Þó að ríkisstjórnarflokkarnir hafi bætt við sig fylgi frá því í júnímánuði myndi ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks falla ef gengið yrði til kosninga í dag, miðað við nýja fylgiskönnun Maskínu.
Ríkisstjórnarflokkarnir mælast samtals með 36,9% fylgi: Sjálfstæðisflokkurinn með 19,3%, Framsóknarflokkurinn með 9,6% og Vinstri græn með 8%.
Samfylkingin mælist stærsti flokkur landsins þriðja mánuðinn í röð með um 25% fylgi en það dróst saman um 2% á milli mánaða. Flokkurinn hlaut 9,9% atkvæða í síðustu þingkosningum.
Viðreisn á hægri uppleið
Fylgi Viðreisnar hefur verið á hægri uppleið í könnunum Maskínu og mælist nú rúm 10% en Píratar mælast með 11%.
Flokkur fólksins og Miðflokkurinn mældust með um 6% fylgi en Sósíalistar 4,5%.
Fylgi ríkisstjórnarflokkanna hefur sveiflast nokkuð síðan gengið var til kosninga haustið 2021 en þá fengu flokkarnir 54,4% atkvæða samanlagt. Lægst mældist fylgi þeirra í júnímánuði síðastliðnum: 34,2%, en fylgi flokkanna hefur ekki náð 40% í könnunum Maskínu síðan í janúarmánuði síðastliðnum.
Að óbreyttu eiga næstu kosningar til Alþingis að fara fram árið 2025.
Vanhæfasta og spiltasta ríkisÓstjórn allra tíma og þó er af nægu að taka.