„Þegar á hlaðið var komið blöstu við mér kindur sem voru í nokkrum reifum. Flest féð var greinilega ómeðhöndlað, t.d. hvað varðar ormalyf. Þær voru svartar að aftan af skít. Það er hásumar og átakanlegt að sjá þær ofanda í hitanum vegna mjög slæmrar vanhirðu.“
Þannig lýsir einstaklingur sem lætur sig velferð dýra miklu varða aðkomu að bæ í Grímsnes- og Grafningshreppi nýverið. Hann segir ástandið hafa verið jafnslæmt á bænum í fyrra. „Þetta verður að stöðva og ljóst er að dýrin eru sannarlega i neyð hjá þessum eiganda.“
Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun (MAST) segir í skriflegu svari til Heimildarinnar að undanfarin misseri hafi ítrekað borist ábendingar um þennan tiltekna bæ. Flestar snúi þær að draslaragangi, lélegri umhirðu „og nú síðast því sem þú lýsir“.
Árið 2021 komu að sögn Sigurborgar tvær ábendingar, báðar samhljóða og voru um sama efni, þ.e. draslaragang og plastmengun. „Farið var í eftirlit og það sannreynt, en MAST gerði þá ekki athugasemdir varðandi dýrin sjálf,“ segir hún. Fram komi í gögnum að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafði afskipti af ábúanda vegna draslaragangs enda falli það undir þeirra málefnasvið.
„Verið er að bregðast við þessari ábendingu og tekið verður á málum samkvæmt verklagi um beitingu þvingana.“
Árið 2022 barst ein ábending um bæinn og fjallaði hún um vanhæfi bóndans og almennt umhirðuleysi. Enn á ný var farið í eftirlit, „en ekki tókst að sannreyna umkvörtunarefnið, ekkert fé var aðgengilegt til að skoða enda það allt úti og fjarri bæ,“ segir Sigurborg.
Ákveðið var þá að fylgja málinu eftir með reglubundnu eftirliti þegar fé væri á húsi.
Í ár var farið í slíkt eftirlit og nokkur frávik voru skráð er varða dýravelferð. Frestur bóndans til úrbóta renni út í nóvember.
„Tvær ábendingar bárust í lok júlí, og voru þær samhljóða, fjölluðu um draslaragang og almennt umhirðuleysi auk vanhæfi bónda,“ segir yfirdýralæknir. „Verið er að bregðast við þessari ábendingu og tekið verður á málum samkvæmt verklagi um beitingu þvingana, sem geta verið dagsektir, að láta vinna verk á kostnað eiganda og síðasta úrræðið er að vörslusvipta ef mildari þvingunarúrræði duga ekki.“
Eigandi ber ætíð ábyrgð á sínum dýrum, en MAST hefur eftirlit með að eigandi fari að lögum og reglugerðum, útskýrir Sigurborg. Alþekkt sé að ormahreinsa þurf sauðfé reglulega. Bændur leiti upplýsinga og leiðbeininga hjá sínum dýralæknum og fá viðeigandi lyf hjá þeim. „Eigendum ber einnig að kalla til dýralækni vegna veikinda eða meiðsla hjá dýrum sínum, dýralæknirinn metur hvað rétt sé að gera í hverju tilviki. Mast beitir aðeins þvingunum þegar eigandi framkvæmir ekki skyldur sínar.“
Jafnmargar tilkynningar í ár
Nokkuð hefur verið fjallað um sambærileg mál, þar sem almenningur hefur bent á vanhirðu dýra, í fréttum síðustu mánuði. Sigurborg segir hins vegar að ekki virðist vera fjölgun milli ára á ábendingum er varða sauðfé. Á fyrstu sjö mánuðum síðasta árs var skráð 41 ábending er varðar meðferð á sauðfé og á sama tímabili í ár voru tilkynningarnar 40.
Athugasemdir (1)