Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa sent frá sér yfirlýsingar, þar sem sú staða sem upp er komin í málefnum hælisleitenda vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á útlendingalögum fyrr á árinu er hörmuð og ríkið gagnrýnt fyrir hvernig það hefur haldið á málum.
Nokkrir tugir hælisleitenda sem hafa fengið synjun um alþjóðlega vernd hafa nú verið sviptir þjónustu sem Vinnumálastofnun hefur veitt þeim fyrir hönd ríkisins.
Sveitarfélögin sett í afar erfiða stöðu
Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu segja að af viðbrögðum „einstakra fulltrúa ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlum“ megi ráða „að ábyrgðin sé nú á höndum sveitarfélaganna“.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru sögð harma stöðu þessara einstaklinga, en „mótmæla um leið afstöðu ríkisins enda hefur ekkert samtal farið fram milli ríkis og sveitarfélaga um hvað tekur við hjá þeim hælisleitendum sem misst hafa framfæri sitt hjá ríkinu og eru án kennitölu og réttinda í landinu“.
Sveitarfélögin segjast „sett í afar erfiða aðstöðu gagnvart þessum hópi“ og benda á að í umsögn um lagafrumvarp Jóns Gunnarssonar þáverandi dómsmálaráðherra vegna breytinga á útlendingamálum hafi Samband íslenskra sveitarfélaga varað við því að þessi staða gæti komið upp.
„Að mati Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er þessi málaflokkur á ábyrgð ríkisins og nauðsynlegt að þau ráðuneyti sem málaflokkurinn fellur undir geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja umræddum einstaklingum þak yfir höfuðið og framfærslu á meðan þeir eru hér á landi,“ segir í yfirlýsingu SSH, sem hafa óskað eftir tafarlausu samtali við félags- og vinnumálaráðherra og dómsmálaráðherra vegna þessa máls
Fyrirsjáanlegir vankantar
Í yfirlýsingu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga segir „ljóst að þeir vankantar sem eru á lögunum hafi verið fyrirsjáanlegir“ og að sambandið hafi krafist þess að „skýrt yrði hvað tæki við eftir að 30 daga fresti frá synjun um stöðu hælisleitanda lýkur“.
„Með þessum vanköntum á lögunum eru sveitarfélög landsins sett í afar erfiða stöðu gagnvart þessum viðkvæma hópi. Ekkert samtal hefur farið fram milli ríkis og sveitarfélaga um hvað tekur við hjá þeim hælisleitendum sem misst hafa framfæri sitt hjá ríkinu og eru án kennitölu og réttinda í landinu.
Sambandið telur skýrt að þessi málaflokkur sé á ábyrgð ríkisins og að nauðsynlegt sé að þau ráðuneyti sem málaflokkurinn fellur undir geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja umræddum einstaklingum þak yfir höfuðið og framfærslu, þar til viðkomandi einstaklingar fara úr landi,“ segir í yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Athugasemdir