Sextán konur sem allar eiga það sameiginlegt að hafa greinst með krabbamein snemma á lífsleiðinni ætla að hlaupa rúmlega 150 kílómetra sín á milli í Reykjavíkurmaraþoninu. Þær hlaupa til styrktar Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar, þar sem þær kynntust og sóttu dýrmætan stuðning hvor annarrar. Markmið ungu kvennanna, sem allar eru undir 45 ára, er að safna 2,5 milljónum króna.
Sólveig Ása Tryggvadóttir er ein þeirra. „Ég fór fyrst í Ljósið í lok ágúst á síðasta ári eftir greiningu og mér var tekið ótrúlega vel.“ Hún lýsir staðnum sem heimilislegum og segir starfsfólkið allt bera hjartað á réttum stað. Þar sem hópa- og aldurskipt er í Ljósinu fór Sólveig inn í hóp kvenna á aldrinum 18-45 ára. Þær náðu vel saman og segir Sólveig vinaböndin hafa styrkst sérstaklega í leirgerð.
Stuðningurinn mikilvægur
„Það að greinast með krabbamein þegar maður er á þessum aldri er svakalegt og það eru fáir sem hafa upplifað það. Þess vegna er mikilvægt að geta deilt reynslu sinni og hafa grundvöll til að geta hitt konur í sömu stöðu,“ segir Sólveig. Konurnar ræða ýmislegt er viðkemur þessu lífsbreytandi ferli sín á milli, til dæmis lyfjameðferðirnar, áhrifin á fjölskylduna og hvenær hár byrjar að vaxa aftur. „Eins og í öllu erfiðu sem þú tekur þér fyrir hendur, þá munar um það að hafa einhvern sem skilur og sannarlega veit hvað þú ert að ganga í gegnum.“
„Eins og í öllu erfiðu sem þú tekur þér fyrir hendur, þá munar um það að hafa einhvern sem skilur og sannarlega veit hvað þú ert að ganga í gegnum.“
Sjálf er Sólveig í endurhæfingu og viðhaldsmeðferð sem stendur. „Ég er búin með stóru lyfjameðferðina og er í uppbyggingu núna.“ Konurnar eru allar á mismunandi stöðum í ferlinu og eru því með ólík hlaupamarkmið. Flestar ætla 10 kílómetra, sumar á undir klukkustund á meðan aðrar ætla að ganga. Þó að Ljósasystur vilji safna sem mestu fyrir Ljósið að þá fannst þeim 2,5 milljónir raunhæf upphæð, en þær vildu gefa til baka og styrkja starfsemi miðstöðvarinnar. Fyrir aðeins þremur árum síðan fór Ljósið á fjárlög sem dekka launakostnað fastra starfsmanna en annars er miðstöðin rekin á styrkjum og framlögum einstaklinga og fyrirtækja.
„Ef ég tala fyrir mig, með fullri virðingu fyrir lyfjum og læknum, að þá er helmingur bataferlis míns Ljósinu að þakka. Það er gríðarleg andleg áskorun að verða svona veik, í rauninni er hún til jafns við líkamlegu veikindin. Þess vegna er þessi stuðningur svo mikilvægur,“ segir Sólveig.
Aðstandendur þeirra sem greinast með krabbamein geta líka sótt þjónustu í Ljósinu, til dæmis með því að fara á aðstandendanámskeið. „Það er mjög mikilvægt vegna þess að krabbamein kemur öllum við. Krabbamein er stórt, það er meira en einstaklingurinn sem fær það.“
„Krabbamein er stórt, það er meira en einstaklingurinn sem fær það.“
Ljósasystur eru spenntar að takast á við hlaupa áskorunina næstu helgi og hvetja hvor aðra dyggilega áfram. „Ég hef einu sinni hlaupið sjálf en aldrei svona í hópi. Það er hrikalega gaman og við erum fullar af metnaði,“ segir Sólveig og brosir. Með henni munu Anna Lilja Gunnarsdóttir, Agnes Ferró, Aníta Sól Jónsdóttir, Bára O'brien Ragnhildardóttir, Dagbjört Eilíf Baldvinsdóttir, Erna Elínbjörg Láru Skúladóttir, Helga Ingibjörg Guðjónsdóttir, Hulda Halldóra Tryggvadóttir, Hulda Jóhannsdóttir, Hrafnhildur Einarsdóttir og Kristjana Kona Traustadóttir hlaupa. Þær hafa þegar safnað 2.458.500 milljónum króna.
Athugasemdir