Nanna Kristjánsdóttir er 22 ára nemi í stærðfræði við Háskóla Íslands sem heldur úti sumarbúðunum Stelpur diffra. Áhugi hennar á stærðfræði byrjaði snemma en hún man eftir því að hafa spurt kennarann sinn í þriðja bekk hvað prímtölur væru.
Það er Nönnu hjartans mál að búa til samfélag fyrir stelpur og stálp í stærðfræði enda segist hún hafa reynslu af því að vera eina stelpan í hópi stráka. „Ég tók þátt í stærðfræðikeppni í 10. bekk. Það er til mjög sæt mynd af mér og svo níu strákum hvort sínum megin við mig. Ég vann keppnina og man hvað mér leið illa fyrir hönd strákanna að ég hefði rænt þá sigrinum og gleðinni af því að vinna. Ólíkt þeim átti ég engan í keppninni til að fagna með.“
Nanna lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð en þar tók hún ellefu stærðfræðiáfanga. Unga stærðfræðingnum finnst eftirminnilegt að aðeins einn af þeim kennurum sem kenndu henni stærðfræði var kona. „Hugmyndin um kvenstærðfræðing var ekki til í hausnum á mér.“ Fyrir utan stærðfræðistofurnar í MH var plakat af stærðfræðingum, svokallað stærðfræðingatal, og á því var aðeins ein kona, Emmy Noether. „Hún var einn mikilvægasti stærðfræðingur 20. aldarinnar,“ segir Nanna. Textinn á plakatinu skýrði frá hetjusögum karlkyns stærðfræðinga en um Emmy stóð: „Hún var feit, fyrirferðarmikil og hávær.“ Það kom þó einnig fram að hún hefði verið viðkunnanleg. Á heimasíðu MH má sjá mynd af Nönnu afhenda rektor skólans leiðréttingu á stærðfræðingatalinu. Á nýja plakatinu fá nokkrar þeirra kvenna sem lögðu sitt af mörkum til stærðfræðinnar gegnum aldirnar verðskuldað pláss.
Í dag stendur Nanna fyrir sumarbúðunum Stelpur diffra sem ætlaðar eru stelpum og kynsegin nemendum á framhaldsskólaaldri sem hafa áhuga á stærðfræði. Sumarbúðirnar standa yfir frá 8. til 12. ágúst og fer kennsla fram í Háskóla Íslands. Hugmyndin kviknaði þegar Nanna var á síðasta árinu sínu í MH en þá langaði hana sjálfa að fara í sumarbúðir en þær var ekki að finna á Íslandi. Kostnaðurinn við slíka námsferð erlendis getur verið gríðarlega mikill og Nönnu langaði að búa til rými þar sem stelpur og stálp hér á Íslandi gætu komið saman og deilt áhuga sínum á stærðfræði. Hún bar hugmynd sína um að stofna sumarbúðirnar Stelpur diffra undir kennarann sinn, Önnu Helgu Jónsdóttur, dósent í stærðfræði, sem hjálpaði henni að hefja undirbúning. Auk Önnu hefur Bjarnheiður Kristinsdóttir, lektor í stærðfræði og stærðfræðimenntun, aðstoðað Nönnu.
Fyrsta námskeiðið var haldið sumarið 2021 og voru þátttakendur þá sex talsins. Á síðasta ári voru nemendur 18. „Það er þreföldun frá árinu áður,“ segir Nanna sem býst við svipuðum fjölda í ár. Í lok námskeiðs gefst nemendum tækifæri á að veita sumarbúðunum umsögn. Þær stelpur sem hafa tekið þátt segjast finna fyrir meira sjálfstrausti, eiga sér nýjar kvenfyrirmyndir og ein þeirra sagðist hafa „örlítið meiri hugmynd um hvað ég vil gera í framtíðinni“.
Sterk vinasambönd hafa myndast í sumarbúðunum. Nanna rifjar upp piparkökugerð fyrir síðustu jól sem hlýjaði henni um hjartarætur. „Í fyrra gerðu þær algebruleg form sem hafa þann eiginleika að þú getur lagt þau við hliðina á hvert öðru. Þau geta litið alls konar út. Þær gerðu allar sitt eigið piparkökuform sem við 3D prentuðum út, og af því að þú getur lagt formin hlið við hlið er hægt að nota allt deigið,“ segir Nanna og brosir. „Eftir lokaprófin síðasta vetur buðum við þeim í piparkökubakstur uppi í háskóla þar sem stelpurnar gátu hist aftur sem hópur. Það var gaman að sjá hvað það var þægileg stemning í hópnum.“ Tveir þátttakenda voru nemendur Menntaskóla Borgarfjarðar sem er í Borgarnesi og þær keyrðu til Reykjavíkur daglega svo þær gætu verið með.
Eina stelpan
Nönnu finnst mjög mikilvægt að nemendur kynnist kvenkyns fyrirmyndum og eru umsjónarmenn sumarbúðanna konur sem hafa látið til sín taka í fræðigreininni hér á landi. „Bæði eru konur að kenna í sumarbúðunum og svo fáum við líka konur í heimsókn í morgunkaffi sem segja frá sínum störfum. Þær vinna ólík störf en eiga það allar sameiginlegt að vera stærðfræðimenntaðar. Til dæmis kemur ein listakona til okkar í ár sem notar stærðfræðina mikið í listinni.“
Nanna er eina stelpan í sínum bekk í háskólanum og eini nemandinn sem ekki lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík. Í greininni Kannski erum við, sem birtist árið 2011 í Tímarit um menntarannsóknir, er fjallað um orðræðu í karllægu umhverfi íslenskra raunvísinda. „Ég tengi alveg við þetta sem er talað um í greininni. Mér finnst ég að einhverju leyti hafa minnkað kvenleikann til að standa minna út úr. Ég hef mætt máluð upp í skóla, fengið komment á það og ekki gert það aftur.“
Það eru fleiri ungar konur að læra stærðfræði í háskólanum en að sögn Nönnu eru þær ýmist einu ári á eftir henni eða á undan. Hún segist njóta góðs af því að hafa kynnst stelpum í hagnýtri stærðfræði. Hún segir hvetjandi að vera í kringum ungar konur sem ekki draga úr kvenleika sínum til þess að vera teknar alvarlega sem stærðfræðingar, heldur séu nákvæmlega eins og þær langar að vera.
„Ég hef mætt máluð upp í skóla, fengið komment á það og ekki gert það aftur.“
Sjálf á Nanna eitt ár eftir af háskólanáminu. Aðspurð hvað taki við segir hún: „Ég hef eiginlega ekki hugmynd.“ Hún vinnur hjá Vísindasmiðjunni auk þess að halda sumarbúðirnar og nýtur þess mjög. „Draumurinn var að fara í stærðfræðikennslu en núna hefur stærðfræði- og vísindamiðlun vakið gleði í hjarta mínu. Mig langar að geta boðið upp á ólíkar leiðir fyrir fólk til að læra og finna áhuga á hlutunum. Ég vil vera einhvers staðar þar sem ég get komið að samfélagslegu gagni.“
Athugasemdir