Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið varðandi samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og sett markið hærra en það sem landinu ber skylda til. Það hefur hins vegar ekki gengið nógu vel að ná settum markmiðum eða yfir höfuð að stefna í áttina að þeim. Í þessari grein ætla ég að beina sjónum að þætti jarðefnaeldsneytis í losuninni og raunar einungis þeim hluta hennar sem tengist starfsemi á landi, þ.e. hér verður hvorki fjallað um notkun jarðefnaeldsneytis á sjó eða í lofti.
Langt í land í vegasamgöngum
Á Mynd 1 má sjá sölu eldsneytis til samgangna á landi hérlendis undanfarin ár eftir tegund og uppruna. Myndin er byggð á upplýsingum frá Orkustofnun (Orkustofnun (2023). OS-2023-T007-01: Bæklingur um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi 2022).
Á myndinni má sjá að næstum 60% af eldsneytisorku sem seld var til samgangna á landi árið 2022 var díselolía og að notkun hennar hefur farið stöðugt vaxandi frá hruni fjármálakerfisins ef undan er skilinn tími faraldursins. Bensínnotkun hefur farið minnkandi undanfarin ár en tók svo við sér í fyrra.
Á myndinni er endurnýjanlegt eldsneyti (þ.e. íblöndun endurnýjanlegs eldsneytis í bensín, lífdísel, metan og raforka) lagt saman í einn flokk með því að reikna hversu mikið nýtanlegt orkugildi er í hverri tegund. Þannig er hægt að sjá hversu mikinn þátt þessar tegundir orku eiga í samgöngum á landi. Tekið er tillit til þess að nýting brennsluhreyfla til að knýja áfram ökutæki er mun lélegri en þegar um aðra orkugjafa er að ræða og munar þar tvöföldu og upp í fimmföldu. Endurnýjanleg orka nam tæplega 14% af þeirri orku sem notuð var sem eldsneyti í vegasamgöngum árið 2022 og raforka stóð fyrir 6,4% af þeirri orku sem ætla má að hafi verið nýtt í samgöngum á landi. Metan og raforka eru framleidd hér á landi en íblöndunarefni í bensín og lífdíselolía eru innflutt.
Notkun endurnýjanlegs eldsneytis stóð í stað í fyrsta skipti í fyrra, aðallega vegna þess að miklu minna var notað af lífdíselolíu árið 2022 en árin á undan. Í heild verður að segja að þetta dæmi lítur alls ekki nógu vel út.
Á Mynd 2 er sýnt hvernig hlutur hverrar tegundar endurnýjanlegs eldsneytis í orkunotkun samgangna á landi hefur þróast á undanförnum árum. Það vekur athygli að notkun lífdíselolíu sem í nokkur ár var fyrirferðarmesta eldsneytistegundin af þessum toga hefur hrunið nær algerlega meðan íblöndun í bensín hefur vaxið mjög mikið. Íblöndunin er ákveðin í lögum og sýnist að íblöndun í bensín sé töluvert um fram lagaskyldu meðan notkun lífdísels virðist hafa fallið langt niður fyrir það sem mælt er fyrir um í lögum.
Orkuinnihald rafmagns er margfaldað með 5 en metans með 2 til að finna olíuígildi þessara orkugjafa.
Stjórnvöld ætla sér að ná losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum niður í 615 þúsund tonn árið 2030 en hún var 776 þúsund tonn árið 2005 sem er til viðmiðunar. Því miður fjarlægjumst við þetta markmið frekar en að nálgast það því losunin hefur sennilega farið yfir 1 milljón tonna í fyrra.
Hagkerfið er mjög nátengt olíunotkun
Eins og þegar er komið fram er díselolía mikilvægasti orkugjafi vegasamgangna og um ¾ hlutar allrar díselolíu eru notaðir í þær samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun. Hún er einnig notuð til að knýja alls kyns vinnuvélar og atvinnutæki að ógleymdri raforkuframleiðslu. Hún hefur einnig verið notuð í fiskimjölsverksmiðjum þegar raforka hefur ekki verið nægileg og því er fróðlegt að sjá hvernig notkun hennar í heild fer saman við stöðu efnahagslífsins. Það er sýnt á Mynd 3.
Þessi mynd sýnir að mjög sterkt samband er á milli landsframleiðslunnar og notkunar á díselolíu. Fylgnistuðull (R2) reiknast 0,97 og það sést greinilega að notkun díselolíu fylgir landsframleiðslunni bæði upp og niður. Lengst af á þessu tímabili er sambandið mjög stöðugt en frá 2017 má greina að tengslin eru aðeins að linast þótt olíunotkunin vaxi enn með landsframleiðslunni en minna en var fyrir þann tíma. Það er þó langt frá því sem stefna verður að, þ.e. að olíunotkunin minnki þótt efnahagskerfið vaxi. Ef skoðað er samband hagvaxtar og allrar olíunotkunar (þ.e. ef sala á flugvélaeldsneyti, flotadíselolíu, skipagasolíu og svartolíu er talin með) þá er það ekki eins gott og sambandið við notkun díselolíu einnar.
Þetta verður vandratað
Af þessu má ráða að það er engan veginn um einfalt viðfangsefni að ræða ef draga á úr notkun jarðefnaeldsneytis og þá einkum díselolíu án þess að það komi niður á hagvexti. Hingað til finnst mér að einblínt hafi verið á orkunotkun fólksbíla og jafnvel hefur verið nefnt að akstur ferðamanna á bensíndrifnum bílaleigubílum sé skúrkurinn en þessar myndir sýna að svo er ekki. Þótt notkun á lífrænu eldsneyti og raforku hafi aukist á undanförnum árum (ef árið í fyrra er undanskilið) þá er það að mestu bundið við notkun í fólksbílum. Undantekningin er lífdíselolía en sala á henni var 15% af endurnýjanlega hluta orkusölunnar í fyrra en einungis 1,8% af heildarorkusölu díselolíu. Stóra verkefnið framundan er því með hvaða hætti verður hægt að minnka notkun jarðefnaeldsneytis í öllum þeim aragrúa atvinnutækja sem ganga fyrir díselolíu, allt frá litlum sendibílum upp í jarðýtur.
Uppgjör Loftslagsráðs frá því í júní síðastliðnum þegar skipunartími þess var útrunninn er áfellisdómur yfir stöðu Íslands og aðgerðum stjórnvalda í þessum málaflokki. Það er engan veginn auðvelt að fá yfirsýn yfir það hver staðan er. Bókhald og skýrslugerð um loftslagsmál er orðið fórnarlamb skriffinnsku en mér dettur ekki í hug að stjórnvöld séu viljandi að gera almenningi erfitt fyrir að átta sig á stöðunni.
Enda þótt losun frá Íslandi skipti engu máli fyrir þróun loftslags í heiminum erum við þátttakendur í alþjóðasamfélaginu sem hefur ákveðið að taka sameiginlega á þessu vandamáli. Stjórnvöldum er þröngur stakkur sniðinn því minnkun olíunotkunar byggir í mörgum tilvikum á nýjum tæknilausnum þar sem við verðum þiggjendur í miklu meira mæli en veitendur. Árangur er ekki mældur í þeim fjármunum sem hið opinbera veitir í málaflokkinn og ekki í tekjum af umhverfissköttum heldur í viðbrögðum almennings og fyrirtækja sem leiða til minnkunar á losun. Tími aðgerða sem einungis hafa táknræna merkingu er liðinn og sömuleiðis aðgerðir sem koma okkur ekki til góða í hinu alþjóðlega bókhaldi losunar, hversu flókið og ógegnsætt sem það er.
Athugasemdir