölfar breytinga sem gerðar voru á samstæðunni í september í fyrra, en áður var Landsprent dótturfélag Árvakurs.
Við þessar breytingar á uppbyggingu samstæðunnar lét Árvakur af hendi eignir sem voru metnar á 997 milljónir króna og skuldir upp á 721 milljón króna. Eignin sem færð var yfir var bókfært virði Landsprents, en skuldin sem færðist yfir á Þórsmörk var að uppistöðu skuld Árvakurs við Landsprent, sem hefur vaxið stöðugt á síðustu árum.
Eftir skiptinguna fóru eignir Árvakurs, sem á Morgunblaðið, mbl.is og K100 og tengda miðla, úr tæplega 2,2 milljörðum króna í 1,2 milljarða króna og eignir Þórsmerkur hækkuðu að sama skapi um tæpan milljarð króna. Áhrifin á samstæðu Þórsmerkur voru lítil sem engin, enda verið að færa eignir og skuldir úr einum vasa í annan.
Árvakur er á meðal stærstu viðskiptavina Landsprents sem átti kröfur á tengd félög upp á 730,3 milljónir króna í lok árs 2021. Þær kröfur, sem voru á Árvakur, uxu um 410,2 milljónir króna á tveimur árum, frá byrjun árs 2020 og út árið 2021. Með því sparaði Árvakur sér greiðslur tímabundið, en stórjók skuldir sínar við félag í sinni eigu.
Með því að færa stærstan hluta af skuldum Árvakurs við Landsprent upp í móðurfélagið lækkuðu skuldir sjálfs útgáfufélagsins útgáfufélagsins við prentsmiðjuna niður í 89 milljónir króna.
Fyrirvari um hagsmuni: Heimildin er gefin út í prentútgáfu sem prentuð er í Landsprenti.
Athugasemdir