Í vikunni fór ég í siglingu um sundin blá með mínum nánustu. Við sigldum að Kerlingaskeri sem er u.þ.b. eina sjómílu vestur af Gróttu. Sonur minn þekkti sögu nafnagiftarinnar og sagði okkur frá.
Sagan er svona: Í fyrndinni réru nokkrir sjómenn af Seltjarnarnesi til fiskjar.Þeir tóku með sér gamla konu sem var niðursetningur í sveitinni. Kerlinguna skildu þeir eftir á skeri og átti hún að tína krækling til þess að beita með. Þegar sjómennirnir komu á miðin var þvílíkt mokfiskerí að þeir steingleymdu kerlingunni. Þeir áttuðu sig á bakaleiðinni og ætluðu að ná í þá gömlu en þá var skerið horfið og kerlingin með. Ástæða þess að ég er að segja þessa sögu er sú að mér finnst sambærileg saga vera í gangi einmitt núna. Fólk í neyð er sett út á guð og gaddinn og ráðamenn virðast vonast til þess að þetta fólk sökkvi og hverfi á flæðiskerinu sem því hefur verið úthlutað.
Enn einu sinni er i boðið upp á illvirki af hálfu hins opinbera. Enn einu sinni þurfum við að horfast við í augu við fólk þar sem lífsgleðin er horfin og lífsneistinn slokknaður. Í sjónvarpsfréttum 11. til 15. ágúst var sagt frá örvæntingu þriggja kvenna sem áttu ekki í nein hús að venda. Fréttamenn sem voru á staðnum miskunnuðu sig yfir konurnar og kölluðu til sjúkrabíla. 15. ágúst mættu tvær konur í viðtal á RÚV. Viðtölin voru þess eðlis að um mann fór hryllingur og skömm. Önnur þessara kvenna er forsætisráðherra landsins, hin dómsmálaráðherra. Dómsmálaráðherra dirfðist að halda því fram að nýju útlendingalögin virki! Fyrir hvern spyr sá sem ekki veit. Forsætisráðherra talaði á þeim nótum að sér hugnaðist ekki að setja upp „brottfararbúðir“ fyrir þá sem hefur verið synjað um landvistarleyfi en hún sleppti því að koma með mannúðlegar tillögur heldur prjónaði upp úr sér þvaður um ekki neitt. Þessar brottfararbúðir sagði dómsmálaráðherra „búsetuúrræði með takmörkunum“ sem er einfaldlega skrauthvörf yfir fangelsi. Báðar skýldu sér á bak við lagabókstafi og stjórnsýslu.
Eftir að hafa hlustað á þessar konur hvarflaði hugur þeirrar sem þetta ritar að bók blaðamannsins og heimspekingsins Hönnu Arendt um réttarhöldin yfir Adolf Eichmann. Hann eins og þær stöllur faldi sig á bak við lagabókstaf. Hann reyndi að firra sig ábyrgð með því að halda því fram að hann hefði einungis hlýtt skipunum yfirboðara og húkti í málsvörn sinni í skjóli múra lagabókstafa og stjórnsýslu.
Lagabókstafur og stjórnsýsla veita ekki syndaaflausn, ekki fyrir Eichmann og ekki fyrir Katrínu og Guðrúnu. Hanna Arendt kallaði svona skeytingarleysi og heigulshátt „the Banality of Evil“ eða lágkúru illskunnar. Með því að ganga blint fram með ómannúðlegar aðgerðir aftengja þessar konur eigin hugsun og meðlíðan og fela sig á bak við valdboð. Þær svipta sjálfar sig mennskunni í nafni lagabókstafs sem þær hafa sjálfar átt þátt í smíða. Lög og túlkun þeirra eru mannanna verk og lágkúra illskunnar liggur að baki framferði stjórnvalda við fólk sem hvergi á höfði sínu að halla.
Það er hægt að byggja alls konar múra sem aftra fólki í neyð að leita til okkar vellríka lands. En sem betur fer er einnig hægt að rífa þá múra niður.
Undanfarin ár hefur að sumu leyti rofað til íslensku samfélagi. Fólk sem sætti harðræði á hinum ýmsu stofnunum hefur fengið sanngirnisbætur og margir hafa verið beðnir afsökunar á illri meðferð af hálfu stjórnvalda. Sumir að sér látnum.
En gamla konan sem drukknaði á Kerlingaskeri og aðrir niðursetningar hafa engar afsökunarbeiðnir fengið. Það er þó öllu verra að niðursetningar samtímans eru hunsaðir af stjórnvöldum og komið fram við þá harðneskju, grimmd og skeytingarleysi. Ríki og sveitarfélög hegða sér eins og verið sé að spila svarta Pétur. Og svarti Pétur er fólk í sárri neyð. Ríkið bendir á sveitarfélög sem benda á ríkið. Enginn vill sitja uppi með svarta Pétur. Á meðan þessu fer fram þjáist fólk sem hefur haft vindinn í fangið alla sína ævi.
Ég þykist viss um að bæði Katrín Jakobsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir séu innst inni vel gerðar og vel meinandi konur. Það sem er hættulegt við framferði þeirra og annarra í valdastöðum sem beita sér gegn lítilmögnum er að illvirki framin af góðu fólki eru ískyggilegustu og verstu fólskuverkin. Ódæði þar sem hugsun og mannúð eru aftengd og hlýðni við lög og reglur verður mælistikan sem unnið er eftir.
Ég er þeirrar skoðunar að skynsemi, góðvild og mannúð eigi að ráða ferðinni. Framkoma okkar við flóttamenn og hælisleitendur er prófsteinn á mennsku, meðlíðan og mannúð. Jarðvegurinn sem lágkúra illskunnar sprettur best úr er heimóttarháttur, heimska og vangeta til þess að sjá hlutina í samhengi. Megum við bera gæfu til að lenda ekki í þeim forarpytti og megi forsætisráðherra og dómsmálaráðherra nýta það vald sem þær hafa þegið af almenningi öllum til góðs, líka niðursetningunum.
Höfundur er félagsráðgjafi.
Athugasemdir (3)