Staða Blessing Newton, þolenda mansals, sem kom hingað frá Ítalíu og sótti um alþjóðlega vernd hérlendis hefur verið til umræðu í fjölmiðlum síðan frá upphafi árs 2021 eftir að henni var synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða fyrst hjá Útlendingastofnun og síðar hjá kærunefnd útlendingamála. Síðan þá hefur hún verið í svokallaðri umborinn dvöl þar sem hvorki var mögulegt að senda hana til baka til Ítalíu né heimalandsins Nígeríu. Ástæða var sú að dvalarleyfi henni í Ítalíu er útrunnið og hún með falsað vegabréf, að talið er, frá Nígeríu en það var m.a. notað gegn henni þrátt fyrir að talið sé að hún sé raunverulega þolandi mansals. Það skýtur skökku við enda þekkt að vegabréf eru tekin af þolendum mansals til að koma í veg fyrir að þau geti flúið nauðungaraðstæður sínar og þá þurfa þau að útvega sér falsað vegabréf til að geta flúið sem er merki um mikla örvæntingu og sjálfsbjargarviðleitni í senn. Annar möguleiki er að mansalarnir hafi útvegað falsað vegabréf til að koma Blessing undir fölskum formerkjum til Ítalíu þar sem hún var endaði í hörmulegri kynlífsánauð. Af þessum ástæðum ætti augljóslega hvorki að nota það gegn henni að hún sé með falsað vegabréf eða þá svipta hana öllum opinberum stuðningi sem þolanda mansals sem mögulega er brot á þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda eins og hefur verið bent á af lögmanni hennar í eftirfarandi frétt.
Það er eitt. Hitt er að mikið óvissuástand hefur skapast um mál einstaklinga, sem hafa lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd, verið synjað og neita að fara „sjálfviljugir“ úr landi. Þau sem „samþykkja“ að fara án mótþróa geta sum hver fengið ferða- og enduraðlögunarstyrk sbr. reglugerð um fjárhagsaðstoð við sjálfviljuga heimför. Sjá nánar á vefsvæði dómsmálaráðuneytisins. Hins vegar vakna margar spurningar vegna þeirra sem neita að fara sbr. Blessing vegna ósamræmis sem er á milli laga um útlendinga, sem tóku gildi 1. júlí 2023, og reglugerðar um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, í sérstökum tilvikum, við erlenda ríkisborgara og endurgreiðslur fjárhagsaðstoðar úr ríkissjóði, sem er frá 2021.
Eftir að Blessing neitaði að skrifa undir skjal þess efnis að hún færi úr landi innan 30 daga frá undirritun þá er hún skv. skilgreiningu stjórnvalda í ólöglegri dvöl í landi og mun missa rétt til húsnæðis á vegum hins opinbera, félagslegrar þjónustu og heilbrigðisþjónustu (nema bráðaþjónustu) á morgun, föstudaginn 11. ágúst.
Mörg hafa velt upp spurningum um mál Blessing og annarra í svipaðri stöðu sbr. presturinn Toshiki Toma, Þórunn Ólafsdóttir, Drífa Snædal og fleiri.
Það sem vekur spurningar er ekki síst hlutverk hins opinbera – ríkisins og sveitarfélaga - gagnvart einstaklingum sem eru eða eiga yfir höfði sér að vera allslausir á götunni. Skv. lögum um útlendinga þá eru einstaklingar sem fá synjun um alþjóðlega vernd ekki lengur skilgreindir sem umsækjendur um alþjóðlega vernd heldur útlendingar (sbr. viðbót við 26. töluliðar 3. greinar). Ekki nóg með það heldur er um að ræða útlendinga sem eru á götunni og geta ekki fengið inni í gistiskýlum Reykjavíkurborgar (sem dæmi) vegna þess að þau eru ekki með kennitölu. Þau geta hugsanlega leitað aðstoðar Hjálpræðishersins og Samhjálpar til að fá mat og tímabundið húsaskjól yfir daginn að því gefnu að krafan um íslenska kennitölu gildir ekki en í flestum tilvikum er gerð krafa um kennitölu þegar sótt er um neyðaraðstoð.
Í ljósi þess hversu kennitala skiptir miklu máli til að fá félagslega aðstoð hvort sem hún er á vegum sveitarfélaga eða félagasamtaka þá hefur eini varnagli kennitölulausra, þ.m.t. einstaklinga af erlendum uppruna sem hafa verið sviptir kennitölu, verið réttur á félagslegri aðstoð skv. 15. grein laga um félagsþjónustu sveitarfélaga 40/1991. Þar segir að erlendum ríkisborgurum, sem ekki eiga lögheimili í landinu, skuli í sérstökum tilvikum veita fjárhagsaðstoð hér á landi. „Aðstoð skal veitt af dvalarsveitarfélagi að höfðu samráði við ráðuneytið enda hafi áður verið leitað eftir aðstoð frá heimalandi. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um aðstoð samkvæmt ákvæði þessu.“
Reglugerðin sem um ræðir eru Reglur um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, í sérstökum tilvikum, við erlenda ríkisborgara og endurgreiðslur fjárhagsaðstoðar úr ríkissjóði. Núgildandi reglur eru frá árinu 2021 og hafa ekki verið uppfærðar eftir að lög nr. 14/2023 um breytingar á lögum um útlendinga nr. 80/2018 (alþjóðleg vernd) gengu í gildi 1. júlí sl.
Í 33. grein laga um útlendinga um réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd er rætt um hvað gerist þegar einstaklingur fær endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Í greininni talað um „útlending“ sem er í samræmi við breytingar á 26. tölulið 3. gr. laganna sem kveður á um að þegar einstaklingur fær endanlega synjun á umsókn um alþjóðlega vernd þá sé hann/hún/hán ekki lengur umsækjandi heldur útlendingur eins og fyrr segir.
33. grein segir nánar tiltekið eftirfarandi:
„Útlendingur sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd nýtur áfram réttinda samkvæmt þessari grein þar til hann hefur yfirgefið landið en þó að hámarki í 30 daga frá því að ákvörðunin varð endanleg á stjórnsýslustigi. Að þeim tímafresti loknum falla réttindin niður. Þó er ekki heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlega veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Ekki er heimilt að fella niður rétt til bráðaheilbrigðisþjónustu. Í þeim tilvikum þegar umsækjandi er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis eða kemur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og umsóknin hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus falla réttindin þó niður þegar Útlendingastofnun hefur synjað umsókn hans um alþjóðlega vernd. Jafnframt eiga undanþágur 3. málsl. ekki við um þau mál.
Lögreglu er heimilt að fresta niðurfellingu réttinda skv. 8. mgr. hjá öðrum en ríkisborgurum EES- og EFTA-ríkja og ríkja sem eru á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og umsókn viðkomandi hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus ef það telst nauðsynlegt vegna sanngirnissjónarmiða og útlendingur hefur sýnt samstarfsvilja við framkvæmd ákvörðunar um að hann skuli yfirgefa landið. Við mat á því hvort fresta skuli niðurfellingu réttinda skal m.a. líta til þess hvort útlendingi hafi ekki tekist að fara sjálfviljugur af landi brott innan tilgreinds frests vegna aðstæðna sem ekki eru á ábyrgð hans, svo sem vegna ómöguleika við að afla ferðaskilríkja, fötlunar hans eða vegna óviðráðanlegra ytri aðstæðna. Jafnframt er heimilt að fresta niðurfellingu réttinda í þeim tilvikum þegar fallist hefur verið á frestun réttaráhrifa skv. 6. mgr. 104. gr. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar samkvæmt þessari málsgrein.
Ráðherra setur, að höfðu samráði við viðeigandi fagráðherra, reglugerð með nánari ákvæðum um réttindi umsækjanda um alþjóðlega vernd, þ.m.t. [um skerðingu og niðurfellingu réttinda], kröfu um að umsækjandi beri sjálfur kostnað af framfærslu sinni hér á landi og um aðgang að menntun og starfsþjálfun. Ráðherra er jafnframt heimilt að setja í reglugerð að þjónusta við umsækjanda samkvæmt ákvæði þessu sé bundin við tiltekið sveitarfélag eða sveitarfélög.“
Þetta segja lögin. Það sem vekur mesta athygli er hlutverk lögreglunnar sem skv. lögunum er heimilt að fresta niðurfellingu réttinda hjá einstaklingum sem koma utan evrópska efnahagssvæðisins ef það telst nauðsynlegt vegna sanngirnissjónarmiða. Hins vegar virðist það vera eingöngu að uppfylltu því skilyrði að „útlendingur“ hafi sýnt samstarfsvilja við framkvæmd ákvörðunar um að viðkomandi skuli yfirgefa landið. Að minnsta kosti er það sem má ætla af orðanna hljóðan. Þar sem Blessing neitar að fara af landi brott þá er líklegt að ákvæðið um að „nauðsyn vegna sanngirnissjónarmiða“ eigi ekki við þrátt fyrir að það ætti við almennt séð út frá mannúðarsjónarmiðum.
Núna er staðan því sú að það er ósamræmi á milli laganna um útlendinga og reglugerðarinnar um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, í sérstökum tilvikum, við erlenda ríkisborgara en þar segir í 2. grein að „[a]ðstoðin er veitt í sérstökum tilvikum þegar fyrirsjáanlegt er að einstaklingur hefur ekki möguleika á að fara úr landi eða framfleyta sér hér á landi án aðstoðar íslenskra stjórnvalda.“ (Feitletrun er greinarhöfundar).
9. grein reglnanna segir jafnframt að það sé hlutverk félagsþjónustu hvers og eins dvalarsveitarfélags að ákveða „hvort aðstoð fellur undir reglur þessar og metur þörf á aðstoð, þar á meðal samkvæmt viðmiðum 3. gr.“ og veita aðstoðina en hins vegar eingöngu að undangengnu samþykki Fjölmenningarseturs (11. grein). Sú stofnun hefur hins vegar verið lögð niður og starfsemi hennar og verkefni flutt undir Vinnumálastofnun sem m.a. sér um að útvega umsækjendum um alþjóðlega vernd húsnæði og grunnþjónustu á meðan þau bíða niðurstöðu umsókna sinna.
7. grein reglugerðarinnar kveður nánar á um aðstoðina þar sem segir meðal annars eftirfarandi: „Með aðstoð vegna dvalar í landinu er átt við fjárhagsaðstoð vegna framfærslu og greiðslu fyrir húsnæði skv. 4. gr.“ (Feitletrun er greinarhöfundar).
8. grein kveður síðan á um málsmeðferð: „Einstaklingur sækir um aðstoð hjá því sveitarfélagi þar sem hann dvelur. Málsmeðferð fer eftir lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og stjórnsýslulögum.“
Núna virðist það hins vegar vera hlutverk lögreglu að ákveða hvort fresta eigi niðurfellingu réttinda og eðli málsins samkvæmt því ekki lengur hlutverk félagsþjónustu sveitarfélaganna að meta þörf á aðstoð heldur bíða fyrirmæla lögreglu.
Það má því segja að mikil óreiða og óvissuástand ríki í málaflokknum um hvernig skuli vinna svokölluð ÚSA mál, þ.e. mál einstaklinga í sérstökum aðstæðum sem 3. grein núverandi reglugerðar skilgreinir m.a. sem eftirfarandi:
„Beðið er eftir að ákvörðun stjórnvalda um að einstaklingur yfirgefi landið komi til framkvæmda.“ (4. töluliður)
„Umsókn einstaklings um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða alþjóðlegrar verndar hefur verið synjað og ákvörðun stjórnvalda um að hann skuli yfirgefa landið getur ekki komið til framkvæmda.“ (6. töluliður)
Það er spurning hvor skilgreiningin á sérstökum aðstæðum eða báðar eigi við um Blessing. Mergur málsins en hins vegar að frá og með morgundeginum verður henni neitað um alla aðstoð og það sett í hendur lögreglunnar, að því er virðist vera, að taka ákvörðun um að fresta niðurfellingu réttinda skv. breyttum útlendingalögum. Ef svo er, hvert er þá hlutverk sveitarfélaganna skv. lögum um félagsþjónustu og núverandi reglugerð? Það er spurningin.
Athugasemdir (1)