Það er engum vafa bundið að mikill uppgangur hefur verið í efnahagslífinu að undanförnu. Á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs er hagvöxtur 6,1% þegar leiðrétt hefur verið fyrir sveiflum innan ársins. Sveitarfélögin hafa ekki farið varhluta af þessu en tölur um tekjur þeirra af útsvari fyrir fyrri helming ársins liggja nú fyrir og þær sýna þetta. Á fyrra árshelmingi ársins í ár voru þær næstum 138 milljarðar, 13,4% hærri en á sama tímabili í fyrra.
Þarna er þó ekki allt sem sýnist. Meðal annars er útsvarshlutfall hærra í ár en var í fyrra vegna breytinga á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk en útsvarsstofninn í heild er 11,7% hærri í ár en hann var í fyrra. Þá hefur landsmönnum fjölgað svo um munar en í upphafi þessa árs voru þeir 3,1% fleiri en þeir höfðu verið árið áður. Að sönnu hjálpa tekjur þeirra sveitarfélögunum að kosta þá þjónustu sem þau veita en þeim fylgja einnig útgjöld. Engu að síður er útsvarsstofninn á mann í ár 8,4% hærri en hann var á sama tímabili fyrir ári.
Uppistaðan í staðgreiðslu útsvars eru launatekjur og frá upphafi síðasta árs til miðs árs í ár hefur launavísitalan hækkað um 13,7%; meira en tekjur sveitarfélaganna á mann. Á þessum útreikningi þarf að gera þá fyrirvara að tekjur sveitarfélaga í staðgreiðslu í hverjum mánuði endurspegla að umtalsverðu leyti laun fyrir vinnu sem unnin var mánuðinn á undan og að ég hef notast við íbúafjöldann í upphafi hvors árs enda hef ég ekki aðgang að tölum um íbúafjölda í sveitarfélögum nema í ársbyrjun.
Gangurinn hefur verið misjafn hjá sveitarfélögunum í ár og á Mynd 1 er gerð tilraun til að sýna tvo skýringarþætti fyrir 29 fjölmennustu sveitarfélög landsins. Byggt er á gögnum um skil staðgreiðslu sem birtast á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga og mannfjöldatölum Hagstofu Íslands.
Þau sveitarfélög sem þarna eru sýnd standa fyrir 95% af útsvarsstofni alls landsins. Í þeim 35 sveitarfélögum sem fámennari eru óx mannfjöldinn í heild um 4,1%, meira en gilti um landið í heild en þó mjög breytilega meðan útsvarsstofninn á mann óx um 7,0%, minna en að meðaltali á landinu öllu.
Í sveitarfélögunum sem eru í efri hluta myndarinnar hefur það farið saman að mannfjöldinn óx meira en gilti um meðaltalið á sama tíma og útsvarsstofninn á mann hækkaði meira en hjá heildinni meðan hið gagnstæða á við um þau sveitarfélög sem er í neðri hluta myndarinnar vinstra megin. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa upplifað vöxt útsvarsstofns sem er minni en landsmeðaltal (Reykjavík hefur að sjálfsögðu meiri áhrif á landsmeðaltalið en nokkurt annað sveitarfélag). Vöxtur bæði mannfjölda og útsvarsstofns hefur verið meiri Í Reykjavík í ár en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu ef fjölgun íbúa í Mosfellsbæ er undanskilin. Bæði sveitarfélögin á Suðurnesjum sem mest byggja á ferðaþjónustu hafa vaxið bæði í mannfjölda og aukningu útsvarsstofns og Reykjanesbær umfram önnur. Lesendur geta skoðað hvar þeirra sveitarfélög stendur þeim myndum sem hér er að finna.
Á mynd tvö er sýnt hvernig saman fara heildarbreyting á tekjum sveitarfélaganna og hversu hár útsvarsstofninn er á hvern íbúa hefur verið á fyrri hluta þessa árs fyrir sömu 29 sveitarfélögin.
Breytingin sem sýnd er á lóðrétta ásinum sýnir þannig samtals áhrif útsvarshlutfallsins og breytingar á því frá fyrra ári, breytingu útsvarsstofnsins og breytingu íbúafjöldans.
Útsvarsstofn á mann er töluvert breytilegur milli sveitarfélaga. Sum þeirra hafa notfært sér það til hafa útsvarshlutfallið lægra en hafa engu að síður fengið meiri tekjur en mög önnur sem búa við lægri útsvarsstofn í íbúa. Þetta er þó ekki einhlítt; bæði eru til sveitarfélög með háan útsvarsstofn sem leggja á hátt útsvarshlutfall en einnig önnur með lágan stofn sem leggja á lágt hlutfall, einkum ef þau njóta mikilla tekna af fasteignasköttum. Sveitarfélög laga mörg hver útgjöld sín að þeim tekjum sem þau hafa og þess vegna er ekki endilega öruggt að sveitarfélög með háan útsvarsstofn standi betur fjárhagslega en þau sem hafa lægri stofn á íbúa.
Myndin sýnir að þrátt fyrir að hafa haft meiri vöxt útsvarstekna en nokkurt annað sveitarfélag sem þarna er sýnt er Reykjanesbær enn í þeirri stöðu að stofninn á hvern íbúa er lægri en landsmeðaltalið. Einungis tvö sveitarfélög sem hafa útsvarsstofn umfram landsmeðaltal á íbúa hafa haft tekjuvöxt umfram landsmeðaltal, Grindavík og Hornafjörður. Reykjavík og Mosfellsbær deila efstu sætum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um vöxt útsvarstekna meðan mun minni vöxtur á Seltjarnarnesi er yfirunnin af hærri stofni á mann.
Þriðja myndin sýnir svo hversu miklar tekjur sveitarfélögin hafa fengið úr staðgreiðslu það sem af er ári á hvern íbúa í upphafi þessa árs. Fjarðabyggð og Snæfellsbær hafa fengið um 40% meiri tekjur af útsvari á hvern íbúa en þau sveitarfélög sem lægstar hafa tekjurnar. Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er ætlað að koma til móts við þennan mismun í tekjum en hvernig þar tekst til er efni í aðra grein. Útgerðarstaðir þar sem áhrifa loðnuveiðanna í vetur gætir raða sér í efri hluta myndarinnar meðan sveitarfélög þar sem byggð er dreifð eru í neðri hluta hennar.
Höfundur er skipulagsfræðingur.
Athugasemdir