Saksóknarar í New York fylki í Bandaríkjunum hafa ákært breska milljarðamæringinn Joe Lewis fyrir að hafa sent óopinberar upplýsingar til vina sinna og samstarfsmanna á árunum 2019 til 2021. Þeirra á meðal voru elskendur hins 86 ára gamla Lewis og samstarfsmenn.
Það má segja að Lewis þessi sé Íslandsvinur, en hann keypti tæpan 10% hlut í MP banka árið 2011 og vakti það furðu.
Í viðtali við Stöð tvö það sama ár var Sigurður Atli Jónsson, þáverandi forstjóri MP banka, spurður um það hvers vegna Lewis, og fleiri erlendir auðmenn, hefðu keypt í bankanum.
„Þetta er eiginlega bara góð spurning og maður veltir þessu fyrir sér sjálfur,“ sagði Sigurður Atli.
MP banki sameinaðist fjárfestingabankanum Straumi árið 2015. Síðar sama ár varð Kvika til úr bönkunum tveimur en Lewis á ekki hlut í Kviku.
„Ekkert af þessu var nauðsynlegt. Joe Lewis var ríkur maður“
Saksóknarar í New York segja Lewis hafa brotið lög með því að umbuna starfsmönnum sínum með innherjaupplýsingum og fyrir að hafa gefið vinum sínum og elskendum slíkar upplýsingar að gjöf.
„Þetta er svindl og gengur gegn lögum,“ sagði saksóknarinn Damian Williams.
„Við höldum því fram að Joe Lewis hafi árum saman misnotað aðgang sinn að stjórnarfundum fyrirækja og ítrekað veitt elskendum sínum, aðstoðarmönnum, flugmönnum og vinum sínum innherjaupplýsingar. Ekkert af þessu var nauðsynlegt. Joe Lewis var ríkur maður.“
Tottenham krúnudjásnið
David Zornow, lögmaður Lewis, segir að saksóknararnir hafi gert svívirðileg mistök með því að kæra Lewis. Hann er búsettur á Bahamaeyjum og segir Zornow að Lewis hafi af fúsum og frjálsum vilja ferðast til Bandaríkjanna til þess að bregðast við ákærunum.
Lewis er eigandi félagsins Tavistock Group, gríðarstórs vefs fyrirtækja í 13 löndum. Á meðal krúnudjásna Tavistock er meirihluti í breska úrvalsdeildarliðinu Tottenham.
Liðið sendi frá sér tilkynningu í dag og sagði mál Lewis ekki tengjast liðinu með neinum hætti.
Lewis efnaðist á gjaldeyrisviðskiptum sem hann stóð í áratugum saman. Bloomberg telur eignir hans virði ríflega 6,5 milljarða dollara.
Athugasemdir